Bloggið

James

Í mastarsnámi mínu í London forðum daga lenti ég eitt sinn í aðstæðum sem ég hef lofað sjálfri mér að komast aldrei aftur í. Það var þannig að í náminu var töluvert um hópavinnu. Mér er meinilla við hópavinnu því það eru alltaf þeir sömu sem vinna alla vinnuna og alltaf þeir sömu sem eru liðleskjur, þetta eru alltaf sömu týpurnar…með afsakanir fyrir því að geta ekki mætt, geta ekki skilað á réttum tíma, og það er alltaf meira í “gangi“ hjá þessu fólki eða það lætur svo liggja í loftinu. Þetta er með öllu óþolandi fólk og ég hef enga þolinmæði fyrir það. En jæja hvað um það, í bekknum mínum var einn svona gaur. Hann hét James og var voða venjulegur breskur strákur, átti venjulega breska fjölskyldu, bjó í venjulegu bresku húsi, við venjulega breska götu. Þetta var ágætur strákur en eins og margir, blankur námsmaður sem bjó hjá foreldrum sínum og var ekki að vinna með skóla. Hann leitaði allra leiða til að fá allt sem ódýrast og á sem auðveldastan hátt. Steininn tók þó úr þegar hann tilkynnti bekknum hvað væri sniðugt að svindla sér í strætó og í lestarnar. Það gerði mig bálreiða því ég svaraði á móti að það væri ástæðan fyrir því að ÉG þyrfti að borga meira í strætó og í lestarnar (fyrir peninga sem ég hafði unnið mér inn með mikilli vinnu). Hann varð sneypulegur en lét þó ekki af iðju sinni.

Eitt sinn var verið að raða í hópa fyrir verkefni og ég lenti í hópi með James. Ég fór umsvifalaust í vont skap og æddi um gólf heima, tuðandi í Jóhannesi greyinu sem glotti (eins og alltaf) yfir æsingnum í mér. Ég sagðist ekki GETA verið með þessum dreng í neinu verkefni. Jóhannes sagði þolinmóður að ég yrði að leysa verkefnið svo ég myndi nú ekki fá falleinkunn fyrir verkefnið. Ég sagði við hann að öll vinnan myndi lenda á mér og ég hefði ekki áhuga á því. Jóhannes sagðist vita það en verkefnið yrði að klára með góðu eða illu. Ok…ég undirbjó mig sem best ég gat og mælti mér mót við James. Hann sagði að best væri ef ég kæmi bara heim til hans á sunnudegi og við myndum vinna það saman. Ok hugsaði ég, betra en að hanga á bókasafninu, best að ljúka þessu af, fyrst hann hefur tíma (hann hafði aldrei tíma). Heim til hans fór ég á sunnudegi. Mamma hans tók á móti mér, faðmaði mig og knúsaði í bak og fyrir….(What the fuck) hugsaði ég, ringluð. James leiddi mig inn í herbergi til sín og lokaði…ég dró upp skólabækurnar og eins og mig grunaði var James ekki byrjaður. Ég leiddi okkur áfram í verkefninu og sagðist ekki fara út fyrr en við værum búin. “Hvaða stress er þetta“ sagði hann og bætti svo við “mamma er búin að elda fyrir okkur hádegismat“….Mér var farið að líða þannig að ég YRÐI að komast út úr húsinu…þetta var orðið eitthvað furðulegt.

