Næsta stopp - Afríka!!

Afríka er eins og eiturlyf. Eftir að maður hefur prófað einu sinni, verður maður að fá skammtinn sinn aftur. Við höfum verið svo ógurlega heppin síðustu árin að hafa fengið tækifæri til að þvælast svolítið um þessa mögnuðu álfu sem erfitt er að lýsa í orðum. Eitt besta dæmið er félagi Jóhannesar sem oft hefur hlustað á okkur mæra Afríku. Hann kom sjálfur frá einu Afríkulandanna um daginn og sagði við Jóhannes… “Ég veit núna hvað þú meinar….VÁ“…. Það eru eiginlega ekki til nein almennileg lýsingarorð…það er eitthvað við umhverfið, loftið, rakann, matinn, fólkið, menninguna, hljóðin, hefðirnar, dýralífið, náttúruna, öfgarnar….Afríka er einhvern veginn allt og meira til.

Reyndar höfum við bara farið til fjögurra Afríkulanda af 53…þ.e. Kenya (ótal sinnum), Tanzaníu, Rwanda og Uganda. Þessi lönd hafa öll sinn sjarma og eru afar ólík (alveg eins og Danmörk og Ísland eru ólík). Rwanda er ólýsanlega fallegt land og þrungið spennu með sínum eldfjöllum, eldingum og magnþrunginni og hrikalegri sögu. Einhvern veginn héldum við öll í okkur andanum þessa daga sem við eyddum í Rwanda. Górillurnar voru auðvitað ógleymanlegar og malbikið fína næstum því ógleymanlegra!! Uganda minnist maður helst fyrir grænu fjöllin sem þakin eru telaufum og Matoke bönunum. Uganda er þægilegt og friðsælt og hefur fjölskrúðugt dýralíf. Tanzanía hefur auðvitað hæsta fjall Afríku og einnig höfum við verið í fjallaþorpi í Usambara í Tanzaníu sem var svo fallegt og svo afskekkt að mann langaði helst að eignast þar sumarbústað. Þar hittum við m.a. mann sem átti ljótasta og hrörlegasta “hús“ í heimi, en líklega þó með fallegasta útsýni í heimi. Hann bjó í kofa (svona eins og maður sér á smíðavöllum barna) en hann hafði nánast ótakmarkað útsýni eins langt og augað eygði yfir fjöll, dali, og ár. Hann bauð okkur inn í stofu til sín og hún var bæði stofa og svefnherbergi, bekkurinn tötralegi með skítugu dulunum var bæði rúm og sófi og hann rúmaði tvo ef þeir beygluðu sig saman. Það var meira að segja blómapottur í gluggakistunni. Kenya er svo blanda af þessu öllu. Í Kenya má finna ótrúlegt dýralíf, hinn magnaða Masai Mara þjóðgarð, fjölbreytta menningu (eins og annars staðar í Afríku er töluvert um mismunandi ættbálka sem allir hafa sínar hefðir og sína sérstöðu). Í Kenya finnur maður líka hvítar strendur, tæran, bláan sjó og pálmatré, eins og við strönd Zanzibar (við Tanzaníu).

