Nestisfjallið

nestiÍ gegnum tíðina hefur fólki hvort sem um ræðir samstarfsfólk eða samnemendur, verið starsýnt á nestisboxin mín sem ég hef með mér hvert sem ég fer. Það hefur meira að segja gert grín að mér óteljandi sinnum. En mér er alveg sama, ég veit hvað ég er að gera. Þetta á einnig við um nestisboxafjallið hans Jóhannesar. Í nestisboxunum er alltaf eitthvað hollt og gott sem ég hef útbúið. Stundum er það jafn einfalt og niðurskorin agúrka svona á milli mála alveg upp í heita máltíð sem var í matinn daginn áður og þjónar nú því hlutverki að seðja magann í hádeginu. Fólk heldur að það að útbúa nesti sé flókið, krefjist mikillar vinnu og sé leiðinlegt. Ekkert af þessu er þó satt. Heimatilbúið nesti er einmitt afskaplega gefandi, það er einfalt að útbúa það, tekur um 15 mínútur dag hvern. Þessar 15 mínútur eru í raun afskaplega vel launuð vinna því það að útbúa nesti er töluverður sparnaður miðað við að kaupa sér t.d. samloku og gosdrykk í hádeginu. Svo er auðvitað hellingur af ást og umhyggju í hverju boxi sem auðvitað er ekki metið til fjár he he.

Ég þekki fólk sem hefur keypt sér samloku eða annað álíka í hádegismat í mörg, mörg ár. Í London þekkist heldur ekki að fólk taki með sér nesti, svona almennt. Það þótti því heldur betur furðulegt þegar ég dró upp nestisboxin mín í vinnunni og alltaf sköpuðust umræður um mat í kjölfarið (þó ég væri alls ekki að leita eftir því). En já, dýr er hann…þessi keypti matur. Ef við gefum okkur að samloka kosti 400 krónur (veit ekki einu sinni hvað þær kosta) og maður borði eina á dag alla vinnuvikuna gerir það rúmar 100 þúsund krónur yfir árið. Þá er ekki tekið með annað eins og gosdrykkir eða sælgæti.....þetta er bara svona skot á meðaltal hjá mér (stundum kaupir fólk ekkert, stundum fer það út að borða og eyðir jafnvel meira, stundum er það í fríi...). Það má margt gera fyrir þennan pening og á 10 árum erum við að tala um eina milljón króna í nesti!!! Það versta kannski í þessu (því ég skil þetta með tímaleysið og að fólk vilji flýta fyrir sér) er að samlokur sem keyptar eru, eru flestar drasl (eða miðað við heimatilbúið nesti). Í samlokum eru rotvarnarefni og önnur aukaefni, sykur, salt og allt of mikið af mettaðri fitu, svona almennt. Ég get viðurkennt að stundum, eftir langan vinnudag eða þegar maður er eitthvað illa upplagður, getur það virkað lítið heillandi að eiga eftir að útbúa salat eða smoothie, samloku eða hvað sem er...það er þó ALLTAF þess virði. Þessar 15 mínútur eru eins og ég nefndi áður, afar "vel launaðar". Ég tek reyndar fram að ég geri hnetusmjörið sjálf sem og hnetumixið (og auðvitað allt sem fer í "sætt og gott")  en það er ekki reiknað með í þessum 15 mínútum...ég geri alltaf heilmikinn skammt í einu sem dugar í nokkrar vikur (tekur samt alls ekki langan tíma).

Hér er dæmigert nestisfjall sem Jóhannes tekur með sér í vinnuna dag hvern (talið neðan frá og upp):

Salat: Reyktur lax, agúrka, paprika, harðsoðið egg og eggjahvíta, jöklasalat, quinoa fræ, nýrnabaunir

Eitthvað sætt og gott: Í þessu tilviki var það gulrótarkaka (holl og heimatilbúin að sjálfsögðu). Stundum eru það muffinsar, orkubarir, hnetunammi eða konfekt o.fl. sem ég hef fryst

Smoothie: Hreint skyr, jarðarber, banani, haframjöl, quinoa fræ og heimatilbúið hnetusmjör

Ávöxtur eða grænmeti milli mála: Í þessu tilviki vínber en stundum eru það gúrkur, gulrætur, paprikur, epli o.fl.

Próteinduft: Fyrir smoothie-inn

Hnetumix: Heimatilbúið hnetubland (nemendanasl) með alls kyns hnetum, sólblómafræjum, graskersfræjum, rúsínum, döðlum, gráfíkjum o.fl.

Það sem gildir um nesti almennt, gildir líka um það þegar maður er á ferðinni (í bíl, í flugvél, rútu, í hestaferð eða hvar sem er…..) maður getur alltaf tekið með sér nesti og ætti ekki að þurfa að reiða sig á að kaupa drasl. Hnetur og döðlur eru t.d. frábær blanda í poka og maður ætti aldrei að þurfa að kaupa sælgæti sem "orkuskot". Í nestinu og í raun bara hvenær sem hagsýni og sparnaður á í hlut, skiptir afar miklu máli að eiga frysti og nota hann, þó það sé ekki nema bara lítið frystihólf getur hann gert gæfumuninn! Einnig eru nestisbox mikilvæg en þau eru frábær og ódýr fjárfesting. Rúsínan í pylsuendanum er auðvitað að heimatilbúið nesti er frábærlega umhverfisvænt!!! Því má segja að ekki aðeins sé þetta góð fyrirmynd fyrir börnin og aðra hvað matarmál varða heldur einnig hvað umhverfisvernd varðar...ekki ónýtt!

Þið getið lesið nánar um nestismál á vefnum. Ef þið hafið einhverjar spurningar varðandi nesti, sendið mér endilega línu.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Lisa Hjalt
04. nóv. 2009

jeminn eini, nú fengi Ásmundur bara nestisöfund; hann var nú aldrei með svona stórt fjall!!!

Sólveig S. Finnsdóttir
04. nóv. 2009

pabbi þinn tekur alltaf afgang frá kvöldmatnum og hafa margir í gegnum tiðina tekið hann sér til fyrirmyndar þvi það kostar mikið eins og þu segir að kaupa samloku og gos það kostar ekki undir 6-800 kr á dag. KV. M

Esther
04. nóv. 2009

Vá Sigrún

úff hvað Jóhannes er heppinn :-) Þú ert svo dugleg alltaf, nú þarf ég að fara að taka mig á í nestis málunum sem eru ekki nógu góð!

Takk fyrir þetta - gaman að fá svona flott dæmi með!

Knús Esther.

hrundski
04. nóv. 2009

Nú vil ég fá að sjá töskuna sem Jóhannes fer með í vinnuna :) Er hann með svona gömlukonukerru á hjólum?? tíhíhí

Melkorka Mjöll Kristinsdótir
08. nóv. 2009

Vá, ótrúlega hvetjandi! Takk fyrir þetta Sigrún!

Margrét Rós
08. nóv. 2009

Vá ekkert smá flott! Ég reyni alltaf að taka með mér nesti í skólann, eini gallinn er að í háskólanum mínum eru engir ísskápar sem að maður getur geymt nestið sitt í, þal að salat og smoothie er ekkert voðalega girnó eftir kannski 4 tíma í töskunni. En ég læt mig nú yfirleitt samt hafa það :-)

Melkorka Mjöll Kristinsdótir
13. nóv. 2009

Það eru til æðisleg nestisbox í Snúðar og Snældur, allavega lit og í laginu, meðalstór og svona pínulítil, sem rúma kannski 20 rúsínur eða um 4 vínber.