Sætar kartöflur bakaðar í ofni

Þetta er nú varla uppskrift því aðferðin er svo einföld að það er næstum því hlægilegt. Þessi uppskrift á líklega heimsmetið í fæstu innihaldsatriðum, það er aðeins eitt innihald...einungis sætar kartöflur. Nákvæmlega ekkert annað. Þetta meðlæti hef ég fengið hjá Smára bróður og Önnu Stínu konunni hans. Ég hafði notað sætar kartöflur í mat áður en aldrei prófað að baka þær beint í ofni eins og þau gera. Þetta er alveg sjúklega gott og maður endar oft á því að borða þessar kartöflur bara sem snakk, mjög erfitt að hætta. Þær eru svo sætar að það lekur stundum úr þeim eins konar síróp við baksturinn (enda er sterkjan stundum notuð sem náttúrulegt sætuefni). Sætar kartöflur eru brúnbleikar á lit, oft ílangar og er hægt að finna þær í grænmetisdeildum í flestum matvörubúðum. Kartöflurnar þarf ekki að skola né skræla bara skera þær í báta og inn í ofn. Vissuð þið að það er minna „sykurmagn” í sætri kartöflu en venjulegri kartöflu! Sætar kartöflur eru stútfullar af C vítamíni og trefjum og eru afar hollar.


Einfalt og þægilegt og hollt og gott. Getur varla verið betra

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Sætar kartöflur bakaðar í ofni

Fyrir 2 sem meðlæti

Innihald

  • 1-2 sætar kartöflur frekar stórar (fer eftir því hversu mikið meðlætið á að vera)

Aðferð

  1. Skerið kartöflurnar í frekar litla bita (báta) um 2 sm á lengd og 1 sm á breidd.
  2. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og dreifið bitunum vel yfir plötuna.
  3. Bakið við 180-200°C eða þangað til hýðið er orðið nokkuð hart og kartöflurnar hafa dökknað aðeins.
  4. Hrærið aðeins í kartöflunum eftir um 15-20 mínútur og bakið áfram ef ykkur þykir þurfa.

Gott að hafa í huga

  • Þetta meðlæti er hægt að nota með nánast öllum mat t.d. indverskum mat, pakistönskum mat, alls kyns kjöti (þó ég borði það nú ekki þá hef ég heimildir fyrir því að það passi vel við til dæmis lambakjöt), grillmat o.fl.
  • Krydda má kartöflurnar að vild t.d. með papriku, pipar, hvítlaukskryddi o.fl.
  • Best er að borða kartöflurnar strax og þær koma út úr ofninum því þær verða fljótt mjúkar.

Ummæli um uppskriftina

Edda Péturs
11. ágú. 2011

Hæhæ, á ekki að standa að það sé minna sykurmagn í sætri kartöflu en í venjulegri? Annars kemur það ekki mikið á óvart :)

Takk fyrir frábæra síðu!
-Edda

sigrun
11. ágú. 2011

Sæl

Ha ha jú, það er rétt, búin að leiðrétta :) takk

Kv.

Sigrún

Anna Stína
14. maí. 2012

Alltaf jafn gott ;-)

sigrun
14. maí. 2012

Sammála :)