Alls staðar leynist saga, oft erfið en alltaf er það fólkið sem skilur eftir sig hvað mest í hjörtum manns. Alls staðar er stutt í bros. Fyrir mig, sem mataráhugamanneskju er ómetanlegt að fá að kynnast hefðum og siðum og uppskriftum fólksins í þessum löndum. Ég gef mig oft á tal við kokka eða bara fólk á götunni sem er að selja mat og auðvitað rek ég garnirnar úr vinum og kunningjum….hvaðan koma uppskriftirnar? getur maður fengið uppskrift?, hver er sagan á bak við fólkið? Hvar er hráefnið verslað inn? Svona hef ég fengið flestar afrísku uppskriftirnar mínar þó ég eigi auðvitað urmull uppskriftabóka frá Afríku líka.  Mér þykir einna vænst um uppskrift að baunapotrétti einum frá Rwanda en hann fékk ég frá stúlku sem ég hitti á netkaffihúsi í Ruhengeri (rétt við rætur Virunga fjallanna). Ég spurði hana svo um matarvenjur og hún gaf mér uppskrift frá móður sinni. Það er ekki sagt berum orðum en það lá í loftinu að þessi stúlka var fátæk og móðir hennar hafði upplifað ýmislegt. Afríka er álfa öfganna og ég hef fengið besta mat í heimi í Afríku (borðaður á ströndinni við tunglskin, glampandi stjörnur og varðeld) og ég hef fengið versta mat í heimi í Afríku (og reyndar á Íslandi líka) í áðurnefndum fjöllum í Tanzaníu. Yfirleitt er maturinn í Afríku (sérstaklega Kenya) dásamlegur, eldaður frá grunni, enginn pakkamatur eða dósaopnari í nánd og fólkið tekur tímann í að matreiða hann (pole pole segir fólkið…hægt, hægt). Við höfum aldrei fengið matareitrun, okkur verður aldrei illt í maganum og við komum alltaf sprengfull af vítamínum heim enda eru ávextirnir sem maður borðar, beint af trjánum.

En eins og ég nefndi áður eru öfgarnar miklar og þar sem er ríkidæmi er alltaf sár fátækt. Við höfum fengið að sjá báðar hliðar, bæði sem ferðamenn og sem fararstjórar.  Ég ætla samt ekki að tala um þá hlið hér…það væri efni í heila bók.

En já … svo ég snúi mér að umræðuefni dagsins. Við erum á leið til Kenya….að þessu sinni sem ferðamenn með Borgari bróður, Elínu, Steini og Mána. Við leggjum af stað 24. mars og komum aftur 11. apríl. Við litla fjölskyldan ætlum að fara með þeim í samfloti. Máni frændi minn (sem er svakalega skemmtilegur og góður strákur eins og bróðir hans Steinn) er nefnilega að fermast og hann fær ferðina í fermingargjöf. Svo er Borgar með ferðafyrirtækið sitt úti og við eigum góða vini þar sem við ætlum að heimsækja líka. Nú eruð þið kannski að reikna í huganum og hugsa…. “bíddu….miður september……uuuu…hvað er barnið þeirra eiginlega gamalt“? Afkvæmið verður rúmlega 6 mánaða við brottför. Það er ekki hár aldur á ferðamanni til Kenya..eða eins og smitsjúkdómalæknir ungbarna sagði þegar ég talaði við hann “hún er líklega yngsti íslenski ferðamaðurinn sem hefur farið til Kenya?“. Áður en þið sendið á okkur fulltrúa frá barnaverndaryfirvöldum hafið þá eftirfarandi í huga:

  • Við höfum farið ótal sinnum til Kenya og þekkjum aðstæður vel.
  • Við förum með Borgari og Elínu sem hafa farið með ungbörn til Kenya, m.a. umræddan Mána 9 mánaða í 3 mánuði og þau gistu í tjaldi allan tímann.
  • Við verðum alls staðar á öruggum stöðum.
  • Við verðum í traustum bíl með góðan bílstól.
  • Við erum búin að ráðfæra okkur við lækna og hjúkrunarfræðinga sem eru búnir að gefa grænt ljós á ferðina.
  • Við verðum alls staðar nálægt stórum sjúkrahúsum eða flugvöllum ef eitthvað alvarlegt kæmi nú upp á.

Við höfum gagngert verið að þjálfa litla skrípið undanfarna mánuði til að geta tekist á við svona ferðalag. Til dæmis:

