Bloggið

Ekki búin að gleyma ykkur

Ég veit.....ekki búin að blogga neitt alveg heillengi....það er búið að vera algjörlega brjálað að gera á öllum vígstöðvum. Hef ekki haft tíma til að anda einu  sinni, hvað þá tvisvar. Við erum að vooooooona að við komumst án mikilla óþæginda til London á laugardaginn. Ég vildi óska þess að ég tryði á eitthvað almætti því þá myndi ég biðja um smá pásu í goslátum.

Við löbbuðum fram hjá Heilsuhúsinu á Laugaveginum í gær. Mig vantaði eitthvað smálegt og hugsaði með mér á ég að kaupa það sem mig vantar? Ég áttaði mig fljótt.......á laugardaginn get ég verslað í stærstu heilsubúð Evrópu (sem er líka stærsta matvöruverslun Evrópu...svo stór er hún)..... Hún ætti að duga ha ha.

Ég á eftir að setja inn myndir úr ferðinni, ætla að velja nokkrar úr til að birta hér.  Svo þegar ég er komin út og búin að koma mér fyrir mun ég elda nokkrar afrískar uppskriftir sem bíða mín sem og aðrar sem ég er búin að safna í sarpinn en ekki búin að útbúa...nokkrar mjög spennandi (að mínu mati).....

En allavega, bara að láta vita að ég er á lífi.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Komin frá Afríku

Þá erum við lent. Ég man ekki alveg hversu oft við höfum komið til Kenya en það er allavega ekki of oft. Ég þreytist aldrei á að tala um Kenya og Afríku og upplifun okkar á álfunni. Við höfum auðvitað bara upplifað svo agnarsmátt brot af henni því hún er jú svo gríðarlega stór. Það sem við höfum upplifað hefur án undantekninga verið stórkostlegt. Allt sem maður upplifir er framandi; maturinn, fólkið, loftslagið, dýrin, náttúran, húsin, umhverfið, farartækin, hitinn, rakin, hljóðin, fátæktin. Hitinn er auðvitað mikill...svo mikill að maður tekur andköf við að koma úr köldu herbergi (ef maður er í svoleiðis) og móða kemur á gleraugu og myndavélalinsur. Reyndar var óvenju heitt miðað við árstíma og við fundum vel fyrir því.

Það eru svo ótalmargar myndir sem koma upp í kollinn eins og t.d. kameldýr að gægjast upp úr runna, zebrahestar og gíraffar í kallfæri, fílar að sperra eyrun í átt að bílnum, geitur á veginum og lítill rauðklæddur smali veifandi priki að reka þær yfir, beljur sofandi við vegkantinn, krakkar brosandi út að eyrum og veifandi höndunum til okkar, maður að keyra fólksbíl fullan af lifandi hænum í aftursætinu, skrautlega klætt fólk í messu utandyra, börn að skoppa gjörð, götusalar í myrkrinu að selja ýmsan varning við gasluktir og kertaljós, rauðklæddir og skreyttir Samburu stríðsmenn með spjót og sítt og leirborið hár, konur á gangi með vatn á höfðinu og í litríku kikoy (teppi) sem bærist í golunni eins og skikkja, strákar í fótbolta sem búinn er til úr uppvöfðum plastpokum og snærum, glansandi sveittir farandverkamenn sem eru í betra líkamlegu formi en allir líkamsræktarfrömuðir landsins en hafa aldrei á ævinni stigið fæti í líkamsræktarsal, fólk að selja mis grunsamlegan mat við vegkantinn í veikri von um að mis vitrir ferðalangar kaupi hann, hlaupandi smásalar við öll umferðarljós hlaðnir nauðsynjavörum eins og sólgleraugum og glo-in-the-dark hálsmenum, þakklátir krakkar á ABC munaðarleysingjaheimilinu að dansa og syngja með íslenska fánann við hún, kona að elda graut í reykmettaðri maniöttu (kofi úr kúamykju) í Samburu þjóðgarðinum, krakkar að þyrpast utan um ferðalanginn litla frá Íslandi í von um að koma við furðulega fyrirbærið, gististaður einhvers staðar í buskanum þar sem dýrahljóðin yfirgnæfa öll önnur hljóð, stórkostlega bragðgóður matur og svo ferskur og fallegur að unun er á að líta, fjöll allt um kring og grænar hæðir og hólar, litrík blóm og ávextir á öllum trjám. Ég þarf bara að loka augunum til að framkalla 100 myndir til viðbótar og þetta er bara lýsingin á nokkuð venjulegum degi á ferðalagi okkar.

Þetta gekk allt vel….eiginlega frá upphafi til enda, fyrir utan 24 tíma seinkun í upphafi, alltaf leiðinlegt að missa sólarhring úr fríinu sínu. Flugvallarhótel við Heathrow er frekar mikið að fölna í samanburði við áfangastaðinn. Litla skrípið var með eindæmum geðgott og rólegt. Daman er fædd í ferðalög og safarí og kvartaði aldrei nema þegar hún var sérlega svöng eða þyrst og þrátt fyrir kúkableiur og sjóðandi hita á daginn brosti hún framan í alla; fíla, bíla og ferðalanga. Það var líka alls staðar slegist um hana. Um leið og við komum á áfangastað var einhver innfæddur sem greip hana og hljóp með hana út um allar koppagrundir til sýningar. Fólk þarna um slóðir er líka einstaklega barngott og hreinlega elskar að kjassa og kyssa litla ferðalanga. Við vorum í góðum félagsskap með Borgari bróður, Elínu konunni hans og Mána og Steini sonum þeirra. Þeir eru einstakir drengir, ávallt að passa upp á litlu frænku sína og hugsa vel um hana, kurteisir, þægilegir og prúðir. Sannkallaðir sómamenn og frábærir ferðafélagar.

