Komin frá Afríku

Þá erum við lent. Ég man ekki alveg hversu oft við höfum komið til Kenya en það er allavega ekki of oft. Ég þreytist aldrei á að tala um Kenya og Afríku og upplifun okkar á álfunni. Við höfum auðvitað bara upplifað svo agnarsmátt brot af henni því hún er jú svo gríðarlega stór. Það sem við höfum upplifað hefur án undantekninga verið stórkostlegt. Allt sem maður upplifir er framandi; maturinn, fólkið, loftslagið, dýrin, náttúran, húsin, umhverfið, farartækin, hitinn, rakin, hljóðin, fátæktin. Hitinn er auðvitað mikill...svo mikill að maður tekur andköf við að koma úr köldu herbergi (ef maður er í svoleiðis) og móða kemur á gleraugu og myndavélalinsur. Reyndar var óvenju heitt miðað við árstíma og við fundum vel fyrir því.

Það eru svo ótalmargar myndir sem koma upp í kollinn eins og t.d. kameldýr að gægjast upp úr runna, zebrahestar og gíraffar í kallfæri, fílar að sperra eyrun í átt að bílnum, geitur á veginum og lítill rauðklæddur smali veifandi priki að reka þær yfir, beljur sofandi við vegkantinn, krakkar brosandi út að eyrum og veifandi höndunum til okkar, maður að keyra fólksbíl fullan af lifandi hænum í aftursætinu, skrautlega klætt fólk í messu utandyra, börn að skoppa gjörð, götusalar í myrkrinu að selja ýmsan varning við gasluktir og kertaljós, rauðklæddir og skreyttir Samburu stríðsmenn með spjót og sítt og leirborið hár, konur á gangi með vatn á höfðinu og í litríku kikoy (teppi) sem bærist í golunni eins og skikkja, strákar í fótbolta sem búinn er til úr uppvöfðum plastpokum og snærum, glansandi sveittir farandverkamenn sem eru í betra líkamlegu formi en allir líkamsræktarfrömuðir landsins en hafa aldrei á ævinni stigið fæti í líkamsræktarsal, fólk að selja mis grunsamlegan mat við vegkantinn í veikri von um að mis vitrir ferðalangar kaupi hann, hlaupandi smásalar við öll umferðarljós hlaðnir nauðsynjavörum eins og sólgleraugum og glo-in-the-dark hálsmenum, þakklátir krakkar á ABC munaðarleysingjaheimilinu að dansa og syngja með íslenska fánann við hún, kona að elda graut í reykmettaðri maniöttu (kofi úr kúamykju) í Samburu þjóðgarðinum, krakkar að þyrpast utan um ferðalanginn litla frá Íslandi í von um að koma við furðulega fyrirbærið, gististaður einhvers staðar í buskanum þar sem dýrahljóðin yfirgnæfa öll önnur hljóð, stórkostlega bragðgóður matur og svo ferskur og fallegur að unun er á að líta, fjöll allt um kring og grænar hæðir og hólar, litrík blóm og ávextir á öllum trjám. Ég þarf bara að loka augunum til að framkalla 100 myndir til viðbótar og þetta er bara lýsingin á nokkuð venjulegum degi á ferðalagi okkar.

Þetta gekk allt vel….eiginlega frá upphafi til enda, fyrir utan 24 tíma seinkun í upphafi, alltaf leiðinlegt að missa sólarhring úr fríinu sínu. Flugvallarhótel við Heathrow er frekar mikið að fölna í samanburði við áfangastaðinn. Litla skrípið var með eindæmum geðgott og rólegt. Daman er fædd í ferðalög og safarí og kvartaði aldrei nema þegar hún var sérlega svöng eða þyrst og þrátt fyrir kúkableiur og sjóðandi hita á daginn brosti hún framan í alla; fíla, bíla og ferðalanga. Það var líka alls staðar slegist um hana. Um leið og við komum á áfangastað var einhver innfæddur sem greip hana og hljóp með hana út um allar koppagrundir til sýningar. Fólk þarna um slóðir er líka einstaklega barngott og hreinlega elskar að kjassa og kyssa litla ferðalanga. Við vorum í góðum félagsskap með Borgari bróður, Elínu konunni hans og Mána og Steini sonum þeirra. Þeir eru einstakir drengir, ávallt að passa upp á litlu frænku sína og hugsa vel um hana, kurteisir, þægilegir og prúðir. Sannkallaðir sómamenn og frábærir ferðafélagar.