  • Hún hefur verið í svefnþjálfun frá 3ja mánaða. Við getum lagt hana inn, kysst hana góða nótt og labbað út. Hún sofnar yfirleitt á 2 mínútum. Hún sefur líka alla nóttina. Þetta er ekki heppni (nema kannski með lundarfar í henni) heldur búið að vera mjög strangur svefnskóli!
  • Hún verður vanin á þá ávexti sem verða í boði (banani, mango, avocado, papaya..allt ávextir sem þarf að skræla) samhliða graut og auðvitað mjólkinni.
  • Hún verður undir algerri smásjá hvað moskító og slíkt varðar. Sem betur fer er ekki mikið um skordýr en á kvöldin og morgnana er það moskítónet út í eitt (tökum nokkur með til öryggis) og langerma fatnaður.
  • Hún mun fá ferðarúm sem hún mun venjast á að sofa í áður en við förum.
  • Ég mun fara í Kringluna með vagn (hvað gerir maður nú ekki fyrir barnið sitt)…til að venja hana við að sofna í hávaða sem svipar til flugvalla.
  • Við munum venja hana við að sofna lúra í bílnum (við höfum passað upp á að hún sofi ekki í bíl… hluti af svefnþjálfun… því svefn í bíl er ekki gæðasvefn).
  • Allt það sem ferðamenn eru hræddir við, matareitrun, vatnsskortur, óhreint vatn, skordýr o.fl. erum við nokkuð með á hreinu því við þekkjum aðstæður vel (alls staðar eru verslanir með hreint vatn).
  • Við erum líka meðvituð um hversu sólin er sterk (flestir Íslendingar taka aaaaaaallllt of litla vörn) og skrípinu verður dýft í fötu með sólarvörn á degi hverjum, oft á dag (svo gott sem).

Og margt fleira gæti ég nefnt en þetta er það helsta. Það erfiðasta og það sem ekki er hægt að sjá fyrir með hvernig viðbrögðin verða, er hitinn. Hann er aldrei auðveldur fyrir neinn en sem betur fer líður mér illa í sól og hita svo ég mun hvort sem er leita í skugga og lægra hitastig hvenær sem færi gefst. Ég mun koma hvítari en allt það sem hvítt er, til baka úr ferðinni…sem er í góðu lagi. Við erum svolítið rugluð…það er alveg ljóst….en lífið er jú til að lifa því.

Vá ….ég hefði getað sagt bara “Við erum að fara til Afríku….“….ég GET bara ekki verið stuttorð hmmmmm.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Elisabet
01. mar. 2010

Oh mér finnst þetta svo geggjað hjá ykkur og þetta verður svoooooooo gaman,. Pínku öfund í gangi hérna í sveitinni en samt samgleðst ykkur mun meira,,,, Og mér finnst þið frábær að taka litluna með og vá þetta verður EKKERT mál maður,....,

CafeSigrun.com
01. mar. 2010

Ég veit að þegar litla skrípið er búið að kúka upp á bak og/eða gubba sig út í 35 stiga hita og allir að farast í bílnum yfir fýlunni og ekki hægt að fara út úr bílnum í miðjum þjóðgarði vegna villidýra o.fl. að við eigum eftir að hugsa....'díses'...en þetta verður samt gaman :)

hrundski
01. mar. 2010

viiiiiii þetta verður bara æði. Takið fullt fullllt af myndum handa okkur sem verðum örugglega enn að grafa okkur út úr sköflunum hérna :D

Sólveig S. Finnsdóttir
01. mar. 2010

látið emblu drekka MIKIÐ vatn ekki bara mjolk og ykkur sjálf lika passa svo hana í sólinni hun getur ekki hvartað nema gráta

Ingibjörg Guðlaug
03. mar. 2010

en æðislegt!! það eru sko ekki allir sem geta sagt að þeir hafi veri 6 mánaða þegar þeir fóru fyrst til Afríku!! Efast ekki um að þetta verði dásamlegt í alla staði...og AUÐVITAÐ verður allt í lagi með litlu dömuna...þetta verður bara aðeins öðruvísi ævintýri! ég er alltaf á því að maður eigi ekki að umturna lífi sínu þó að maður eignist barn heldur eigi barnið að aðlagast lífi manns!

Góða ferð og hafið það alltaf sem best!!

p.s. alltaf svo gaman að fylgjast með ykkur og ykkar ævintýrum...svo ég tali nú ekki um alltaf gómsætu uppskriftirnar!!

CafeSigrun.com
04. mar. 2010

Takk Ingibjörg :) Gaman að heyra frá þér!