Óhollustusamkeppni notenda CafeSigrun: Þátttakandi #1

Oxford Better Choice (frá LU) Tillaga frá: Lóu Rut í Keflavík

Lu heilhveitikex

Ég verð nú barasta að viðurkenna að ég hef aldrei á ævinni litið þetta kex augum fyrr en nú um daginn. Enda á ég sjaldan leið um kexdeildir matvöruverslana. Þetta kex sem Lóa Rut í Keflavík benti á fyrir keppnina er bæði gott og slæmt. Góðu fréttirnar eru þær að það er nokkuð hátt hlutfall einómettaðra og fjölómettaðra fitusýra í kexinu. Um fjórðungur (4,4 gr af 16 gr) er mettuð fita sem er töluvert lægra en gerist með sambærileg kex (mettaða fitu reynum við jú að forðast). Það er heldur ekki nein transfita í kexinu. Einnig er nokkuð mikið af trefjum og próteinum til staðar. Slæmu fréttirnar eru hins vegar þær að of mikill sykur (22 gr) er í kexinu (auðvitað). Í hverri kexköku er um einn sykurmoli. Það er bæði hvítur sykur og hrásykur en ekki er tekið fram hlutfallið. Einnig er notað umbreytt glúkósasíróp...sem er auðvitað bara meiri sykur. Einnig er nokkuð um E efni (í lyftiefnunum). Allt í allt er kexið betri kostur en margt annað sem í boði er, en ekki nægilega hollt þó til að ég myndi vilja borða það. Ég myndi frekar kaupa mér kex í heilsubúð (t.d. spelt hafrakex).

Innihaldslýsing: Hveiti (30%), valsaðir hafrar (heilir), sykur, hrásykur, repjuolía, jurtafita, umbreytt glúkósasíróp (invertsukkersirup), lyftiefni (E450, E500, E503), salt, undanrennuduft, ýruefni (sojalecithin)

Glúteinlaust: Nei Mjólkurlaust: Nei Hnetulaust: Já (en með varnarorð um smit vegna annarrar framleiðslu)

Næringargildi í 100 gr: Orka (kcal): 445 Prótein: 8 gr Kolvetni: 67 gr Þar af sykur: 22 gr Þar af sterkja: 45 gr Þar af trefjar: 5,5 gr Fita: 16 gr Þar af mettuð fita: 4,4 gr Þar af einómettuð: 7,9 gr Þar af fjölómettuð: 3,7 gr Transfita: 0 gr

Óhollustueinkunn: 5,5 (10 er hollast)

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It