Tilfærslur og gullfiskaminni

Ég var í Hagkaupum, Holtagörðum um daginn.... í heilsudeildinni (sem er reyndar með ansi gott úrval). Þar var allt á rúi og stúi. Það var greinilega verið að endurskipuleggja í hillur. Það læddist að mér grunur. Viku síðar var ég aftur stödd í versluninni og viti menn, grunurinn reyndist á rökum reistur. Eftir endurskipulagningu hafði vöruverðið hækkað umtalsvert. Minnsta hækkunin var um 30 krónur á vörutegund en mesta hækkunin um 350 krónur. Í sumum tilvikum var um að ræða 50% hækkun (kannaði ekki allar vörur, aðeins þær sem ég kaupi helst). Ég veit ekki með ykkur en mér finnst afar lúalegt að færa til vörur og hækka þær svo í beinu framhaldi...svona eins og eigi að reyna að plata viðskiptavini, treysta á að þeir séu með gullfiskaminni. Það var a.m.k. tilfinningin sem ég fékk. Ég fékk hálfgert óbragð í munninn og ekki síst vegna þess að uppáhaldsbrauðið mitt (óbakað brauð, unnið úr spíruðu korni) var búið að hækka um helling og síðan fyrir rúmu ári síðan um 100%, komið upp í rúmar 700 krónur.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Sólveig S. Finnsdóttir
17. okt. 2009

það segja allir að sé ódyrara að baka brauð heldur en að kaupa þau. kv.m

CafeSigrun.com
17. okt. 2009

Þetta er ekki þannig brauð....það er gert úr spíruðu korni og er ekki bakað, ég get ekki útbúið brauðið heima og verð þess vegna að kaupa það. Ég kaupi aldrei brauð annars og hef ekki gert í 10 ár.

Melkorka
17. okt. 2009

Svona innkaupaferðir bjarga alltaf deginum hjá manni.

Alma
19. okt. 2009

Algjörlega óþolandi. Ég hef alltaf keypt þetta brauð líka en nú er það bara spari spari eins og svo margt í heilsuhillunni. Hagkaup hefur verið ansi "duglegt" við að hækka þessar vörur.

CafeSigrun.com
19. okt. 2009

Nákvæmlega Alma....það er rétta lýsingin "spari spari" og ætti alls ekki að vera þannig, miðað við að þessar vörur eiga að stuðla að því að gera okkur gott, ólíkt sælgæti og rusli :(

Gunnhildur
22. okt. 2009

Þetta er einmitt það sem er svo vitlaust hér í þessu landi. það holla og góða fyrir líkama og sál er RÁNDÝRT en á meðan er mörg hundruð grömm af sælgæti á kúk og kanil... Sem betur fer er vatnið okkar enn ókeypis.

Þetta er eins með almennan "mat" Sjáið bjúgu, þetta er hræódýrt að kaupa en ferskt ómengað kjöt er á fleiri fleiri þúsund kílóið... Hvernig væri að stuðla að heilbrigðri og ánægðri þjóð með því að minnka tolla og skatta á holla matinn????

Aslaug
22. okt. 2009

Brauðið úr spíraða korninu sem þú talar um; er það dökkt og frekar þungt og eins og rakt viðkomu. Er það óbakað? Þolir það alveg geymslu? Hef séð þessi brauð og keypti einhvern tímann eitt en var ekki alveg viss um hollustuna.

Sigrún
22. okt. 2009

Jú stemmir Áslaug. Það geymist lengi óopnað en eftir opnun í nokkra daga. Það er afar hollt og gott og er já, óbakað :)

Aslaug
23. okt. 2009

Takk fyrir það. Ætla nú að kaupa brauðið þrátt fyrir þessa hækkun. Brauðið kostar líka um 700 krónur í Nettó. Sigrún til hamingju með litlu stúlkuna þína. Kveðja, Áslaug

CafeSigrun.com
23. okt. 2009

Takk takk Áslaug :)

Solla
26. okt. 2009

Smá innlegg í þessa umræðu skvísur. Þar sem ég var beðin um að aðstoða við að breyta heilsuganginum í Hagkaup þá fannst mér ég verða að leiðrétta eða benda á ákveðna hluti. Það var ekki verið að endurskipuleggja til að geta hækkað vörurnar, heldur til að gera aðgengi kúnnans betra. Og mér finnst hafa tekist ágætlega. Í sambandi við brauðið þá flytur Hagkaup þetta ekki inn, heldur er það heildsali út í bæ og hækkaði hann vöruna (ég kaupi sjálf þetta brauð og tók eftir þessu og spurði hvers var........ og fékk svar frá hr. Hagkaup) og bar fyrir sig skelfilegu gengi á nýrri sendingu. Undanfarnar vikur hafa verið miklar hækkanir ekki bara í heilsudeildinni, heldur bara almennt, þar sem gengið hefur verið út í hött. En mig langar að benda á að lífrænu vörurnar með hjartanu hafa verið á sama verði í marga mánuði á meðan sambærilegar vörur hafa hækkað upp úr öllu valdi........ Gangi ykkur sem allra best:)*