Kartöfluflögur

Kartöfluflögur.....Whaaaaaat? Jábbs. Prófið bara sjálf. Þessar getið þið borðað fyrir framan sjónvarpið með góðri samvisku!! Ég veit ekkert hversu lengi þessar geymast því þær klárast alltaf á fyrstu 5 mínútum eftir að þær koma út úr ofninum! Ok það vantar djúsí fitubragðið en hverjum er ekki sama. Þessar má allavega borða svona hvunndags og geyma þessar óhollu þá fyrir nammidagana!!

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Kartöfluflögur

Fyrir 1-2

Innihald

  • 2 stórar kartöflur (þessar með mjög þunnu hýði, mjög þéttar í sér, helst nýjar)
  • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)

Aðferð

  1. Skerið kartöfluna í næfurþunnar sneiðar, eins þunnar og þið mögulega getið (tæpan hálfan millimetra). Gott er að nota lítinn grænmetishníf með riffluðu blaði eða mandolin skera. Sneiðarnar mega samt ekki vera of þunnar því þá brenna þær strax.
  2. Raðið á ofnplötu, með bökunarpappír undir.
  3. Saltið eftir smekk.
  4. Hitið í bakaraofni við 80°C í 1 klukkustund
  5. Hækkið hitann í 100°C í um 30 mínútur (bakað samtals í um 1,5 klukkutíma). Fylgist samt vel með þeim svo þær brenni ekki.
  6. Berið fram strax.

Gott að hafa í huga

  • Hægt er að krydda með einhverju öðru en salti t.d. papriku eða lauk/hvítlauk. Passið að nota holl og góð krydd eins og t.d. frá Pottagöldrum.
  • Hægt er að sneiða sætar kartöflur, rófur og hvers kyns rótargrænmeti til að baka.
  • Það er rosa gott að nota kartöfluhýði líka. Eitthvað sem er sniðugt að láta eldri krakka bardúsa við og sjá um þ.e. skræla soðnar kartöflur og henda þeim inn í ofn!!

Ummæli um uppskriftina

gestur
09. jan. 2013

Á að sjóða karteflurnar fyrst?

sigrun
09. jan. 2013

Nei nei, það kæmi annars fram í lýsingunni.