Fagur fiskur í sjó.....

Hmm hvað á ég að blogga um....Afkvæmið dafnar vel, var 4ra vikna í gær og er strax búið að fara í heimsókn, í pössun, á kaffihús og út að borða...um að gera að drífa það í sem mest og safna að sér bakteríum umhverfisins, hitta fólkið sem verður í lífi þess og venjast öllum hljóðum þessarrar undarlegu veraldar ....Ég gæti bloggað um kúkableiur, gubb, þvott, svefnleysi o.fl. en það nennir enginn að lesa um það á matarvef svo ég ætla að tala um mat í staðinn.

Ég nefnilega var svo heppin að vera boðið í lönsj á Gallerý fiski í hádeginu með Jóhannesi, tengdó og fleirum (þ.e. tengdó bauð) .... Ég hef nefnilega ekki borðað fisk í rúma 9 mánuði (það eina, fyrir utan poppkorn sem ég gat ALLS ekki borðað). Allan tímann hefur mér allan tímann orðið flökurt af tilhugsuninni. Ég hef getað framkallað ógleði bara með því að hugsa um soðinn, hvítan fisk (úff smá ógleði við að skrifa þetta). Þegar okkur bauðst að fara í hádeginu var ég spennt að vita hver viðbrögðin yrðu hjá mér (og hvort ég gæti mögulega smakkað). Þau voru þannig að ég hefði vel getað borðað allan fiskinn hans Jóhannesar... (skötuselur sem var lostæti). Þessi staður er auðvitað snilld ef þið hafið ekki prófað hann...fiskurinn beinlínis spriklar af ferskleika og hann er vel matreiddur. Staðurinn er ekki tilgerðarlegur (þoli ekki svoleiðis staði þar sem litið er niður á fólk fyrir að vera ekki klætt merkjavöru eða er með lampa eða styttu á veggnum sem kostar meira en mánaðarlaun fólks sem þar borðar) og hann tekur sig ekki of alvarlega (sem dæmi er sjónvarpsskjár með myndbandi sem sýnir fiskveiðar og uppi á veggjum eru ljósmyndir af því sama....minnir mann á ræturnar sem er ágætt). Hráefnið er það sem skiptir aðalatriði þar á bæ.

Annar staður sem ég versla mikið við er Fylgifiskar. Staðurinn sá býður ALLTAF upp á gott hráefni og ég fæ alltaf framúrskarandi þjónustu.  Ég versla töluvert við þá og hef gert á undanförnum árum því ég er sú sem panta allaf lax fyrir sushi og roðið með í poka (og grilla svo roðið til að nota í salöt, sushi o.fl.)....þið sem hafið ekki prófað grillað laxaroð eruð að missa af miklu (sendið mér línu ef þið viljið uppskriftina, er ekki búin að birta hana á vefnum). Einu sinni neitaði eigandinn að selja mér lax en ástæðan var sú að laxinn var ekki fullkomlega ferskur og eigandinn vildi ekki að ég notaði laxinn í sushi (ég kann vel að meta hreinskilnina því hráefnið er aðalatriði jú).

Maður á að líka að láta vita þegar maður er ánægður með eitthvað ekki satt!!! Best að taka fram að ég hef engin tengsl við hvorugan staðinn :)

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Sigrún Þöll
13. okt. 2009

Þegar ég var ólétt af litla stubbnum, þá var fiskur það eina sem ég gat ekki borðað alla meðgönguna.

Ég ræddi þetta við ljósuna og hún sagið að það væri MJÖG algengt að óléttar konur bara misstu alla lyst á að borða fisk!

Spurning hvort þetta sé einhvern varnaraðferð fyrir okkur *pæl*... ekki að ég viti til að fiskur sé eitthvað óhollur fyrir ólétttínur.. *pæl*

CafeSigrun.com
14. okt. 2009

Já fyndið...maður hefði skilið það ef að maður missti lystina á t.d. hráum fiski (vegna sýkingarhættu) eða laxi og túnfiski (vegna þungamálmanna) en mér skilst að þungamálmar geti verið í öllum fiski svo kannski er það þess vegna sem líkaminn vill ekki fiskinn...veit ekki sko. Ég gat hugsað mér að borða hráan fisk (sem ég gerði ekki) en ekki soðinn :)

Melkorka
15. okt. 2009

Ég engdist yfir plokkfiskpottinum á fyrri meðgöngunni. Gott hjá ykkur að taka krílið útí ,,heiminn". Alveg sammála. Við vorum ofverndunar sinnuð dauðans með fyrsta barn og vorum líka ekkert bara nánast í einangrun heldur í sannkallaðri einangrun vegna hræðslu af sýkingum.

Lisa Hjalt
17. okt. 2009

mig langar alltaf í fisk þegar ég opna bloggið … nýja færslu takk ;-)