Maturinn sem við fengum var auðvitað alveg stórkostlegur og ég er heldur betur búin að fá nokkrar uppskriftir í vasann sem ég get ekki beðið eftir að deila með ykkur. Það er alveg sama hversu oft ég kem til Kenya og borða mikinn mat, ég læri alltaf eitthvað nýtt. Ég fann líka, ótrúlegt en satt a.m.k. 3 heilsubúðir á ferðalaginu. Eina fann ég, svo flotta í Nairobi og hún fékk mig til að hugsa hvernig stæði á því að heilsuvörur á Íslandi (sömu merki, sama innihald, sama magn) væru þrefalt dýrari en í Kenya? Hún var virkilega flott og með gott úrval af öllum vörum. Kíló af cashewhnetum (fallegum, hvítum, stórum og heilum fyrsta flokks cashewhnetum) kostaði um 1000 krónur. Sem dæmi. Kílóið hér kostar um 7000-9000 krónur (og það af brotnum, gráum, litlum, þriðja flokks hnetum). Einnig er svo magnað að borða alla þessa dýrðlegu ávexti, nánast beint af trjánum. Maður hreinlega horfir á ávextina spretta....bananar, mango, papaya, avocado, ástríðualdin, ananas...þetta vex allt í miklu magni og er svo GOOOOOOTTTTTTT. Líka langaði mig SVO að taka með heim nokkrar kókoshnetur (óþroskaðar) því vökvinn úr þeim er jú hollasti drykkur í heimi og kjötið getur maður notað í alls kyns ísa og eftirrétti. Þessar kókoshnetur fengust hér í góðærinu en síðan ekki söguna meir.

Nú er það næsti kafli í lífi okkar...flutningar til London. Jóhannes er búinn að fá vinnu og á að hefja störf 5. maí. Ég held áfram mínum störfum hér á landi sem og í Bretlandi, eins og ég hef gert síðustu árin þó ég verði meira og minna í Bretlandi auðvitað. Það er því lítill tími til stefnu og ég þarf bara að segja Hakuna Matata eins og þeir gera í Kenya.

Myndir koma síðar.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Africa here we come!

Jæja þá er næsta stopp London og svo er það áleiðis til Nairobi. Við komum til með að flakka svolítið um Kenya og ég mun skrifa hér inn fréttir ef ég mögulega get. Ég er mjög spennt því þetta verður svolítið öðruvísi ferð en venjulega. Við munum gista í heimahúsi hjá local fólki í einhverja daga, fá heimatilbúinn  mat (og ég ætla að reyna að læra eitthvað í kenyskri matargerð í leiðinni), við ætlum að búa til sushi við strönd Indlandshafs og nota nýveiddan túnfisk (ekki tegund í útrýmingarhættu) og við munum gista hjá local vinafólki sem á hótel sem verður líklega ekki í notkun á meðan við erum þar. Við ætlum líka að heimsækja kvennaþorp, munaðarleysingjaheimili og kíkja í heimsókn hjá Samburu ættbálkinum. Þetta verður svolítið heimilislegt, rólegt og vonandi þægilegt.

Litla skrípið er búið að fá mango, banana, avocado og papaya ásamt hrís- og hirsigrautum í tonnatali og er að sögn bróður míns eins og selur. Hún hefur því góðan forða til að vinna úr þarna suður frá.

Held að við séum við öllu búin! Africa, here we come!!!!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Skuldabréfshappdrættisvinningur

