Spurt og svarað
Að matreiða úr hollu hráefni getur verið mun flóknara en úr hefðbundinni smjör-, hveiti- og sykursamsetningu. Ég hef eyðilagt grilljón uppskriftir þegar ég hef verið að gera tilraunir í gegnum tíðina. Það er fátt sem getur klikkað með smjöri, hveiti og sykri (nema auðvitað heilsan) og þess vegna þarf maður að vera svolítið sveigjanlegur þegar maður matreiðir úr hollara hráefni. Að ná leikni í að matreiða úr hollu hráefni getur tekið tíma og þolinmæði. Það skyldi þó enginn örvænta og með svolítilli æfingu getið þið orðið mjög flink í heilsueldhúsinu. Ég tala af reynslu því ég opnaði vefinn minn 2003 og árið 2000 var ég enn þá að borða pakkasúpur og borða þurrt og ósoðið pasta því ég kunni ekki að sjóða það. Hér fyrir neðan er safn af spurningum sem ég hef fengið í gegnum tíðina varðandi bakstur, hráefni og fleira.
Smellið á spurningu hér fyrir neðan og svarið mun birtast fyrir neðan spurninguna.
Ef þið finnið ekki svar við spurningunni ykkar hér, getið þið sent mér fyrirspurn.
Bakstur
Baksturinn misheppnaðist hjá mér?
Það geta verið ein milljón og sjö ástæður fyrir því að baksturinn heppnaðist ekki. Það að bakstur heppnist er háð mörgum þáttum t.d. réttri samsetningu á hráefni, að hitastig bakaraofns sé rétt stillt o.fl. Svo getur þetta líka bara verið „einn af þessum dögum” þar sem allt klúðrast (upplifið þið ekki líka þannig daga?).  Allt sem ég baka og set á vefinn hefur heppnast oftar en einu sinni og ég set ekkert á vefinn sem ég er ekki viss um að ég geti ekki búið til aftur með sömu uppskrift. Ég er þó ekki með eldhúsið ykkar á hreinu né þau tæki og tól sem þið notið svo þið verðið að prufa ykkur áfram. Hafið í huga að það er töluvert erfiðara að baka úr hollu hráefni heldur en óhollu svo fylgið uppskriftinni eins nákvæmlega og þið getið.
Baksturinn varð of þurr?
- Bætið við meiri vökva næst. Oft nægja nokkrar matskeiðar til viðbótar.
- Bakið við lægri hita og/eða styttri tíma.
- Bætið við meiri fitu. Ég nota alltaf lágmarks fitu í uppskriftirnar mínar en áferðin hentar þar af leiðandi ekki öllum.
Brauðið varð hart að utan en blautt í miðjunni?
- Ef brauðið varð mjög blautt í miðjunni en hart að utan þá hefur deigið sjálft verið of blautt. Einnig gæti verið að ofninn hafi verið stilltur á of mikinn hita. Prófið að lækka hitann og baka við lengri tíma.
- Góð regla er að setja aldrei meira en helminginn af vökvanum út í brauð til að byrja með og fikra mig svo áfram. Ef notað er spelti þarf að athuga að það er viðkvæmt fyrir raka. Ef þið eruð til dæmis að baka á rigningardegi eða eruð nálægt þvottahúsi með blautum þvotti í þá gæti þurft minni vökva en ella. Best er að fikra sig áfram. Mér finnst góð regla að miða við að maður geti ekki hnoðað deigið en að það sé samt ekki það blautt að það leki t.d. í stórum slettum af sleif.
Brauðið varð of blautt?
- Góð regla að setja aldrei meira en helminginn af vökvanum út í brauð til að byrja með og fikra sig svo áfram.
- Bakið í lengri tíma næst. Gott er að bæta ekki meira en 5 mínútum við baksturinn og kíkja svo reglulega inn í ofninn eftir það, á 5 mínútna fresti. Stundum þegar maður heldur að eitthvað sé ekki tilbúið, þurfti bara nokkrar mínútur til.
- Hækkið hitastigið. Ef þið eruð ekki með blástursofn, gætuð þið þurft að baka við aðeins hærra hitastig, um 10-20°C.