“Matuuuuur“ hrópaði mamman stuttu seinna og leiddi okkur stolt inn í borðstofu með svuntu og rauðar kinnar. Þegar við gengum inn í stofuna, sat pabbinn í sófanum að lesa sunnudagsblaðið. Í borðstofunni var búið að dekka borð. Þeir sem þekkja til breskra húsa vita að borðstofur eru eins og lítið herbergi að stærð, á íslenskum mælikvarða. Á borðinu var grillað lambalæri með öllu tilheyrandi (Roast dinner with all the trimmings). Þetta er sparimatur margra Breta og var boðið upp á brúnaðar kartöflur, sultað rauðkál, myntusósa, brúna sósu o.fl. Þetta er matur sem ég myndi varla gefa hundum (því ég hata lambakjöt og me’ðí). “Gjörið svo vel að setjast“ sagði mamman og stoltið skein úr röddinni. Ég settist með semingi til borðs. “Jæja SigggRUUnn..systir James ætlaði að koma líka og borða með okkur í tilefni dagsins, hún kemst reyndar svo sjaldan því hún er við nám lengst fyrir norðan en á meðan við bíðum eftir henni, segðu okkur þá allt um sjálfa þig…..“ Hmm hugsaði ég… hvaða tilefni eiginlega og ég spurði eins og asni… “Ha ha“ hló pabbinn…má ekki setja sneið á diskinn þinn?“ “Ég er reyndar grænmetisæta“…. “Jesús…James sagði okkur það ekki“ (svo fylgdi þetta venjulega: allirmiðursínengaráhyggjurég borðabarameðlætið bla bla). Jæja svo mætti systirin og þegar hún settist til borðs gaf hún bróður sínum olnbogaskot og blikk, sem mér fannst dáldið skrítið. “James kemur ekki oft með stelpur heim“ sagði hún… “Nei er það ekki“ svaraði ég eins og idiot, alveg klúless… “við lentum í hóp saman í skólanum og við verðum að klára verkefnið með góðu eða illu í dag“. “Ha ha ha“ heyrðist dátt um litlu borðstofuna og svo fylgdu meiri augngotur og olnbogaskot. Ég var komin með verulega innilokunarkennd og með skrítna tilfinningu sem ég gat þó ekki útskýrt (þetta var of súrrealískt). Eftir matinn var fjölskyldualbúmið dregið fram… “Sjáðu hvað James var sætur sem krakki“ (er fólkið með geðveilu hugsaði ég)…. “SigggRUUnn…hver eru framtíðarplön þín“? “Uuuuu veitiggi…klára námið og ferðast með manninum mínum um allan heim“…í vandræðulegu grafarþögninni sem fylgdi á eftir áttaði ég mig á því hvað hafði gerst. Ég gjóaði rauðglóandi augunum á James sem sat niðurlútur með hendur í skauti sér. “Ég þarf að fara núna“ sagði ég kurteisislega.. “ég ætlaði að hitta manninn minn á kaffihúsi. Takk fyrir matinn. Nei James þú þarft ekki að fylgja mér út“ (og ég MUN kála þér hvíslaði ég upp að eyranu á honum). Ég þarf víst ekki að útskýra hversu fyndið Jóhannesi fannst þetta og hversu oft hann hefur strítt mér á þessu atviku.

Ég lærði þrennt af þessum dreng. a) Það er leiðinlegt að þurfa að vinnu slugsanna sem svíkja lit og henda öllu yfir á þá sem eru duglegir í von að rassi þeirra verði bjargað. b) Ég fæ innilokunarkennd í aðstæðum þar sem ég veit ekki plottið. c) Mér er farið að líða svolítið eins (hér á landi) og mér leið í þessu fræga hádegisverðarboði “tengdafjölskyldunnar“. Það versta er að ég get hvergi skotið rauðglóandi augum og ég get engum hótað. Ég get bara bölvað í hljóði, þakkað fyrir matinn og farið.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Vetraruppskriftir 2009 komnar inn

Veturinn er að skríða í gang og það þýðir einungis eitt…heitt í kroppinn (því ég er mesta kuldaskræfa sem þekkist). Að þessu sinni er ég einmitt með tvær súpur á boðstólum; Svartbaunasúpu og Humarsúpu sem þið getið kíkt á. Einnig ætla ég að benda ykkur sérstaklega á tvær uppskriftir sem hafa verið hernaðarleyndarmál hingað til….grillað laxaroð (mitt helsta leynivopn í sushigerð) og heimatilbúið hnetusmjör. Svo eru nokkrar uppskriftir til viðbótar t.d. að brauði, fylltum pönnukökum (crepes), bananaklöttum o.fl. Ég vona að þið njótið vel.
Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Nestisfjallið