Ég fékk bréf frá Landsbankanum í gær. Bréfið var yfirlit yfir skuldabréfaeign mína. Ég vissi ekki að ég ætti skuldabréf. Upphæðin er svo sem ekki brjálæðislega há, og þó, eins og flugfar fyrir tvo eitthvert innan Evrópu til dæmis. Ég ætla að láta sem ég hafi unnið í happdrætti (ég vinn aldrei neitt) og vera rosa glöð. Ástæðan fyrir því að ég er sérlega hissa á þessari eign er að ég hringdi í Landsbankann fyrir um 2 árum síðan og bað um að peningurinn yrði færður yfir á bókina mína. Ég treysti nefnilega ekki svona bréfum hvers kyns og hef aldrei gert. Maður þarf að hafa vita á svona hlutum til að græða á þeim. Og þó? Maður virðist geta haft hellings vit á svona bréfum og tapað heilum helling. Með því að hafa ekki hugmynd um peninginn hefur hann ávaxtast mjög vel. Línuritið, miðað við það sem ég fékk sent í gær er allavega aðeins í eina átt, upp. Ég átti einu sinni skuldabréf eða hlutabréf eða eitthvað svoleiðis í Glitni...held að bankinn hafi þá verið Glitnir. Það var allavega 2007 og allt í blússandi siglingu. Ég er einstaklega vör um mig með peninga (fyrir utan það að gleyma eins og skuldabréfum og svoleiðis) og hugsaði með mér að ég hefði ekki nægilega mikið vit á peningum til að vera að fikta með svona bréf. Ég hringdi í bankann. Það tók mig um 5 símtöl að fá samband við strák sem gat hjálpað mér. Sá var liðlegur en vantrúa og sagði mér að það væri alls ekki sniðugt að selja, hann ráðlegði mér eindregið frá því. Ég sagðist vera viss í minni sök. Hann dæsti og sagði léttilega Þú átt eftir að sjá eftir þessu! en gerði svo eins og ég bað um. The rest is history eins og sagt er. Ég hefði tapað þó nokkurri upphæð ef ég hefði fylgt fyrirmælum þeirra sem höfðu meira vit en ég, eins og margir lentu jú í. Hins vegar veit ég ekki um neinn sem hefur lent í því að hafa beðið um að skuldabréf yrðu færð bara í peningum inn á venjulega bók (með góðum vöxtum auðvitað) en það ekki verið gert....  Er að velta því fyrir mér hvort ég ekki einhvers staðar sand af seðlum sem ég hafi gleymst að færa eitthvað....Ég sé raunverulega jafnvel milljóner? Ég myndi þá örugglega hafa efni á gullklósettpappír í London.
Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Næsta stopp - Afríka!!

Afríka er eins og eiturlyf. Eftir að maður hefur prófað einu sinni, verður maður að fá skammtinn sinn aftur. Við höfum verið svo ógurlega heppin síðustu árin að hafa fengið tækifæri til að þvælast svolítið um þessa mögnuðu álfu sem erfitt er að lýsa í orðum. Eitt besta dæmið er félagi Jóhannesar sem oft hefur hlustað á okkur mæra Afríku. Hann kom sjálfur frá einu Afríkulandanna um daginn og sagði við Jóhannes… “Ég veit núna hvað þú meinar….VÁ“…. Það eru eiginlega ekki til nein almennileg lýsingarorð…það er eitthvað við umhverfið, loftið, rakann, matinn, fólkið, menninguna, hljóðin, hefðirnar, dýralífið, náttúruna, öfgarnar….Afríka er einhvern veginn allt og meira til.

Reyndar höfum við bara farið til fjögurra Afríkulanda af 53…þ.e. Kenya (ótal sinnum), Tanzaníu, Rwanda og Uganda. Þessi lönd hafa öll sinn sjarma og eru afar ólík (alveg eins og Danmörk og Ísland eru ólík). Rwanda er ólýsanlega fallegt land og þrungið spennu með sínum eldfjöllum, eldingum og magnþrunginni og hrikalegri sögu. Einhvern veginn héldum við öll í okkur andanum þessa daga sem við eyddum í Rwanda. Górillurnar voru auðvitað ógleymanlegar og malbikið fína næstum því ógleymanlegra!! Uganda minnist maður helst fyrir grænu fjöllin sem þakin eru telaufum og Matoke bönunum. Uganda er þægilegt og friðsælt og hefur fjölskrúðugt dýralíf. Tanzanía hefur auðvitað hæsta fjall Afríku og einnig höfum við verið í fjallaþorpi í Usambara í Tanzaníu sem var svo fallegt og svo afskekkt að mann langaði helst að eignast þar sumarbústað. Þar hittum við m.a. mann sem átti ljótasta og hrörlegasta “hús“ í heimi, en líklega þó með fallegasta útsýni í heimi. Hann bjó í kofa (svona eins og maður sér á smíðavöllum barna) en hann hafði nánast ótakmarkað útsýni eins langt og augað eygði yfir fjöll, dali, og ár. Hann bauð okkur inn í stofu til sín og hún var bæði stofa og svefnherbergi, bekkurinn tötralegi með skítugu dulunum var bæði rúm og sófi og hann rúmaði tvo ef þeir beygluðu sig saman. Það var meira að segja blómapottur í gluggakistunni. Kenya er svo blanda af þessu öllu. Í Kenya má finna ótrúlegt dýralíf, hinn magnaða Masai Mara þjóðgarð, fjölbreytta menningu (eins og annars staðar í Afríku er töluvert um mismunandi ættbálka sem allir hafa sínar hefðir og sína sérstöðu). Í Kenya finnur maður líka hvítar strendur, tæran, bláan sjó og pálmatré, eins og við strönd Zanzibar (við Tanzaníu).