- Notið minni vökva næst. Spelti (og sumar tegundir mjöls eins og hrísmjöl) er sérlega viðkvæmt fyrir raka. Eftir því sem það er eldra, hefur það dregið í sig meiri raka og því þarf minni vökva í bakstri. Einnig hef ég oft lent í því að þegar ég baka eftir miklar rigningar, þarf mun minna af vökvanum í baksturinn. Einnig munar hvort ég er að baka t.d. í London eða á Íslandi! Spelti er því svolítið dyntótt. Best er að byrja með minna magn af vökva en gefið er upp í uppskriftinni og bæta svo við smátt og smátt. Það vökvamagn sem gefið er upp í uppskriftunum mínum er yfirleitt hámarksmagn.
Brauðið varð of þungt?
Velkomin í gerlausan bakstur! Gerlaus brauð verða aldrei eins létt og brauð með geri. Það er einmitt gerið sem gerir loftið sem léttir brauðin. Það er þó afar mikilvægt með allan gerlausan bakstur (sem og kökubrauð, muffinsa og þess háttar) að hræra deigið sem minnst, bara rétt þannig að hráefnið blandist saman og ekki meira. Það er best að velta deiginu til með sleif eða sleikju en ekki hræra. Kosturinn við gerlaus brauð er að þau taka skamman tíman í undirbúningi og ólíkt brauði með geri þarf ekki að lemja það sundur og saman, ekkert að hnoða og ekki að bíða eftir að það hefist.
Ég notaði muffinsform úr pappír og þeir brunnu við pappírinn?
- Þar sem afar lítil fita er í uppskriftunum mínum er ekki hægt að nota venjuleg muffinsform úr pappír. Ég nota yfirleitt silicon muffinsform sem fást víða. Gott er að setja nokkra dropa af kókosolíu í eldhúsþurrku og strjúka formin að innan með henni.
- Það sem ég hef líka gert stundum er að sníða úr bökunarpappír í hringi sem komast með góðu móti ofan í muffinsbökunarform úr járni (og deigið fer svo þar ofan í). Til þess þarf maður smjörpappír, eina meðalstóra undirskál, tússpenna og skæri. Svo er bara að teikna utanum diskinn og klippa. Maður getur notað útklipptu hringina um 6 sinnum.
Má nota uppskriftirnar þínar í brauðvél?
Já, en fylgið leiðbeiningum fyrir bakstur á gerlausu brauði (t.d. soda bread ef slíkt er í boði). Ég hef aldrei átt brauðvél svo ég kann ekki mikið á svoleiðis græju. Brauðin mín taka svo skamman tíma í undirbúning að það myndi varla taka því að nota brauðvél.
Má undirbúa brauðuppskriftir að kvöldi og baka að morgni?
Já, að hluta. Blandið þurrefnunum saman, setjið í skál að kvöldi og blandið svo blautu hráefnunum út í að morgni. Það tekur ekki nema 10 mínútur að hræra í flest brauðin mín svo þið getið skellt brauðbollum í ofninn á meðan þið stökkvið í sturtu (eða fáið ykkur kaffibolla) og þau eru tilbúin þegar þið eruð búin! Brauðin taka aðeins lengri tíma í bakstri.
Smákökurnar verða stundum svo fljótt linar?
Ég nota lágmarks fitu í uppskriftirnar mínar og því verða smákökur tiltölulega fljótt mjúkar (mismunandi eftir uppskriftum). Ráðið sem ég gef notendum er að frysta kökurnar þegar þær eru nýkomnar úr ofninum (og búnar að kólna) og hita svo upp aftur í ofninum eða brauðrist, þannig verða þær eins og nýjar, stökkar og fínar.
Hráefni
Bragðast sojakjöt eins og alvöru kjöt?
Nei sojakjöt er tiltölulega bragðlítið og hentar því vel í alls kyns pottrétti þar sem það dregur í sig bragð af öðru innihaldi. Sojakjöt er unnið úr sojamjöli. Sojakjöt verður að leggja í bleyti í um klukkutíma áður en það er notað og oft er gott að láta það marinerast í t.d. heitu vatni með grænmetisteningi. Gott er að hafa í huga að sojakjöt er ekki hitaeiningaminna en venjulegt kjöt þ.e. það gefur álíka margar hitaeiningar en inniheldur minna af mettaðri fitu og er því betra fyrir æðarnar okkar. Próteininnihaldið er mjög hátt eða um 70% en próteinsamsetningin er þó eilítið öðruvís þar sem ekki er um að ræða dýraprótein. Það er þó talið mjög gott fyrir vöðvauppbyggingu.