nestiÍ gegnum tíðina hefur fólki hvort sem um ræðir samstarfsfólk eða samnemendur, verið starsýnt á nestisboxin mín sem ég hef með mér hvert sem ég fer. Það hefur meira að segja gert grín að mér óteljandi sinnum. En mér er alveg sama, ég veit hvað ég er að gera. Þetta á einnig við um nestisboxafjallið hans Jóhannesar. Í nestisboxunum er alltaf eitthvað hollt og gott sem ég hef útbúið. Stundum er það jafn einfalt og niðurskorin agúrka svona á milli mála alveg upp í heita máltíð sem var í matinn daginn áður og þjónar nú því hlutverki að seðja magann í hádeginu. Fólk heldur að það að útbúa nesti sé flókið, krefjist mikillar vinnu og sé leiðinlegt. Ekkert af þessu er þó satt. Heimatilbúið nesti er einmitt afskaplega gefandi, það er einfalt að útbúa það, tekur um 15 mínútur dag hvern. Þessar 15 mínútur eru í raun afskaplega vel launuð vinna því það að útbúa nesti er töluverður sparnaður miðað við að kaupa sér t.d. samloku og gosdrykk í hádeginu. Svo er auðvitað hellingur af ást og umhyggju í hverju boxi sem auðvitað er ekki metið til fjár he he.

Ég þekki fólk sem hefur keypt sér samloku eða annað álíka í hádegismat í mörg, mörg ár. Í London þekkist heldur ekki að fólk taki með sér nesti, svona almennt. Það þótti því heldur betur furðulegt þegar ég dró upp nestisboxin mín í vinnunni og alltaf sköpuðust umræður um mat í kjölfarið (þó ég væri alls ekki að leita eftir því). En já, dýr er hann…þessi keypti matur. Ef við gefum okkur að samloka kosti 400 krónur (veit ekki einu sinni hvað þær kosta) og maður borði eina á dag alla vinnuvikuna gerir það rúmar 100 þúsund krónur yfir árið. Þá er ekki tekið með annað eins og gosdrykkir eða sælgæti.....þetta er bara svona skot á meðaltal hjá mér (stundum kaupir fólk ekkert, stundum fer það út að borða og eyðir jafnvel meira, stundum er það í fríi...). Það má margt gera fyrir þennan pening og á 10 árum erum við að tala um eina milljón króna í nesti!!! Það versta kannski í þessu (því ég skil þetta með tímaleysið og að fólk vilji flýta fyrir sér) er að samlokur sem keyptar eru, eru flestar drasl (eða miðað við heimatilbúið nesti). Í samlokum eru rotvarnarefni og önnur aukaefni, sykur, salt og allt of mikið af mettaðri fitu, svona almennt. Ég get viðurkennt að stundum, eftir langan vinnudag eða þegar maður er eitthvað illa upplagður, getur það virkað lítið heillandi að eiga eftir að útbúa salat eða smoothie, samloku eða hvað sem er...það er þó ALLTAF þess virði. Þessar 15 mínútur eru eins og ég nefndi áður, afar "vel launaðar". Ég tek reyndar fram að ég geri hnetusmjörið sjálf sem og hnetumixið (og auðvitað allt sem fer í "sætt og gott")  en það er ekki reiknað með í þessum 15 mínútum...ég geri alltaf heilmikinn skammt í einu sem dugar í nokkrar vikur (tekur samt alls ekki langan tíma).

Hér er dæmigert nestisfjall sem Jóhannes tekur með sér í vinnuna dag hvern (talið neðan frá og upp):

Salat: Reyktur lax, agúrka, paprika, harðsoðið egg og eggjahvíta, jöklasalat, quinoa fræ, nýrnabaunir

Eitthvað sætt og gott: Í þessu tilviki var það gulrótarkaka (holl og heimatilbúin að sjálfsögðu). Stundum eru það muffinsar, orkubarir, hnetunammi eða konfekt o.fl. sem ég hef fryst

Smoothie: Hreint skyr, jarðarber, banani, haframjöl, quinoa fræ og heimatilbúið hnetusmjör

Ávöxtur eða grænmeti milli mála: Í þessu tilviki vínber en stundum eru það gúrkur, gulrætur, paprikur, epli o.fl.

Próteinduft: Fyrir smoothie-inn

Hnetumix: Heimatilbúið hnetubland (nemendanasl) með alls kyns hnetum, sólblómafræjum, graskersfræjum, rúsínum, döðlum, gráfíkjum o.fl.

