James

Í mastarsnámi mínu í London forðum daga lenti ég eitt sinn í aðstæðum sem ég hef lofað sjálfri mér að komast aldrei aftur í. Það var þannig að í náminu var töluvert um hópavinnu. Mér er meinilla við hópavinnu því það eru alltaf þeir sömu sem vinna alla vinnuna og alltaf þeir sömu sem eru liðleskjur, þetta eru alltaf sömu týpurnar…með afsakanir fyrir því að geta ekki mætt, geta ekki skilað á réttum tíma, og það er alltaf meira í “gangi“ hjá þessu fólki eða það lætur svo liggja í loftinu. Þetta er með öllu óþolandi fólk og ég hef enga þolinmæði fyrir það. En jæja hvað um það, í bekknum mínum var einn svona gaur. Hann hét James og var voða venjulegur breskur strákur, átti venjulega breska fjölskyldu, bjó í venjulegu bresku húsi, við venjulega breska götu. Þetta var ágætur strákur en eins og margir, blankur námsmaður sem bjó hjá foreldrum sínum og var ekki að vinna með skóla. Hann leitaði allra leiða til að fá allt sem ódýrast og á sem auðveldastan hátt. Steininn tók þó úr þegar hann tilkynnti bekknum hvað væri sniðugt að svindla sér í strætó og í lestarnar. Það gerði mig bálreiða því ég svaraði á móti að það væri ástæðan fyrir því að ÉG þyrfti að borga meira í strætó og í lestarnar (fyrir peninga sem ég hafði unnið mér inn með mikilli vinnu). Hann varð sneypulegur en lét þó ekki af iðju sinni.

Eitt sinn var verið að raða í hópa fyrir verkefni og ég lenti í hópi með James. Ég fór umsvifalaust í vont skap og æddi um gólf heima, tuðandi í Jóhannesi greyinu sem glotti (eins og alltaf) yfir æsingnum í mér. Ég sagðist ekki GETA verið með þessum dreng í neinu verkefni. Jóhannes sagði þolinmóður að ég yrði að leysa verkefnið svo ég myndi nú ekki fá falleinkunn fyrir verkefnið. Ég sagði við hann að öll vinnan myndi lenda á mér og ég hefði ekki áhuga á því. Jóhannes sagðist vita það en verkefnið yrði að klára með góðu eða illu. Ok…ég undirbjó mig sem best ég gat og mælti mér mót við James. Hann sagði að best væri ef ég kæmi bara heim til hans á sunnudegi og við myndum vinna það saman. Ok hugsaði ég, betra en að hanga á bókasafninu, best að ljúka þessu af, fyrst hann hefur tíma (hann hafði aldrei tíma). Heim til hans fór ég á sunnudegi. Mamma hans tók á móti mér, faðmaði mig og knúsaði í bak og fyrir….(What the fuck) hugsaði ég, ringluð. James leiddi mig inn í herbergi til sín og lokaði…ég dró upp skólabækurnar og eins og mig grunaði var James ekki byrjaður. Ég leiddi okkur áfram í verkefninu og sagðist ekki fara út fyrr en við værum búin. “Hvaða stress er þetta“ sagði hann og bætti svo við “mamma er búin að elda fyrir okkur hádegismat“….Mér var farið að líða þannig að ég YRÐI að komast út úr húsinu…þetta var orðið eitthvað furðulegt.