Alls staðar leynist saga, oft erfið en alltaf er það fólkið sem skilur eftir sig hvað mest í hjörtum manns. Alls staðar er stutt í bros. Fyrir mig, sem mataráhugamanneskju er ómetanlegt að fá að kynnast hefðum og siðum og uppskriftum fólksins í þessum löndum. Ég gef mig oft á tal við kokka eða bara fólk á götunni sem er að selja mat og auðvitað rek ég garnirnar úr vinum og kunningjum….hvaðan koma uppskriftirnar? getur maður fengið uppskrift?, hver er sagan á bak við fólkið? Hvar er hráefnið verslað inn? Svona hef ég fengið flestar afrísku uppskriftirnar mínar þó ég eigi auðvitað urmull uppskriftabóka frá Afríku líka.  Mér þykir einna vænst um uppskrift að baunapotrétti einum frá Rwanda en hann fékk ég frá stúlku sem ég hitti á netkaffihúsi í Ruhengeri (rétt við rætur Virunga fjallanna). Ég spurði hana svo um matarvenjur og hún gaf mér uppskrift frá móður sinni. Það er ekki sagt berum orðum en það lá í loftinu að þessi stúlka var fátæk og móðir hennar hafði upplifað ýmislegt. Afríka er álfa öfganna og ég hef fengið besta mat í heimi í Afríku (borðaður á ströndinni við tunglskin, glampandi stjörnur og varðeld) og ég hef fengið versta mat í heimi í Afríku (og reyndar á Íslandi líka) í áðurnefndum fjöllum í Tanzaníu. Yfirleitt er maturinn í Afríku (sérstaklega Kenya) dásamlegur, eldaður frá grunni, enginn pakkamatur eða dósaopnari í nánd og fólkið tekur tímann í að matreiða hann (pole pole segir fólkið…hægt, hægt). Við höfum aldrei fengið matareitrun, okkur verður aldrei illt í maganum og við komum alltaf sprengfull af vítamínum heim enda eru ávextirnir sem maður borðar, beint af trjánum.

En eins og ég nefndi áður eru öfgarnar miklar og þar sem er ríkidæmi er alltaf sár fátækt. Við höfum fengið að sjá báðar hliðar, bæði sem ferðamenn og sem fararstjórar.  Ég ætla samt ekki að tala um þá hlið hér…það væri efni í heila bók.

En já … svo ég snúi mér að umræðuefni dagsins. Við erum á leið til Kenya….að þessu sinni sem ferðamenn með Borgari bróður, Elínu, Steini og Mána. Við leggjum af stað 24. mars og komum aftur 11. apríl. Við litla fjölskyldan ætlum að fara með þeim í samfloti. Máni frændi minn (sem er svakalega skemmtilegur og góður strákur eins og bróðir hans Steinn) er nefnilega að fermast og hann fær ferðina í fermingargjöf. Svo er Borgar með ferðafyrirtækið sitt úti og við eigum góða vini þar sem við ætlum að heimsækja líka. Nú eruð þið kannski að reikna í huganum og hugsa…. “bíddu….miður september……uuuu…hvað er barnið þeirra eiginlega gamalt“? Afkvæmið verður rúmlega 6 mánaða við brottför. Það er ekki hár aldur á ferðamanni til Kenya..eða eins og smitsjúkdómalæknir ungbarna sagði þegar ég talaði við hann “hún er líklega yngsti íslenski ferðamaðurinn sem hefur farið til Kenya?“. Áður en þið sendið á okkur fulltrúa frá barnaverndaryfirvöldum hafið þá eftirfarandi í huga:

  • Við höfum farið ótal sinnum til Kenya og þekkjum aðstæður vel.
  • Við förum með Borgari og Elínu sem hafa farið með ungbörn til Kenya, m.a. umræddan Mána 9 mánaða í 3 mánuði og þau gistu í tjaldi allan tímann.
  • Við verðum alls staðar á öruggum stöðum.
  • Við verðum í traustum bíl með góðan bílstól.
  • Við erum búin að ráðfæra okkur við lækna og hjúkrunarfræðinga sem eru búnir að gefa grænt ljós á ferðina.
  • Við verðum alls staðar nálægt stórum sjúkrahúsum eða flugvöllum ef eitthvað alvarlegt kæmi nú upp á.

Við höfum gagngert verið að þjálfa litla skrípið undanfarna mánuði til að geta tekist á við svona ferðalag. Til dæmis:

  • Hún hefur verið í svefnþjálfun frá 3ja mánaða. Við getum lagt hana inn, kysst hana góða nótt og labbað út. Hún sofnar yfirleitt á 2 mínútum. Hún sefur líka alla nóttina. Þetta er ekki heppni (nema kannski með lundarfar í henni) heldur búið að vera mjög strangur svefnskóli!
  • Hún verður vanin á þá ávexti sem verða í boði (banani, mango, avocado, papaya..allt ávextir sem þarf að skræla) samhliða graut og auðvitað mjólkinni.
  • Hún verður undir algerri smásjá hvað moskító og slíkt varðar. Sem betur fer er ekki mikið um skordýr en á kvöldin og morgnana er það moskítónet út í eitt (tökum nokkur með til öryggis) og langerma fatnaður.
  • Hún mun fá ferðarúm sem hún mun venjast á að sofa í áður en við förum.
  • Ég mun fara í Kringluna með vagn (hvað gerir maður nú ekki fyrir barnið sitt)…til að venja hana við að sofna í hávaða sem svipar til flugvalla.
  • Við munum venja hana við að sofna lúra í bílnum (við höfum passað upp á að hún sofi ekki í bíl… hluti af svefnþjálfun… því svefn í bíl er ekki gæðasvefn).
  • Allt það sem ferðamenn eru hræddir við, matareitrun, vatnsskortur, óhreint vatn, skordýr o.fl. erum við nokkuð með á hreinu því við þekkjum aðstæður vel (alls staðar eru verslanir með hreint vatn).
  • Við erum líka meðvituð um hversu sólin er sterk (flestir Íslendingar taka aaaaaaallllt of litla vörn) og skrípinu verður dýft í fötu með sólarvörn á degi hverjum, oft á dag (svo gott sem).

