Fyrir smáfólkið
Það er ekkert vit í því að vera með uppskriftavef með uppskriftum að hollum mat ef ekkert er í boði fyrir minnsta fólkið! Eða það finnst mér að minnsta kosti því við erum jú fyrirmyndirnar og setjum grunninn að lífinu með öllu okkar atferli um leið og börnin koma í heiminn. Það á líka við um mat. Þó að börnin fái móðurmjólkina (í flestum tilvikum) nánast eingöngu fyrstu 6 mánuði ævinnar þá eru börnin eins og svampar varðandi umhverfi sitt og eru snemma byrjuð að meðtaka lykt, hljóð og áferð. Þó að ungbörn viti ekki hvað indverskur matur eða soðin ýsa er, finna þau samt lyktina af fiskinum, grænmetinu, kryddunum o.s.frv. Eftir 6 mánaða aldurinn (sum reyndar aðeins fyrr) eru mörg börn farin að smakka grauta, flest byrja á hrísgraut eða maísgraut og svo fara þau að fá eplagraut eða perugraut og jafnvel eitthvað meira. Um 9 mánaða mega þau fá svolítið grófari fæðu (með litlum bitum í mauki) en upp úr 12 mánaða eru flest börn komin með nokkrar tennur og þá er um að gera að leyfa þeim að bíta sig t.d. í gegnum litla kjötbita, fiskbita og grænmetisbita. Þetta eru spennandi tímar, því get ég lofað ykkur. Það er líka talað um að eftir því sem börn fá fjölbreyttari fæðu á fyrsta ári, því minna matvönd verða þau síðar meir.
Mér finnst frábært (og sjálfsagt) að foreldrar búi til mat fyrir börnin sín því þannig er þeim gefinn góður grunnur fyrir lífið. Þannig er líka betra að fylgjast með alls kyns fæðuofnæmi því foreldrarnir vita jú nákvæmlega hvað er verið að gefa börnunum og vita allt um innihaldið. Það er afskaplega gefandi að upplifa ungbörn samþykkja mat sem maður býr til sjálfur. Það er fátt skemmtilegra heldur en þegar börn byrja að umla „mmmmmmm”. Það er einfaldara en maður heldur að útbúa mat fyrir ungbörn því þrátt fyrir að maður hafi engan tíma aflögu eftir að nýr einstaklingur er kominn á heimilið þá er yfirleitt hægt að taka frá nokkrar klukkustundur kannski yfir helgi eða þegar einhver getur setið hjá barninu. Þá er um að gera að nýta tímann og útbúa helling af mat í einu og frysta til síðari tíma. Börnin hafa afskaplega litla þolinmæði þegar kemur að því að bíða eftir mat og þess vegna er ég yfirleitt búin að útbúa mat í frystinn með góðum fyrirvara og hef matinn tilbúinn í ísskápnum fyrir næsta dag og á þá aðeins eftir að hita hann upp.
Ráðleggingar að þessum flokki fékk ég frá vinkonum mínum Elvu Brá og nöfnu minni Sigrúnu Ásu en þær útbjuggu einnig sjálfar til mat fyrir sín börn. Ég hef svo að sjálfsögðu gert ótal tilraunir á eigin Afkvæmi! Alma María Rögnvaldsdóttir hjúkrunarfræðingur var einnig svo ljúf að lesa yfir textann með tilliti til næringar o.fl. Ef þið hafið einhverjar spurningar varðandi fæðu, fæðuofnæmi eða óþol eða ef barnið tekur illa við mat o.s.frv. er best að tala við hjúkrunarkonu eða lækni í ungbarnaverndinni.
Með tíð og tíma mun ég svo bæta inn fleiri uppskriftum og ef þið eigið einhverjar góðar og hollar uppáhaldsuppskriftir fyrir krílin væri gaman að fá þær frá ykkur. Hafið í huga að þessar uppskriftir eru tillögur bæði hvað varðar aldur, fæðusamsetningu og skammtastærð. Öll börn eru mismunandi, sum þurfa meira, önnur minna og börn eru misjafnlega fljót að samþykkja fasta fæðu. Þau eru einnig misjafnlega fljót að samþykkja nýtt bragð. Það er um að gera að gera tilraunir og prófa sig áfram. Best er að kynna einungis eina fæðutegund í einu í nokkra daga áður en fæðutegundum er blandað saman. Til dæmis væri gott að gefa perugraut í 3 daga, svo bananagraut eða eplagraut í 3 daga og ef ekkert ofnæmi er til staðar má blanda fæðutegundunum saman.
Avocado og bananamauk
Þegar maður blandar saman avocadoi og banana þá verða einhverjir töfrar til.
Avocadomauk
Avocadomauk hljómar kannski ekki vel fyrir suma fullorðna en avocado er svo bráðhollt að maður ætti að byrja að borða það um leið og maður getur!