Maturinn sem við fengum var auðvitað alveg stórkostlegur og ég er heldur betur búin að fá nokkrar uppskriftir í vasann sem ég get ekki beðið eftir að deila með ykkur. Það er alveg sama hversu oft ég kem til Kenya og borða mikinn mat, ég læri alltaf eitthvað nýtt. Ég fann líka, ótrúlegt en satt a.m.k. 3 heilsubúðir á ferðalaginu. Eina fann ég, svo flotta í Nairobi og hún fékk mig til að hugsa hvernig stæði á því að heilsuvörur á Íslandi (sömu merki, sama innihald, sama magn) væru þrefalt dýrari en í Kenya? Hún var virkilega flott og með gott úrval af öllum vörum. Kíló af cashewhnetum (fallegum, hvítum, stórum og heilum fyrsta flokks cashewhnetum) kostaði um 1000 krónur. Sem dæmi. Kílóið hér kostar um 7000-9000 krónur (og það af brotnum, gráum, litlum, þriðja flokks hnetum). Einnig er svo magnað að borða alla þessa dýrðlegu ávexti, nánast beint af trjánum. Maður hreinlega horfir á ávextina spretta....bananar, mango, papaya, avocado, ástríðualdin, ananas...þetta vex allt í miklu magni og er svo GOOOOOOTTTTTTT. Líka langaði mig SVO að taka með heim nokkrar kókoshnetur (óþroskaðar) því vökvinn úr þeim er jú hollasti drykkur í heimi og kjötið getur maður notað í alls kyns ísa og eftirrétti. Þessar kókoshnetur fengust hér í góðærinu en síðan ekki söguna meir.

Nú er það næsti kafli í lífi okkar...flutningar til London. Jóhannes er búinn að fá vinnu og á að hefja störf 5. maí. Ég held áfram mínum störfum hér á landi sem og í Bretlandi, eins og ég hef gert síðustu árin þó ég verði meira og minna í Bretlandi auðvitað. Það er því lítill tími til stefnu og ég þarf bara að segja Hakuna Matata eins og þeir gera í Kenya.

Myndir koma síðar.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Elisabet
13. apr. 2010

yndisleg ferðasaga... Og frábært að Jóhannes sé komin með vinnu. ómæ hvað ég samgleðst ykkur að vera að fara...

sigga
13. apr. 2010

Gaman að lesa þetta, Þú skrifar mjög góðar lýsingar á umhverfinu, maður getur alveg séð þetta fyrir sér.

Melkorka
14. apr. 2010

Velkomin heim Sigrún! Gaman að heyra hvað gekk vel.

Sólveig S. Finnsdóttir
14. apr. 2010

velkomin heim en afhverju má Embla ekki læra á Island. KV. m

Margrét Rós
14. apr. 2010

frábær ferðalýsing!

Ég get ekki beðið eftir að prófa uppskriftirnar :)

Hrönnsa
15. apr. 2010

Frábært hvað alt gekk vel og velkomin heim :)

Ingibjörg Guðlaug
22. apr. 2010

en æðisleg ferðasaga...maður lifði sig alveg inn í þetta!! Gott hvað allt hefur gengið vel og sérstaklega með skottuna!

Frábært hjá ykkur að fara til London...um að gera að fylgja draumum sínum!

HAfið það alltaf sem best!

p.s. ertu með einhverjar myndir af skottunni þinni...langaði svo að sjá litlu skottuna!!