Það sem gildir um nesti almennt, gildir líka um það þegar maður er á ferðinni (í bíl, í flugvél, rútu, í hestaferð eða hvar sem er…..) maður getur alltaf tekið með sér nesti og ætti ekki að þurfa að reiða sig á að kaupa drasl. Hnetur og döðlur eru t.d. frábær blanda í poka og maður ætti aldrei að þurfa að kaupa sælgæti sem "orkuskot". Í nestinu og í raun bara hvenær sem hagsýni og sparnaður á í hlut, skiptir afar miklu máli að eiga frysti og nota hann, þó það sé ekki nema bara lítið frystihólf getur hann gert gæfumuninn! Einnig eru nestisbox mikilvæg en þau eru frábær og ódýr fjárfesting. Rúsínan í pylsuendanum er auðvitað að heimatilbúið nesti er frábærlega umhverfisvænt!!! Því má segja að ekki aðeins sé þetta góð fyrirmynd fyrir börnin og aðra hvað matarmál varða heldur einnig hvað umhverfisvernd varðar...ekki ónýtt!

Þið getið lesið nánar um nestismál á vefnum. Ef þið hafið einhverjar spurningar varðandi nesti, sendið mér endilega línu.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Morgun-sælgætis-kornið

Reglulega eru einhver gáfumenni sem taka saman lista yfir óhollustu morgunkornin. Ég segi gáfumenni því það þarf varla margar heilasellur til að vita að morgunkorn með chocolate, cookies eða sugar í nafninu, sé óhollt. Það er þessi "sjokk" stíll á fréttinni sem pirrar mig (og á svipuðum fréttum). Það að gefa barninu sínu (eða sjálfu sér) sælgæti í morgunmat er ekkert tengd gáfum svo sem heldur skynsemi. Skynsamt fólk gefur börnunum sínum ekki morgunkorn með tæp 12 grömm af sykri (meira en í kleinuhring) í einni skál (30 gr) og jafn miklu af salti og í kartöfluflögum.

Morgunkorn eins og Frosties og Cocoa Puffs og hvað þetta allt heitir á heima í sælgætisdeildinni og ég skil ekki hvers vegna leyfilegt er að auglýsa slíkt sem morgunkorn (og það fyrir börn). "Börnin borða ekkert annað, ef þau borða þetta ekki svelta þau" segja foreldrarnir.... a) börn borða annað ef þeim er kennt það frá upphafi b) börn borða ekkert annað ef þetta drasl er keypt og það er fyrir augunum á þeim c) börn borða (að megninu til) eins og fyrirmyndir þeirra..... Ef börn eru nógu svöng borða þau t.d. hafragraut með rúsínum, kanil og döðlum, það er á hreinu. Ef mamma og pabbi borða þennan morgunmat á hverjum morgni, borða börnin hann líka, það er á hreinu. Það er svo ótalmargt hægt að bjóða fjölskyldunni upp á í morgunmat sem þarf ekki að taka langan tíma í undirbúning. Það tekur t.d. 7 mínútur að sjóða hafragraut. Einnig má útbúa muesli (ósykurbætt eða heimatilbúið) og saxa ferska ávexti út á, rista gróft brauð með osti og hollri sultu, blanda smoothie með ávöxtum, haframjöli og hnetusmjöri og margt fleira. Möguleikarnir eru endalausir. Sykurbætt morgunkorn er fyrsta skrefið í átt að heilsufarsvandamálum síðar meir svo ekki sé talað um vandamál vegna tannskemmda.

Svo skilja foreldrarnir ekkert í því hvers vegna börnin eru með magapínu, pirruð, einbeitingarskort, alltaf þreytt og orkulaus o.fl....? Nei ég skil það bara ekki heldur!!!!!

Gleðifrétt dagsins er svo að McDonalds hverfur af landinu fljótlega en leiðindafréttir dagsins er að annar álíka staður tekur við....Það er svo sem enginn munur á kú.... og skí....