Banana- mango og sveskjumauk
Þessi blanda er heppileg fyrir börn sem eru farin að tyggja litla bita. Það þarf að mauka sveskjurnar vel því oft eru litlar flyksur eftir sem litlum börnum gengur illa að kyngja.
Bláberjagrautur
Þessi uppskrift er tilvalin í berjavertíðinni. Það er ekkert betra en að nota fersk bláber í matinn sinn, hvað þá fyrir litlu börnin.
Blandað grænmeti
Þegar tíminn er naumur (eins og alltaf þegar maður er með smábarn á handleggjunum) getur verið gott að mauka mikið magn í einu og frysta. Það sparar manni ómældan tíma.
Epla- og perumauk
Epli og perur eru góð blanda og betri hjón í ávaxtaríkinu er vart hægt að hugsa sér!
Eplamauk
Epli eru prýðileg sem fyrsta mauk þar sem þau valda afar sjaldan ofnæmi hjá litlum börnum.
Fiskur með kartöflum og grænmeti
Þessi uppskrift kemur úr bæklingi sem heitir Næring ungbarna og er gefin út af Manneldisráði og Miðstöð heilsuverndar barna.
Fyrsta kexið
Þetta kex er mátulega hart (en ekki of), gott á milli fingranna (ekki of gróft) og er hvorki of sætt né of sterkt á neinn hátt. Þetta kex er upplagt að eiga fyrir börnin á milli mála.
Fyrsti grauturinn
Hrísgrauturinn er eitt af því fyrsta sem börn smakka á, á eftir móðurmjólkinni. Hrísgrautur sem ætlaður er ungbörnum fer vel í maga og er mildur á bragðið án þess þó að vera alveg bragðlaus.
Graskersmauk
Þetta mauk er sniðug viðbót fyrir ungbörnin því grasker er milt og gott og ekki of sætt. Það hentar vel sem grunnmauk sem maður getur fryst og bætt svo alls kyns hráefni út í.
Grænmetissoð
Þetta soð má nota í alls kyns grauta og súpur og sömuleiðis má nota það til að sjóða t.d. kjúkling eða fisk í.
Gulrótar- og kartöflumauk
Þessi blanda, gulrætur og kartöflur er sígild blanda sem örugglega flest börn hafa smakkað einhvern tímann á fyrsta æviárinu.
Gulrótar-, avocado- og kartöflumauk
Þetta mauk er hentugt að því leytinu að það inniheldur flókin kolvetni og er fyllandi. Það er einnig mátulega sætt vegna gulrótanna og hentar því vel sem grunnmauk með meira grænmeti.
Kartöflu-, maískorna- og gulrótarmauk
Þetta er gott mauk fyrir litla kroppa en hentar ekki vel sem fyrsta grænmetismaukið. Það hentar betur börn sem eru farin að borða fasta fæðu og eru ekki með ofnæmi fyrir lauk.
Kartöflumauk
Kartöflumauk eitt og sér er ekki endilega lystugt né gott á bragðið en maukað saman við ýmislegt annað grænmeti er það góð viðbót í fjölbreyttri fæðu ungs barns.
Kjúklingur með blaðlauk, gulrótum og grænum baunum
Þessi réttur kemur úr frábærri bók Annabel Karmel Top 100 Baby Purees. Hægt er að nota lambakjöt, fisk eða nautakjöt í staðinn fyrir kjúklinginn.
Maís- eða hrísmjölsgrautur
Þessi uppskrift er ósköp venjuleg uppskrift að morgungraut fyrir yngsta fólkið. Grauturinn er léttur í maga og glúteinlaus.
Mangomauk
Mango eða papayamauk er hentugt mauk fyrir litlu krílin en það þarf að gæta þess að ávöxturinn sé vel þroskaður því annars er hann allt of súr.
Mauk úr sætum kartöflum
Sætar kartöflur eru afar gómsætar sérstaklega fyrir minnstu sælkerana. Litlu börnunum líkar yfirleitt afar vel við sætt, milt bragðið og maukið fer einnig vel í magann.
Mauk úr sætum kartöflum og hrísmjöli
Þessi samsetning er hentug því hún er bæði bragðgóð, mild og fer einnig vel í maga. Lítil kríli fúlsa ákaflega sjaldan við sætum kartöflum og með hrísmjöli getur þessi samsetning ekki klikkað!
Perumauk
Þetta mauk er hentugt sem fyrsta ávaxtamaukið því perur hafa þann eiginleika að vera nánast lausar við ofnmæmisvaldandi efni.
Spergilkáls- og hrísmjölsmauk
Hrísmjöli má blanda við flest ávaxta- og grænmetismauk.
Spergilkálsmauk
Spergilkál (brokkolí) inniheldur járn og mikið af C, K og A vítamíni.
Sveskju- og bananamauk
Sveskjumauk er kannski ekki besta maukið til að prófa í fyrstu skiptin þar sem það er bæði trefjaríkt og losandi.