“Matuuuuur“ hrópaði mamman stuttu seinna og leiddi okkur stolt inn í borðstofu með svuntu og rauðar kinnar. Þegar við gengum inn í stofuna, sat pabbinn í sófanum að lesa sunnudagsblaðið. Í borðstofunni var búið að dekka borð. Þeir sem þekkja til breskra húsa vita að borðstofur eru eins og lítið herbergi að stærð, á íslenskum mælikvarða. Á borðinu var grillað lambalæri með öllu tilheyrandi (Roast dinner with all the trimmings). Þetta er sparimatur margra Breta og var boðið upp á brúnaðar kartöflur, sultað rauðkál, myntusósa, brúna sósu o.fl. Þetta er matur sem ég myndi varla gefa hundum (því ég hata lambakjöt og me’ðí). “Gjörið svo vel að setjast“ sagði mamman og stoltið skein úr röddinni. Ég settist með semingi til borðs. “Jæja SigggRUUnn..systir James ætlaði að koma líka og borða með okkur í tilefni dagsins, hún kemst reyndar svo sjaldan því hún er við nám lengst fyrir norðan en á meðan við bíðum eftir henni, segðu okkur þá allt um sjálfa þig…..“ Hmm hugsaði ég… hvaða tilefni eiginlega og ég spurði eins og asni… “Ha ha“ hló pabbinn…má ekki setja sneið á diskinn þinn?“ “Ég er reyndar grænmetisæta“…. “Jesús…James sagði okkur það ekki“ (svo fylgdi þetta venjulega: allirmiðursínengaráhyggjurég borðabarameðlætið bla bla). Jæja svo mætti systirin og þegar hún settist til borðs gaf hún bróður sínum olnbogaskot og blikk, sem mér fannst dáldið skrítið. “James kemur ekki oft með stelpur heim“ sagði hún… “Nei er það ekki“ svaraði ég eins og idiot, alveg klúless… “við lentum í hóp saman í skólanum og við verðum að klára verkefnið með góðu eða illu í dag“. “Ha ha ha“ heyrðist dátt um litlu borðstofuna og svo fylgdu meiri augngotur og olnbogaskot. Ég var komin með verulega innilokunarkennd og með skrítna tilfinningu sem ég gat þó ekki útskýrt (þetta var of súrrealískt). Eftir matinn var fjölskyldualbúmið dregið fram… “Sjáðu hvað James var sætur sem krakki“ (er fólkið með geðveilu hugsaði ég)…. “SigggRUUnn…hver eru framtíðarplön þín“? “Uuuuu veitiggi…klára námið og ferðast með manninum mínum um allan heim“…í vandræðulegu grafarþögninni sem fylgdi á eftir áttaði ég mig á því hvað hafði gerst. Ég gjóaði rauðglóandi augunum á James sem sat niðurlútur með hendur í skauti sér. “Ég þarf að fara núna“ sagði ég kurteisislega.. “ég ætlaði að hitta manninn minn á kaffihúsi. Takk fyrir matinn. Nei James þú þarft ekki að fylgja mér út“ (og ég MUN kála þér hvíslaði ég upp að eyranu á honum). Ég þarf víst ekki að útskýra hversu fyndið Jóhannesi fannst þetta og hversu oft hann hefur strítt mér á þessu atviku.

Ég lærði þrennt af þessum dreng. a) Það er leiðinlegt að þurfa að vinnu slugsanna sem svíkja lit og henda öllu yfir á þá sem eru duglegir í von að rassi þeirra verði bjargað. b) Ég fæ innilokunarkennd í aðstæðum þar sem ég veit ekki plottið. c) Mér er farið að líða svolítið eins (hér á landi) og mér leið í þessu fræga hádegisverðarboði “tengdafjölskyldunnar“. Það versta er að ég get hvergi skotið rauðglóandi augum og ég get engum hótað. Ég get bara bölvað í hljóði, þakkað fyrir matinn og farið.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Lisa Hjalt
18. nóv. 2009

Hvaða fáviti var þetta eiginlega?!!

Er ekki bara málið að kenna James um allt sem hefur farið úrskeiðis á Íslandi. Hann er kjörinn kandídat til þess að hatast út í. Eiginlega bara of fullkominn!

Lena
19. nóv. 2009

Bwahahahahah.... Thetta er ein fyndnasta saga sem ég hef heyrt!!! Jesus petur, hvad thetta hlytur ad hafa verid vandrædanlegt.. Afsakadi drengurinn sig einthverntiman vid thig?

CafeSigrun.com
19. nóv. 2009

He he jú Lísa :)

Lena hann forðaðist mig eins og heitan eldinn þessar vikur sem eftir lifði skólaársins.... og kannski sem betur fer því ég hefði kálað honum, hefði hann komið svo mikið sem 2 cm of nálægt mér :)

Sigrún Þöll
19. nóv. 2009

hihihi... en þú hefur allavegana frá þessari sögu að segja.. það er svoldill mikill plús :)

Melkorka Mjöll Kristinsdótir
20. nóv. 2009

Vissi drengurinn af því að þú ættir mann?

CafeSigrun.com
20. nóv. 2009

Melkorka hann vissi það svo sannarlega!

Hann gaf mér aldrei undir fótinn eða neina vísbendingar um að þetta væri í vændum...þetta kom mér fullkomlega á óvart!

Melkorka
20. nóv. 2009

Get ekki annað en vorkent drengnum. Kannski tók mamma hans þeim fréttum að stelpa væri að koma í heimsókn og magnaði í huga sér. ,,loksins, loksins fæ ég tengdadóttur og svo verður brúðkaup og .... " Kanski á mamma hans aðallega sökina á þessu klúðri. Soldið klikkað, en hvað veit maður??

smari sæti
25. nóv. 2009

Kæra systir! þetta er mögnuð saga og alltaf jafn fyndin, en þess má geta að ég (uppáhaldsbróðir) er að vinna með njóla eins og þig í verkefni sem heitir CLIM, Cooperative Learning in Multicultural Groups, og á að "láta" alla vinna í hópnum (NOT) þannig að það sannast aftur og aftur að í hópavinnu er ALLTAF sama fólkið að skila vinnunni

kv Smári