Delia Smith er bresk kona um sextugt og hefur skrifað margar matreiðslubækur í gegnum tíðina. Hún hefur nánast kennt Bretum að elda því allir byrja á Deliu Smith. Hún hefur einnig gert sjónvarpsþætti í tengslum við bækurnar og er dýrkuð og dáð af flestum Bretum. Hún er í miklu uppáhaldi hjá mér enda mjög skemmtilegur kokkur. Það er einnig gaman að skoða síðuna hennar því það er af nógu að taka.
Tenglar
Hér hef ég tekið saman tengla að alls kyns efni sem mér þykir fróðlegt eða vefsíðum sem mér þykja áhugaverðar eða skemmtilegar. Ég birti enga tengla hér gegn þóknun og birti þá einungis ef mig langar til þess persónulega.
Síður þekktra matreiðslumanna
Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki enn séð einn einasta Jamie Oliver matreiðsluþátt (á ekki sjónvarp) en ég hef skoðað bækurnar hans (og án okkrar) og ég skil vel ástæðuna fyrir því að hann er dáður og dýrkaður!!! Ég hef gert nokkrar uppskriftir eftir hann og þær heppnast vel.  Ég hef einnig borðað á veitingastaðnum hans 15 í London. Við fengum góða þjónustu og góðan mat. Hann er einnig að gera frábæra hluti með herferð sinni gagnvart óhollu mataræði fólks og að kenna því að elda hollan mat frá grunni. Ég verð að viðurkenna að ég er svolítið skotin í Jamie.
Nigella er bresk sjónvarskokka-gyðja og er ekki neitt voðalega í hollustunni (hver man ekki eftir djúpsteikta Marsinu t.d.???). Uppskriftirnar hennar eru samt bragðgóðar og það má alveg gera þær hollari með svolítilli lagfæringu. Hún er góður penni og skrifar skemmtilegar uppskriftabækur. Ég er t.d. mjög hrifin af „How to be a domestic goddess” bókinni hennar. Hún var ein fyrsta alvöru uppskriftabókin sem ég eignaðist.
Veitingastaðir
Veitingastaðinn Á næstu grösum þekkja allir. Hann var fyrsti grænmetisstaður landsins og er alltaf jafn góður að mínu mati. Mér finnst alltaf notalegt að borða hjá þeim á Laugaveginum.
Grænan kost þarf nú svo sem vart að kynna fyrir fólki enda einn vinsælasti grænmetisstaður landsins. Ég er reglulegur gestur (þegar ég á leið um Ísland) enda er þetta minn uppáhalds staður til að borða á. Mér finnst alltaf gott að borða á Grænum kosti og ég hef aldrei, frá því hann opnaði, orðið fyrir vonbrigðum.
Aðrir vefir
Mér finnst hráfæðispælingar sniðugar þó ég sé ekki endilega að fylgja þeim út í eitt. Ég er sérstaklega hrifin af hráfæðiskökum því þær eru bara svo svakalega góðar! Hér má finna heilmargar hráfæðisuppskriftir og þó að það séu ekki myndir við uppskriftirnar eru þær yfirleitt einfaldar og þægilegar í notkun.
Þessi sæti vefur er eins og lítið útibú frá CafeSigrun . Uppskriftirnar eru hollar og góðar og margar af uppskriftum Lísu hafa slegið í gegn og ekki einungis á hennar heimili heldur mínu líka, vinkvenna og annarra. Við Lísa eigum (að hennar sögn) í „eldheitu matarástarsambandi” og uppskriftirnar á vefjum okkar bera þess merki enda mörg afkvæmi sambandsins litið dagsins ljós þar. 
Margar fínar uppskriftir er að finna á vef BBC. Þessi þekkta breska sjónvarpsstöð er með fjölmarga spennandi matreiðsluþætti í sinni dagsskrá og eru uppskriftirnar meðal annars úr þeim. Hægt er að leita eftir tilteknum kokkum eða innihaldi ásamt fleiru. Afar góður uppskriftabanki.
Waitrose er nafnið á uppáhaldsbúðinni okkar í London. Waitrose leggur mikið upp úr fersku hráefni, Fair Trade viðskipti, lífrænt ræktuðum mat, og svo Free-Range (þ.e. dýrin fá að ganga frjáls og borða ekki neinar dýraafurðir). Sem sagt hrein snilld að versla þarna, jú reyndar dýrari en aðrar búðir en yfirleitt þess virði. Waitrose gefa út tímarit með uppskriftum í hverjum mánuði og eru líka með heimasíðu þar sem gefa fullt af uppskriftum. Ég mæli svo sannarlega með því að þið skoðið enda nægar hugmyndir í boði!
Fróðleikur
Þetta er frábær grein sem fjallar um hvernig má auka grænmetisneyslu ungra barna. Ansi þarft málefni. Greinina skrifaði hjúkrunarfræðingurinn Alma María Rögnvaldsdóttir, ráðgjafi "Fyrir smáfólkið" flokksins á CafeSigrun.