Og margt fleira gæti ég nefnt en þetta er það helsta. Það erfiðasta og það sem ekki er hægt að sjá fyrir með hvernig viðbrögðin verða, er hitinn. Hann er aldrei auðveldur fyrir neinn en sem betur fer líður mér illa í sól og hita svo ég mun hvort sem er leita í skugga og lægra hitastig hvenær sem færi gefst. Ég mun koma hvítari en allt það sem hvítt er, til baka úr ferðinni…sem er í góðu lagi. Við erum svolítið rugluð…það er alveg ljóst….en lífið er jú til að lifa því.

Vá ….ég hefði getað sagt bara “Við erum að fara til Afríku….“….ég GET bara ekki verið stuttorð hmmmmm.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Aðeins meira af söfnun en nú annars konar

Mig langar að vekja athygli á blogginu hennar Elísabetar vinkonu okkar.....Það munar um allt.....
Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Og enn meira af söfnunaræaráttu

Ég fékk nestisboxablæti mínu heldur betur fullnægt í dag….eða þetta voru eiginlega ekki nestisbox (svona eins og kardimmommudropar "eru bökunarvara en ekki áfengi")….Ég fann lítil matarbox til að frysta grauta o.þ.h. í. Þau eru einlit og í nokkrum litum (en ekki skræpótt) og mjög sæt. Ég vissi af þeim eftir ábendingu frá Hrund vinkonu sem vissi nákvæmlega að hvernig boxum ég var að leita. Þó ég hafi hlýjar tilfinningar í garð Disney að flestu leyti eftir að Jóhannes vann þar í 3 ár (frábær vinnustaður) þá vil ég ekki sjá svoleiðis fígúrur á matardöllum sem ég nota til myndatöku…eða Dora the Explorer, eða Bubba byggi eða hvað þetta heitir allt saman. Ég fann þessi ílát í Hagkaupum Kringlunni (í fyrsta skipti sem ég fer í Kringluna í meira en 2 ár) og það lá við að ég hlypi sigurhring með boxin á lofti....þið sjáið þetta fyrir ykkur er það ekki í.... slow motion……Ég skalf úr hamingju þegar ég handfjatlaði ílátin. Ég strauk þeim ofurvarlega, ég þefaði meira að segja af pakkningunum. Ég horfði með aðdáun þegar afgreiðslumaðurinn pakkaði þeim í pokann. "Ég á þau". Langaði mig að segja við hann. "Þau eru mín". Ég gleymdi sem snöggvast að afkvæmið var á neðri hæðinni með pabba sínum og ömmu..sem betur fer því ég hefði gleymt aumingja barninu við rekkann þar sem ílátin voru geymd. Ég hefði svo pakkað ílátunum ofan í bílstólinn ofurvarlega og breytt yfir þau teppi og keyrt af stað. Ég hefði líklega áttað mig á ruglingnum þegar ég setti boxin í bað (þ.e. uppþvottavélina)…

Það góða við nestisbox er að ég get alltaf sagst vera að kaupa fyrir aðra en sjálfa mig og að ég sé bara að vera nýtin...t.d. "nei ég þarf þau fyrir nestið þitt Jóhannes". "En þú átt 20 alveg eins?"...."Nei þau eru ekki ALVEG eins, þessi eru t.d. með öðruvísi loki"....eða "Jú ég verð að kaupa þessi box til að frysta kökur í" (frysti eiginlega aldrei kökur en er mjög góður sölupunktur á Jóhannes.....eða "Það borgar sig margfalt að kaupa þessi box þó ég eigi alveg nákvæmlega eins box því ef þau eru öll í frystinum (þau kæmust aldrei öll fyrir)  þá á ég ekki neitt box til að frysta afganga í"...."Er þá ekki best að tæma frystinn?"....."Nei það borgar sig frekar að kaupa fleiri box".....(fljót að stinga í körfuna áður en kemst upp um mig......)..eða...(fyrir 3 mánuðum)...."Ég þarf nauðsynlega að kaupa box fyrir afkvæmið til að frysta mat í"..."En hún drekkur bara mjólk?"...."Já en það eru bara nokkrir mánuðir í að hún byrji að smakka graut...", "Sigrún hún er bara tveggja mánaða"...."Allur er varinn góður Jóhannes" (hér var ég ekki svo sannfærandi held ég sem sást best á því hvað ég ÆTLAÐI að segja næst "En ég gæti fryst litlar kökusneiðar"....(en hætti við).

P.s. ....ég er búin að eignast tvær uppskriftabækur síðan ég skriftaði um daginn....

