Eitt ár í lest

Ég er mikið öfunduð af samverkamönnum mínum af því að geta labbað í vinnuna. Það tekur mig ekki nema 5 mínútur heldur. Sem er fáránlegt þegar maður býr í London, allavega mjög sjaldgæft. Flestir búa í svona 40 mínútna fjarlægð (með lest) og er það bara meðaltíminn til að komast í vinnuna, aðra leið. Það er nánast enginn á bíl, allir nota lestarnar. Það eru svo sumir sem eru aðeins lengur í vinnuna en aðrir, búa lengra í burtu. Það er til dæmis ein sem vinnur með mér sem er 2 tíma, aðra leiðina í vinnuna. Það er samt miðað við að samgöngur séu í lagi (sem þær eru yfirleitt ekki í Bretlandi). Hún notar sem sagt 4 tíma í dag í ferðalög fram og til baka. Fyrst þarf hún að keyra á lestarstöð (lestar ofanjarðar ), svo þarf hún að taka neðanjarðarlestina (Tube). Þetta er ekkert svo óalgengt hér í Bretlandi. Spáið í það!

Ég fór að reikna aðeins, svona að gamni mínu. Ef hún notar 4 tíma á dag í ferðalög í og úr vinnu, þá er hún að eyða (já þetta er sko tímaeyðsla) 20 tímum á viku í lest, 1040 tímum á ári (sem gera rúma 43 daga). Ef hún ferðast á milli svona, í 10 ár, þá er hún búin að eyða um 1,5 ári í lestinni af þessum 10 árum. Þetta er bara svo fáránlegt að ég næ þessu ekki. Vinnutapið er svo þáttur í þessu líka, eða væri það fyrir mig. Ég væri að stórtapa ef ég missti úr 2 tíma til að vinna (sko þegar ég vinn heima). Ofan á þetta bætist svo það að vera fastur í lestinni í 35°C stiga hita að sumri til, lenda í lestarverkföllum og komast ekki heim til sín, lenda í hryðjuverkum og ýmislegt annað skemmtilegt sem kemur upp á.

Það eina góða við að sitja í lest, er að geta lesið alveg ógrynni af bókum sem og hlustað á tónlist alveg út í eitt. Held samt að ég vilji frekar gera það í rólegheitum upp í sófa heldur en að standa í handarkrikunum á næsta manni. Aumingja konan sem vinnur með mér er líka ófrísk og fyrstu mánuðirnir voru víst algert helvíti, sérstaklega þegar einhver var að borða vel sveittan fisk og franskar með he he.

Ég hlakka alltaf til að labba heim eftir vinnu. Get svo sem ekki annað gert miðað við alla hina :)

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

hrundski
30. okt. 2005

Og ekki gleyma öllu skrítna fólkinu í lestunum úfff.

Var einusinni að taka District line eitthvað útí buskann þegar ég tók eftir karli, nokkrum sætum frá mér, sem var GRÁLÚSUGUR hrollllllur. held þetta hafi verið flær - allavega var þetta stökkvandi í hausnum á honum. ojjjjjj

Ég fór út á næsta stoppi og beið eftir næstu lest. Dauðfegin að vera að vinna heima ;)

Sigrun
30. okt. 2005

Ahahaha þú og þínir "kunningjar" í lestunum :) er dauðfegin að þurfa ekki að taka lestarnar og þurfa að fá þverskurðinn af liðinu hérna í London he he.