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

100 óhollustu matvörurnar í Ameríku

Hér er ansi góður listi yfir 100 óhollustu matvörurnar í Ameríku. Listinn er óþægilega líkur þeim sem maður gæti útbúið yfir íslenskar matartegundir/matvörur… sérstaklega vegna þess að flestir skyndibitastaðanna sem nefndir eru í listanum, eru því miður á Íslandi líka. Á íslenska útgáfu listans myndi reyndar vanta bjúgu, laufabrauð, kæfu, kleinur, rúgbrauð o.fl. (jebb, allt óhollt)….Það ætti þó alltaf að skoða svona lista með fyrirvara því t.d. er bökuð kartafla ágætlega holl ef henni er ekki drekkt í smjöri og sýrðum rjóma og það sama má segja um súkkulaði því dökkt, lífrænt framleitt súkkulaði með háu kakóinnihaldi og hrásykri er ekki það sama og draslsúkkulaði með hvítum sykri, transfitusýrum og rotvarnarefnum. Það eru margir góðir punktar tilteknir eins og t.d. hvers vegna í veröldinni próteinbarir/orkustangir eru hafðir í heilsuhillum verslana. Athugið einnig að það má búa til hollar franskar, hollan ís, holla pastarétti, hollt brauð, nota hollara súkkulaði o.s.frv. í staðinn fyrir óhollu útgáfurnar á listanum.

Vonandi getið þið merkt "nei" við öll 100 atriðin (eða sem flest) með góðri samvisku!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Tilfærslur og gullfiskaminni

Ég var í Hagkaupum, Holtagörðum um daginn.... í heilsudeildinni (sem er reyndar með ansi gott úrval). Þar var allt á rúi og stúi. Það var greinilega verið að endurskipuleggja í hillur. Það læddist að mér grunur. Viku síðar var ég aftur stödd í versluninni og viti menn, grunurinn reyndist á rökum reistur. Eftir endurskipulagningu hafði vöruverðið hækkað umtalsvert. Minnsta hækkunin var um 30 krónur á vörutegund en mesta hækkunin um 350 krónur. Í sumum tilvikum var um að ræða 50% hækkun (kannaði ekki allar vörur, aðeins þær sem ég kaupi helst). Ég veit ekki með ykkur en mér finnst afar lúalegt að færa til vörur og hækka þær svo í beinu framhaldi...svona eins og eigi að reyna að plata viðskiptavini, treysta á að þeir séu með gullfiskaminni. Það var a.m.k. tilfinningin sem ég fékk. Ég fékk hálfgert óbragð í munninn og ekki síst vegna þess að uppáhaldsbrauðið mitt (óbakað brauð, unnið úr spíruðu korni) var búið að hækka um helling og síðan fyrir rúmu ári síðan um 100%, komið upp í rúmar 700 krónur.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Fagur fiskur í sjó.....

Hmm hvað á ég að blogga um....Afkvæmið dafnar vel, var 4ra vikna í gær og er strax búið að fara í heimsókn, í pössun, á kaffihús og út að borða...um að gera að drífa það í sem mest og safna að sér bakteríum umhverfisins, hitta fólkið sem verður í lífi þess og venjast öllum hljóðum þessarrar undarlegu veraldar ....Ég gæti bloggað um kúkableiur, gubb, þvott, svefnleysi o.fl. en það nennir enginn að lesa um það á matarvef svo ég ætla að tala um mat í staðinn.

Ég nefnilega var svo heppin að vera boðið í lönsj á Gallerý fiski í hádeginu með Jóhannesi, tengdó og fleirum (þ.e. tengdó bauð) .... Ég hef nefnilega ekki borðað fisk í rúma 9 mánuði (það eina, fyrir utan poppkorn sem ég gat ALLS ekki borðað). Allan tímann hefur mér allan tímann orðið flökurt af tilhugsuninni. Ég hef getað framkallað ógleði bara með því að hugsa um soðinn, hvítan fisk (úff smá ógleði við að skrifa þetta). Þegar okkur bauðst að fara í hádeginu var ég spennt að vita hver viðbrögðin yrðu hjá mér (og hvort ég gæti mögulega smakkað). Þau voru þannig að ég hefði vel getað borðað allan fiskinn hans Jóhannesar... (skötuselur sem var lostæti). Þessi staður er auðvitað snilld ef þið hafið ekki prófað hann...fiskurinn beinlínis spriklar af ferskleika og hann er vel matreiddur. Staðurinn er ekki tilgerðarlegur (þoli ekki svoleiðis staði þar sem litið er niður á fólk fyrir að vera ekki klætt merkjavöru eða er með lampa eða styttu á veggnum sem kostar meira en mánaðarlaun fólks sem þar borðar) og hann tekur sig ekki of alvarlega (sem dæmi er sjónvarpsskjár með myndbandi sem sýnir fiskveiðar og uppi á veggjum eru ljósmyndir af því sama....minnir mann á ræturnar sem er ágætt). Hráefnið er það sem skiptir aðalatriði þar á bæ.