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Meira af söfnunaráráttu

Nestisboxagræja
Ég var að fletta Fréttablaðinu í gær....og rak augun í auglýsingu. Hún var frá IKEA. Ég kaupi aldrei neitt frá IKEA nema í mesta lagi eitthvað eins og sleifar og skálar. Húsgögn kaupi ég yfirleitt ekki í IKEA. Ekki af því þau séu eitthvað sérstaklega ljót eða slæm eða neitt slíkt heldur vegna þess að einu sinni keyptum við allt innbú frá IKEA og fengum svo ógeð. Síðan eru liðin mörg ár og ég sé öðru hvoru mjög fínar mublur í bæklingum þaðan eða heima hjá fólki. Það er nefnilega þetta með að blanda saman nýju og notuðu því við kunnum ekki svoleiðis. Núna eigum við allt notað. Við eigum m.a. hundrað ára gamlan kirkjubekk frá Englandi, kirkjustóla og altarisborð einnig frá Englandi (fyrir þá sem eru búnir að gleyma, erum við ekki einu sinni í trúfélagi og þess vegna er þetta svo fyndið..það er meira að segja gert ráð fyrir sálmabókum á borðstofustólunum okkar. Það allra fyndnasta var samt að þessir stólar, 100 ára gamlir, fleygaðir (ónegldir) eru óslítandi og voru ódýrari en IKEA stólar). Stofuborðið okkar er frá 1870 og er gömul kista (fóðruð að innan með dagblöðum þess tíma, hrikalega gaman að lesa þau).

En já.....auglýsingin. Hún kveikti í mér. Ég fékk fiðring, svona eins og spilafíkill fær þegar hann sér spilakassa.  Ég var búin að gleyma eða réttara sagt ýta þessarri áráttu aftast í heilastöðvarnar...þar sem ég geymi allt hitt sem ekki á að vera opinbert hehehe. Ég er nefnilega nestisboxafíkill. Auglýsingin sýndi tindrandi nestisbox, glansandi fín með grænu loki (ég á engin nestisbox með grænu loki). Ég er með heila skúffu í dýrmætu plássi í eldhúsinu bara undir nestisbox af öllum stærðum og gerðum. Hrund vinkona mín sendi mér tengil um daginn á sniðuga nestisboxasíðu og ég var að velta fyrir mér hvernig ég kæmi þeim öllum fyrir.....áður en ég svo sló sjálfa mig utan undir. Ég sannfæri mig alltaf um að ég þurfi fleiri box fyrir nesti og slíkt. Ég útbý gríðarlega margt sem ég svo frysti og svo fær Jóhannes auðvitað nesti í vinnuna í mörgum nestisboxum (smoothie, hnetubland, hádegismat, nasl o.fl.). Afgangs matur fer líka í box. Nestisboxin mín hafa líka farið með mér oft til Afríku og víðar. Svo þið sjáið að nestisbox eru nauðsynleg. Svo ég er ekki svo galin. Ég er svo skynsöm. Ég þarf nestisbox. Ég þarf nestisbox með grænu loki...þessi sem glansa svo fallega í auglýsingunni.

Myndin er fengin að láni frá CoolGadgetConcepts.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Íbúðaleit

Að finna góða íbúð í London er eins og að leita að nál í heystakki. Það er urmull íbúða til en fáar sem fara í gegnum okkar sigti + eru á viðráðanlegu verði. Við þurfum reyndar ekki mikið pláss og töluvert minna en flestir myndu vilja komast af með. Við erum dugleg að losa okkur við drasl og oftar en ekki förum við með dót á þá staði sem safna til góðgerðarmála eða seljum ef þannig liggur á okkur. Okkur líður ekki vel í of stóru húsnæði. Ég segi fyrir mitt leyti að ég hef átt heima í 45 fermetrum (fyrsta íbúðin) og 450 fermetrum (í foreldrahúsum) og ég veit að lykillinn að lífsgátunni felst ekki í fermetrafjölda. Sumum líður vel í stóru rými en öðrum líður vel í litlu.

Við höfum flutt svo oft á liðnum árum (og aðallega á milli London og Íslands) að við eigum ekki mikið af því dóti sem flestir safna að sér með árunum…svona eins og gasgrill, reiðhjól, garðyrkjugræjur (sbr. tilraun mín síðastliðið sumar), óþarfa föt, tímarit, styttur, bækur (nema matreiðslubækur sbr. síðustu færslu) o.fl. Við höfum reyndar verið dugleg að fara með föt sem við erum hætt að nota til Afríku þegar við erum þar á ferð. Svo hjálpar líka að ég hata að versla föt og er með ástríðufullt hatur á fataverslunum (ef ég þarf að kaupa eitthvað fyrir sjálfa mig). Ég er með þeim mun hamingjusamari í kokkabúðum og bókabúðum sem selja matreiðslubækur. Jóhannes er mun betri en ég í svona fatabúðum en útivistarbúðir eru búðirnar hans en þar gæti hann eytt heilu dögunum þess vegna (þó hann hafi auðvitað aldrei tíma til þess)…

