Ofnbakað rótargrænmeti

Þessi uppskrift er upprunalega frá Deliu Smith sem ég held mikið upp á en ég hef þó gert örlitlar breytingar á henni (og þá er ég að meina uppskriftinni, …ekki Deliu ho ho). Ég notaði til dæmis kókosolíu í stað ólífuolíu og notaði minna af henni en átti að gera. Mér finnst bakað grænmeti löðrandi í olíu nefnilega ekki lystugt. Það er upplagt að nota það íslenska rótargrænmeti sem til er á haustin og ég notaði hér t.d. íslenskar rófur en einnig má nota gulrætur, kartöflur, rauðrófur o.fl. &;

Þyngd grænmetis miðast við að búið sé að skræla og hreinsa það.

&;

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta
 • Vegan

Ofnbakað rótargrænmeti

Fyrir 3-4 sem meðlæti

Innihald

 • 6 skallotlaukar, afhýddir og skornir í fjóra hluta
 • 175 g butternut grasker (enska: butternut squash), afhýtt og saxað í stóra bita
 • 175 g rófur, afhýdd og skorin í stóra bita
 • 175 g steinseljurót, afhýdd og skorin í stóra bita
 • 175 g sætar kartöflur, skræld og skorin í stóra bita
 • 1 msk ferskt krydd t.d. timian, rósmarín, steinselja o.fl.
 • 1 msk kókosolía
 • 2 msk vatn
 • 1 hvítlauksrif, saxað smátt
 • Salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • Svartur pipar

Aðferð

 1. Afhýðið skallotlauka, grasker, rófur, steinseljurót og sætar kartöflur.
 2. Skerið grænmetið í grófa bita (munnbitsstóra).
 3. Afhýðið hvítlauk og saxið smátt eða merjið. Setjið í litla skál ásamt kókosolíu og vatni.
 4. Setjið bökunarpappír í ofnskúffu og raðið grænmetinu í einu lagi (ekki ofan á hvort annað) í ofnskúffuna. Þið gætuð þurft tvær ofnskúffur.
 5. Penslið með hvítlauksblöndunni.
 6. Kryddið vel og hristið ofnskúffuna til að allt blandist saman.
 7. Bakið við 220°C í um 40-50 mínútur.

Gott að hafa í huga

 • Nota má annað grænmeti eins og t.d. rauðlauk, gulrætur, kartöflur, rauðrófur, hnúðkál, næpur o.fl.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.