Annar staður sem ég versla mikið við er Fylgifiskar. Staðurinn sá býður ALLTAF upp á gott hráefni og ég fæ alltaf framúrskarandi þjónustu.  Ég versla töluvert við þá og hef gert á undanförnum árum því ég er sú sem panta allaf lax fyrir sushi og roðið með í poka (og grilla svo roðið til að nota í salöt, sushi o.fl.)....þið sem hafið ekki prófað grillað laxaroð eruð að missa af miklu (sendið mér línu ef þið viljið uppskriftina, er ekki búin að birta hana á vefnum). Einu sinni neitaði eigandinn að selja mér lax en ástæðan var sú að laxinn var ekki fullkomlega ferskur og eigandinn vildi ekki að ég notaði laxinn í sushi (ég kann vel að meta hreinskilnina því hráefnið er aðalatriði jú).

Maður á að líka að láta vita þegar maður er ánægður með eitthvað ekki satt!!! Best að taka fram að ég hef engin tengsl við hvorugan staðinn :)

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Hollustukóngar

Ég hef verið að hugsa um það síðustu daga og síðustu 3 vikur hversu auðvelt það hlýtur að vera fyrir fólk sem er í einhvers konar lífstílsbreytingum/aðhaldi, að detta í rugl þegar lífsstíllinn breytist. Ég hef svo sem oft hugsað þetta líka  á ferðalögum. Á þessum ótal ferðum okkar til Afríku hefði nefnilega verið afskaplega auðvelt að "detta í rugl" þ.e. borða óhollt. Ekki það að maturinn í t.d. Austur-Afríku sé óhollur...venjulegur heimilismatur saman stendur af baunum, grænmeti, kartöflum o.fl. Það eru hins vegar hótelin og gististaðirnir sem bjóða upp á ruglið (ef maður er ekki að gista á stöðum sem innfæddir sækja). Þess vegna er ég afar, afar passasöm með það sem ég tek með mér svo ég detti ekki í hvítt brauð og pasta bara af því ekkert annað er til. Ég borða reyndar mikið af salötum hvers konar á ferðalögum og ég er alltaf með hnetur og rúsínur í poka ásamt heimatilbúnum orkustöngum o.þ.h. Svo lifi ég á ávöxtum heilu dagana og hef gott af enda svo hollir svona beint af trjánum. Ég veit að það er fáránlegt að vera að hugsa um hvítt pasta og brauð á meðan fólk í þessum heimshluta á varla fyrir mat en ef ég hef val, nýti ég mér það en hef alltaf hitt á bak við eyrað svo ég fái ekki samviskubit dauðans.

Ég var að velta þessu fyrir mér því óneitanlega er lítið barn tímaþjófur.....og ef ég hefði ekki verið ofur skipulögð áður en það mætti í heiminn, væri ég líklega búin að styrkja helstu grænmetisstaðina í nágrenninu umtalsvert. Það er bara ekki hollt til lengdar (of margar hitaeiningar) að borða slíkan mat þó hann sé ægilega góður. Ég nefnilega lærði það þegar ég var í hnéaðgerðunum fyrir fjórum árum og svo þessum tveimur fyrir rúmu ári að það væri sniðugt að útbúa CafeSigrun frystihólf þar sem alltaf væri til eitthvað gott í matinn. Ég lá á spítala í tvær nætur fyrir ári síðan og var ekki rólfær í marga daga. Ég gat ekki hugsað mér að svelta aumingja Jóhannes (sem hefði annars gert sér Cheerios að góðu). Ég var því búin að útbúa alls kyns hollan kvöldmat í neytendaumbúðum...t.d. fylltar paprikur, crepes (fylltar pönnukökur), súpur, borritos, mini-pizzur o.fl. Í frystihólfinu var líka alls kyns góðgæti eins og muffinsar, orkustangir, konfekt, ís og fleira. Það sama á við þessa dagana. Þetta er nefnilega allt spurning um gott skipulag. Ég hafði 9 mánuði til að undirbúa það að við þyrftum ekki að borða óhollt núna svo það er ekki eins og ég hafi haft einhverja afsökun. Það kom á daginn að þetta reyndist vera góð hugmynd því síðustu vikur erum við búin að lifa eins og kóngar (hollustukóngar) og borða fullt upp úr CafeSigrun frystihólfinu.