En já aftur að íbúðum…..það sem mér leist best á af því sem ég hef verið að skoða á netinu, var á 25 þúsund pund vikan….(íbúðin var jú með svölum)…..Fyrir svoleiðis pening er eins gott að klósettpappírinn sé ofinn úr gullþráðum því 25 þúsund pund eru 5 milljónir og það var aðeins vikuleigan……Það er ekki alveg í okkar verðflokki….og eiginlega dálítið mikið langt frá okkar verðflokki. Eiginlega stjarnfræðilega langt frá okkar verðflokki. Við vorum mjög heppin síðast þegar við leigðum íbúð í London (Jóhannes datt inn á íbúðina eiginlega óvart) því við fengum gullfallegt húsnæði, í sætu húsi við sæta götu á frekar góðu verði með góðum nágrönnum og góðum eigendum. Við viljum eitthvað svipað…eða 3ja herbergja íbúð, miðsvæðis (sambærilega miðsvæðis og 101 í Reykjavík), við rólega og fallega götu, helst með svölum (eða stutt í almenningsgarð), með góðu eldhúsi (með stórum (og helst nýjum) ísskápi (er með fóbíu gagnvart gömlum ísskápum), uppþvottavél, góðum (og hreinum) bakaraofni og gaseldavél), ekki teppalagða, ekki á jarðhæð eða í kjallara, með snyrtilegu baðherbergi, nálægt þeirri lestarlínu sem tengir okkur við vinnu og Heathrow o.fl. Það er ekki verra ef sushistaður er í næsta nágrenni en ok ef ekki því ég get búið það til sjálf. Ef einhver veit um slíka íbúð endilega látið mig vita. Klósettpappírinn þarf alls ekki að vera úr gulli.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Söfnunaráráttan

Ég hef aldrei verið fyrir að safna hlutum eins og t.d. styttum, matarstellum, frímerkjum eða glingri. Í fyrsta lagi þoli ég ekki styttur (svona almennt) því þær taka pláss og gera ekki gagn (ólíkt t.d. skálum). Í öðru lagi hef ég aldrei getað safnað matarstellum því ég gleymi hvað ég á eða brýt allt (og gleymi hvað ég braut) vegna þess að ég er klaufi. Ég reyndi einu sinni að safna matarstelli…rosa flottu frá Denby….en ég á bæði ljósblátt og dökkblátt því þegar ég keypti þetta ljósbláa gleymdi ég að ég væri að safna því dökkbláa. Svo er ekki sniðugt fyrir mig að safna stellum því ég er alltaf að kaupa einn og einn disk eða skál hér og þar fyrir myndatökur (þ.e. fyrir matinn sem ég elda og set svo á vefinn minn), það er því ansi fljótt að safnast í skápum og skúffum, alls kyns dót sem alls ekki passar saman. Glingur nota ég yfirleitt ekki því ég er alltaf að stússa í eldhúsinu og nenni ekki að fjarlægja glingrið við handþvott eða annað. Aðalglingrið mitt er úr afrísku munaðarleysingjaheimili og afrískum þorpum (perlubönd úr plasti og þess háttar) sem ég hef keypt þó mig vanti alls ekki, bara til að styrkja starfsemina. Mér þykir einna vænst um það glingur af öllu því sem ég á. Frímerki skil ég ekki, punktur.

Mig langar að kaupa mér skó oftar en tími ekki að kaupa mér skó á 30-40 þúsund (kannski að ég verði aftur duglegri í London). Föt eru líka ekki inni í myndinni því mér leiðist fatabúðir meira en allt. Ég safna heldur ekki pennum, hnífapörum, dúkkum, Georg Jensen eða neinu svoleiðis…ekki alveg minn tebolli. Við erum heldur aldrei með neitt aukapláss, hver fersentimetri er nýttur og við erum líka alltaf að flytja eitthvað. Þegar við flytjum aftur út þýðir það enn meiri niðurskurður á fylgihlutum því við munum ekki búa í stóru húsnæði. Það er því ekki pláss fyrir neitt umfram það sem við notum og þurfum.

Ég er eiginlega bara með eina söfnunaráráttu….og hún er matreiðslubækur. Ég fæ ALDREI nóg af matreiðslubókum. Fólk trúir mér ekki þegar ég segist, aðspurð langa í matreiðslubækur í afmælis- og jólagjafir (ár eftir ár). Mér er sama þó þær séu litlar, stórar, þykkar, mjóar, íslenskar, útlenskar, innbundnar, gormaðar, harðspjalda eða mjúkspjalda. Það er eiginlega fátt sem gleður mig meira. Eina skilyrðið fyrir því að ég vilji uppskriftabók er að hún hafi einhverjar myndir. Ég þoli ekki uppskriftabækur án mynda. Mér finnst sérstaklega að margar af þessum vegan (jurtaætu) uppskriftabókum sem maður skoðar vanti myndir. Einmitt bækurnar sem þurfa góðar myndir. Eina undantekningin frá þessu eru afrískar bækur (en ég á nokkrar af þeim) ég veit að fólk hefur ekki efni á því að standa í alvöru útgáfu og það er ekkert sem ég veit skemmtilegra en að eignast bók sem er með afrískum uppskriftum og styrkja um leið gott málefni. Þá skipta myndir auðvitað engu máli því ég veit að uppskriftirnar eru góðar. Þið getið því rétt ímyndað ykkur hversu glöð ég varð um helgina þegar mér áskotnaðist uppskriftabók frá Uganda með blöndu af uppskriftum m.a. afrískum (TAKK Elísabet!!!!!).

