Veðurfregnir

Aumingja Brasilíubúinn sem var plantað við hliðina á mér á skrifstofunni. Ég er með mestu reynsluna af starfsfólkinu hér á skrifstofunni í London svo því er plantað við hliðina á mér og ég er yfirleitt ungamamma í svona viku. Öllu heldur held ég að nýju fólki sé alltaf plantað við hliðina á mér til að láta það "Þola Sigs" í viku ("Going through the Sigs-week"). Er sko stundum kölluð Sigs hér). Ef nýtt fólk þolir viku við hliðina á mér, þá er það nokkurn veginn seif. Ég er sem sagt ekkert voðalega mikið fyrir að tsjatta og nenni yfirleitt ekki að blaðra við neinn nema sé talað við mig af fyrra bragði og vil að fólk sé að vinna vinnuna sína, þoli ekki hangs og rugl og ég hef yfirleitt það mikið að gera að ég hef ekki tíma fyrir eitthvað bull (já já ég veit ég á að vera opnari og allt það, er alltaf að reyna). Það hlýtur að taka á taugarnar fyrir nýtt fólk hehe. Einn gerði þau mistök að spyrja mig fyrsta daginn sinn þegar hann ætlaði að fara út í hádegismat. "Er kalt úti". Ég svaraði auðvitað: "Ok skilgreindu kulda" því í fyrsta lagi veit ég ekki hvað honum finnst kalt (komandi frá Frakklandi) og í öðru lagi er mér alltaf kalt svo það er ekki hægt að spyrja mig um hitastig. Hann var ekkert rosalega hrifinn af því svari og finnst ég eflaust merkileg með mig en ég meina hvað átti ég að segja. Ég gat í alvörunni ekki svarað spurningunni nema fá meiri upplýsingar :(

Aumingja brasilíski strákurinn sem var að byrja í síðustu viku sat svo við hliðina á mér í 2 daga. Veit ekki hvort hann gafst upp og lét færa sig eða hvað en hann sagði við mig fyrsta daginn sinn: "Það er kalt hérna í London". Ég sagði "já ég veit, þess vegna er ég í Merino ullarpeysu, bómullarpeysu og annari þykkri peysu utan yfir, með ullartrefil og í ullarsokkum, það er skítkalt og ég er að krókna úr kulda, eins og alltaf". "Já eins gott að maður klæði sig" sagði strákgreyið á mjög bjagaðri ensku. "Já eins gott, því annars deyr maður bara úr kulda". "Hvaðan ertu annars?". "Ég er frá Íslandi". "Íííííís-landi?". Hann horfði á tölvuskjáinn og sagði ekki meir. Hann horfði af og til á mig yfir daginn og sagði ekki neitt við mig og hefur voða lítið sagt við mig, enda innpakkaður í dúnúlpu mest allan daginn. Við erum góð saman í kuldakastinu á meðan hinir eru á bol. Held hann hafi í alvöru haldið að ég væri að gera grín að honum því flestir halda að vetrartíminn í London sé eins og hitabylgja yfir sumartímann á Íslandi, sérstaklega þeir sem koma úr 40 stiga hita í Brasilíu he he. Er annars að spá í að setja upp skilti á skrifborðið mitt: "Engar veðurupplýsingar fáanlegar hér" :)

 

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Gulla
24. jan. 2006

Þessi pistill var virkilega skemmtilegur, ég hló upphátt nokkrum sinnum og maðurinn minn vildi endilega vita hvaða brandara ég hefði fundið á Netinu :)

Takk fyrir skemmtileg skrif á blogginu og allar frábæru uppskriftirnar. Þetta er ein flottasta síðan sem ég kíki reglulega á.

Sigrun
25. jan. 2006

Þakka ÞÉR fyrir hrósið :) Alltaf gaman!!!