Punkturinn hjá mér er sem sagt að það er ENGIN afsökun fyrir því að borða óhollt og detta í sukk af því maður "hafi ekki tíma". Þetta er ekkert flókið. Maður hefur alltaf tíma fyrir hollustu og ef hann er af skornum skammti, hliðrar maður öðru til svo að það sé pottþétt eitthvað gott, og hollt að borða, ávallt.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Öðruvísi matarmyndir

Hrund vinkona mín sendi mér þennan tengil á bráðskemmtilega vefsíðu með tjahh..öðruvísi matarmyndum. Brjálæðislega mikið hugmyndaflug og skemmtilegar hugmyndir :)

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Andóléttan

Það eru eflaust margir hissa á því að ég hafi ekki bloggað einn staf um væntanlega fjölgun. Við erum að tala um svolítið langan tíma...9 mánuði. Á því tímabili fórum við t.d. til London og vorum í mánuð (maí – júní) og fórum svo aftur til London í ágúst, akkúrat mánuði fyrir fæðingu, á 88 þúsund manna U2 tónleika þannig að ég hef aldeilis ekki bara setið upp í sófa með tærnar upp í loftið, enda engin ástæða til.

Það voru nokkrar ástæður fyrir því að ég bloggaði ekkert um innrás dömunnar. 1) Ég er eins og þið vitið afar prívat með allt mitt einkalíf og gef yfirleitt lítið uppi hér á vefsíðunni um hver ég er eða hvað ég geri (CafeSigrun vefsíðan er jú aðeins áhugamál mitt, ekki atvinna og mitt andlit skiptir engu máli fyrir vefinn, þannig séð). Að vera óléttur er hluti af einkalífi (að mínu mati og örugglega ekki allir sammála). 2) Ég er ekki eins og allar verðandi mæður sem bogna og beyglast yfir litlum börnum hvar sem þær koma. Ég hefði því eflaust skrifað eitthvað sem hefði farið fyrir brjóstið á mörgum (eins og t.d. að ég get helst ekki verið á kaffihúsi þar sem mörg lítil börn eru samankomin með mæðrum sínum og hávær barnaafmæli ætti að mínu mati nota sem pyntingarform og mér finnst líka að börnum sem sparka í sætið fyrir framan sig í flugvél eigi að henda út í fallhlíf (eða foreldrunum öllu heldur). 3) Það finnst ekki öllum skemmtilegt að lesa um meðgöngu kvenna og ég skil það 100% þó mér finnist allt í lagi að lesa um ferlið hjá öðrum. 4) Það sem skrifað er um börn/barnauppeldi hafa 3000 manns mismunandi skoðanir á og þessi vefsíða er víst ekki umræðuvettvangur fyrir þannig skoðanir. 5) Litla daman valdi ekki sjálf að koma í þennan heim og hvað þá að vera myndefni á vefsíðu...og ég mun virða það þangað til hún biður um annað að minnsta kosti í mynd þó ég auðvitað minnist á þessa viðbót í lífi okkar í því sem ég skrifa. Þessi mynd sem ég setti inn hérna um daginn verður því eina myndin sem birtist af henni á þessum vef (nema ég breyti um skoðun sem getur alveg gerst he he). Við munum halda úti lokaðri vefsíðu með upplýsingum fyrir ættingja og vini. Það eru reyndar nokkrir notendur vefjarins sem eru meira en bara notendur (þið vitið hver þið eruð) sem munu að sjálfsögðu fá aðgang ef þeir biðja um hann. Ég veit að ég er furðuleg með margt og þetta er eitt af því....hate it or love it.

