Gulrótar-, ananas og rúsínusalat frá Kenya
Þetta salat hef ég fengið oft og mörgum sinnum í Kenya. Ég hef líka fengið salatið í Tanzaníu enda kannski ekki skrýtið þar sem ananas vex á báðum stöðum og er mikið notaður í matargerð. Salatið er ferskt og gott og mátulega sætt. Mikilvægt er að gulræturnar séu góðar og maður ætti að nota eigin uppskeru ef hægt er (af gulrótum það er að segja....ekki ananas nema þið séuð svo heppin að geta ræktað ananas sem er nú frekar ólíklegt :) Mér finnst þetta salat gott sem meðlæti með alls kyns mat, en sérstaklega með fiski. Það fyndna er að þessi samsetning er ein meginuppstaðan í mörgum gulrótarkökum! Algjör galdrasamsetning og einstaklega holl líka. Salatið er stundum borið fram í ananasbátum og þá er allt kjötið úr ananashelmingum skorið úr. Ef þið nennið að föndra þá er það voða gaman en maður hefur sjaldnast tíma fyrir svoleiðis dúllerí, mitt salat fer allavega bara í skál (og allt of oft á gólfið þegar ég er að flýta mér). Salatið passar jafnt með grillmatnum sem og með jólasteikinni.
Sólskin í skál, algjört vítamínsalat
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
- Hráfæði
Gulrótar-, ananas og rúsínusalat frá Kenya
Innihald
- Fjórðungur ananas, skorinn í litla teninga (afhýðið og skerið miðjuna úr)
- 1 stór gulrót, rifin á rifjárni
- 100 g ljósar rúsínur (sultanas)
Aðferð
- Skerið utan af ananasinum með beittum hnífi. Skerið svo í fjóra báta.
- Skerið miðjuna úr einum fjórðungnum og skerið hann svo í litla bita.
- Afhýðið gulrótina og rífið á rifjárni.
- Blandið öllu saman í skál og kælið.
- Ég hef stundum séð svartar, saxaðar ólífur í salötunum í Kenya og mér finnst það stundum passa en stundum ekki (eftir því hver aðalrétturinn er).
Gott að hafa í huga
- Ef þið finnið ekki ljósar rúsínur má nota dökkar.