Það er brilliant að við séum að flytja. Það þýðir að ég VERÐ auðvitað að kaupa fullt af uppskriftabókum þegar við förum út því ég get jú ekki tekið þær allar með mér héðan. Mér finnst samt ég aldrei eiga nóg af bókum og ég er með alls kyns afsakanir (eins og ég hef áður bloggað um)…t.d. þessi er nú á útsölu eða það er 2 fyrir 1 eða ég vil nú styrkja þennan höfund eða myndin á forsíðu er svo falleg og mig vantar uppskrift að eplamuffins (ég á heilu bækurnar um eplamuffinsa). Bara þetta týpíska sem manneskja með fíkn tönglast á og afsakar sig með. En það skiptir eiginlega engu máli hversu slæm ég verð. Það er enginn jafn rosalegur í matreiðslubókaráráttunni og María vinkona okkar í London. Svefnherbergið hennar er yfir, yfirfullt af bókum. Hún skammast sín svo mikið fyrir áráttuna að aðeins fáir útvaldir fá að vita um bækurnar og HVAÐ þá skoða þær. Ég vissi ekki einu sinni um þetta safn fyrr en í fyrra (búin að þekkjast í 5 ár) því hún talar aldrei um það. Ég er ein af þessum útvöldu því ég skil hana SVO vel. Vandamálið (og það dýrðlega) við að búa í Bretlandi er að það er svo ALLT of auðvelt að láta senda sér bækur af Amazon. Með einum músarsmelli er bókin nánast komin í gegnum lúguna.

Allavega. Síðasta sumar gistum við hjá Maríu og manninum hennar og ég fékk að ganga að matreiðslubókaraltarinu. Hún vísaði mér veginn inn og það var reykelsisilmur í loftinu. Það var hálf rökkrað í herberginu hennar og hún dró svona spákonutjald frá (úr tréperlum). Við það féll sólargeisli á dýrðlegheitin. Ég féll á hnén, nánast. Frá gólfi og upp í loft, undir rúmi, við hliðina á rúminu…alls staðar voru bækur…bækur sem MIG langar að skoða og helst eiga. Það eru líka bækur hjá Maríu sem ég hef aldrei heyrt um og aldrei séð (það er eins og fyrir þann sem safnar frímerkjum að sjá sjaldgæft frímerki). Hún fór með mig í gegnum safnið og útskýrði bækurnar. Ég settist gáttið á rúmstokkinn og fletti nokkrum bókum. Ég sagði að ég skildi hana svo vel og hún þyrfti ekki að skammast sín (hér hefðum við getað verið tveir rónar að drekka kardimommudropa). Jú víst þarf ég að skammast mín sagði hún…ég er nefnilega rétt að byrja. Nei hvaða hvaða sagði ég…þú ert með nokkrar bækur úr flestum heimsálfum og helling um Ítalíu og Spán og Grikkland (hún er grísk). Já það er vandamálið…ég tek eitt land fyrir í einu og kaupi allar bækurnar sem til eru úr því landi….ég er bara búin með Ítalíu, Spán og Grikkland og ég kem ekki fleiri bókum fyrir (hér gætuð þið sett inn ‘vínflöskur’ í staðinn fyrir ‘bækur’…ein fíkn fyrir aðra). Ég missti hökuna niður í gólf (og missti alveg kúlið í svona eins og 2 sekúndur) og við það roðnaði María sem sagði að hún vissi að hún ætti við vandamál að stríða. Ég klappaði henni á öxlina og sagði að þetta væri lítið mál…hún gæti geymt allar bækurnar hjá mér þegar við værum flutt og maðurinn hennar þyrfti aldrei að vita þó hún keypti nokkrar í viðbót. Meðvirk? Ha ég?

Það versta er….María sagðist hafa byrjað þessa áráttu AFTUR þegar hún sá litla safnið mitt þegar þau dvöldu hjá okkur um jólin 2006 hér á Íslandi. Hún sagðist hafa fallið og það illa. Hún á nefnilega alveg eins safn og ef ekki stærra í Ástralíu þar sem hún á íbúð líka. Hún hafði búið í London í 7 ár og ekki keypt sér matreiðslubók. Hún þurfti bara að sjá fallegu myndirnar og allar fínu uppskriftnar og BAMM...kolfallin. Ég er því svolítið samsek og eiginlega brjálæðislega ánægð með það þar sem það er nokkuð víst að við verðum nágrannar í London…ég hlakka til. Jóhannes segir að við eigum að opna bókabúð með matreiðslubókum. Aftur á móti eins og góðum fíkli sæmir læt ég þetta sem vind um eyru þjóta…ég á ekki við vandamál að stríða…Ég er mest hrædd um að maðurinn hennar Maríu og Jóhannes framkalli inngrip eins og gert er af aðstandendum fíkla..og þeir komi að okkur í herbergi Maríu, þar sem við erum við matreiðslubókaaltarið. Þegar þeir nálgast munum við særa þá út með myndum af súkkulaðimuffinsum eða kökum…og dansa svo stríðsdans með sleifar á lofti og hlægja brjálæðislega. Neibb…ég á ekki við vandamál að stríða.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It