Það sem ég MUN hins vegar skrifa um er matur og matarmál, hvernig mun ganga að búa til hollan og góðan barnamat og annað sem tengist næringu ungra barna og foreldra, rétt eins og ég hef gert hingað til. Ef eitthvað sérlega merkilegt tengist lífi okkar þriggja þá mun ég líka tala um það að sjálfsögðu. Ég get t.d. ekki beðið eftir að blogga um ferðir til Afríku og á fleiri staði í framtíðinni (þessi dama mun ferðast, sannið þið til).

Í stuttu máli, fyrir þá sem vilja vita gekk þetta allt svo vel að varla er í frásögur færandi. Miðað við garðyrkjuhæfileika mína og hæfileika til að láta hluti almennt dafna er það hálf ótrúlegt. Eiginlega allt það sem óléttar konur geta lent í, lenti ég ekki í og þakka ég það (fyrir mig persónulega) heppni, góðu mataræði (hélt sama mataræði út í gegn), góðri líkamlegri heilsu, góðum svefni OG síðast en ekki síst góðum maka (þeir eru allt of vanmetinn hluti af heildarpakkanum, það er á hreinu). Þetta var eiginlega „and-ólétta“ í mínu tilfelli. Athugið að ég er ekki að segja að allar konur séu óheppnar og sumar eru jafn heppnar og ég og lenda aldrei í neinu. Meðganga er heldur ekki „sjúkdómur“ heldur tímabundið ástand.

Þetta er svona upptalning á því hversu vel þetta gekk hjá mér og segir ekki til um að þær konur sem fái alla þessa kvilla/fylgikvilla óléttu séu eitthvað verri eða óheilbrigðari (engin kona er eins og engin meðganga er nákvæmlega eins). Sumar konur eru bara óheppnar, þannig er nú það eins og t.d. að hafa undirliggjandi stoðkerfisvandamál. Það hlýtur að vera erfitt því það eina sem ég gæti kvartað yfir var að hnéð var í lamasessi á seinni hluta meðgöngu (bóluplastið munið þið).....

And-óléttan í hnotskurn:

Ógleði: Nei, ekki nema einn eftirmiðdag Kreiving/sólgin í eitthvað sérstakt: Nei, en í mesta lagi kotasæla og magur brauðostur (sem var fínt upp á kalk að gera). Á tímabili frysti ég líka soðið, ferskt engifer og vatn til að hafa sem ísmola í ískalt vatn Bjúgur: Nei, fór m.a.s. í tvær flugferðir á tímabilinu og var ekki með svo mikið sem þrútna fingur. Ég drakk líka 3 lítra af vatni hvern einasta dag Hormónasveiflur: Nei Skyndibitalöngun: Nei og langaði aldrei í sem gladdi mig mikið Aukin matarlyst: Nei, ekki teljandi, nema í ferska ávexti o.þ.h. Hitaköst: Nei...ég var úrskurðuð af lækni „kuldaskræfa“ (á meðgöngunni) eins og þið munið. Mér varð aldrei hlýt og er ekki orðið enn. Ég fór langleiðina í gegnum fæðinguna með trefil, hitapoka og teppi Þreyta: Ekki teljandi, ég fór í ræktina 3var í viku alla meðgönguna (5.30 á morgnana). Ég fór í ræktina m.a.s. daginn áður en ég átti Þyngdaraukning: 7 kg og barnið dafnaði vel allan tímann í móðurkviði. Álag var því lítið á líkamann Grindargliðnun eða önnur stoðkerfisvandamál, húðvandamál, slit, meðgöngusykursýki, meðgöngueitrun, of hár blóðþrýstingur: Neibb Frí frá vinnu: Nei, var að vinna á föstudegi og átti á mánudeginum þar á eftir Kvef eða aðrir kvillar vegna lélegra ónæmiskerfis: Nei en m.a.s. Jóhannes fékk 2var kvef þessa 9 mánuði en ég slapp við allt Verkjameðferð við fæðingu: Nei

Þannig var nú það...ég hef sem sagt engin ráð fyrir þá sem hafa lent í einhverjum meðgöngukvillum!!!! Þið sjáið hvað þetta hefði verið ansi daufleg frásögn í gegnum mánuðina...!  Ég vona að það séu fleiri konur svona heppnar því þægilegra hefði þetta ekki getað verið. Ég er samt sérlega glöð að sjá aftur í tærnar mínar og að geta beygt mig auðveldlega niður eftir hlutum og vera ekki mál að pissa 24/7.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It