Wagamama laxanúðlur

Margir þekkja Wagamama núðlustaðinn í London. Hann er reglulega fínn. Þeir elda ekki bara góðan mat heldur eru þeir einnig meðvitaðir um náttúru og endurvinnslu. Sem dæmi nota þeir ekki bambus úr skógum í eyðingarhættu, nota ekki MSG né önnur aukaefni í mat og nota aðeins kjöt af hamingjusömum dýrum. Ég á bókina

Wagamama Ways with Noodles

og hún er mjög fín. Ég var að fletta bókinni minni um daginn og átti laxaafganga í frystinum og útbjó þennan rétt. Hann er nánast beint upp úr bókinni en ég bætti við smá slettu af límónusafa og agavesírópi (alltaf góð blanda í svona matreiðslu). Einnig notaði ég meira af sveppum og notaði ferska en ekki þurrkaða og ég notaði líka meira af laxi. Ég notaði líka grófar speltnúðlur. Þetta er þó allt smekksatriði, sumir vilja t.d. meira af núðlum á móti hinu hráefninu en ég vil hafa það akkúrat öfugt, er ekki það hrifin af því að troða mig út af núðlum. Ég mæli svo með að þið prófið Wagamama ef þið eigið leið hjá London (eða Köben). Okkar uppáhalds Wagamama staður er í Covent Garden, London.


Verulega hollur og góður núðluréttur

Þessi uppskrift er:

 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án glúteins

Wagamama laxanúðlur

Fyrir 2

Innihald

 • 100 g soba núðlur (úr bókhveiti), flatar ef þið fáið slíkar
 • 10 ferskir shiitake sveppir, saxaðir gróft
 • 1 tsk kókosolía og vatn til viðbótar ef þarf meiri vökva við steikingu
 • 1 laukur, saxaður smátt
 • 1 gulrót, flysjuð og sneidd í mjóar ræmur, langsum
 • 1-2 hvítlauksgeirar, marðir
 • 2 sm bútur ferskt engifer, afhýtt og saxað smátt
 • 200 g lax í bitum (meira eftir smekk)
 • 3 tsk tamarisósa
 • 100 ml vatn
 • Hálfur gerlaus grænmetisteningur
 • 2 tsk maísmjöl (má nota kartöflumjöl eða arrow root), leyst upp í 2 msk af vatni
 • 1 tsk agavesíróp
 • 1 msk límónusafi
 • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • Smá klípa svartur pipar

Aðferð

 1. Sjóðið núðlurnar samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum. Skolið upp úr köldu vatni þegar þær eru tilbúnar, látið vatnið renna af og setjið núðlurnar til hliðar.
 2. Hitið kókosolíuna á wok pönnu (ef þið eigið slíka, annars bara stórri pönnu).
 3. Afhýðið lauk, hvítlauk og engifer. Saxið allt smátt (merjið hvítlaukinn eða saxið smátt).
 4. Flysjið gulrótina og sneiðið í mjóar ræmur (eins og grófa tannstöngla).
 5. Skerið laxinn og sveppina í stóra bita (munnbitsstóra).
 6. Steikið hvítlauk, lauk og engifer þangað til allt fer að ilma. Ef þarf meiri vökva á pönnuna notið þá vatn.
 7. Bætið laxi, sveppum og gulrótum saman við og steikið í nokkrar mínútur.
 8. Bætið agavesírópinu og límónusafanum saman við.
 9. Hrærið saman maísmjölinu og 2 msk af vatni. Hellið út á pönnuna ásamt 100 ml af vatni, tamarisósunni og hálfa grænmetisteningnum.
 10. Hitið að suðu og látið malla þanagð til laxinn er tilbúinn (ekki sjóða hann of lengi svo hann verði ekki harður eða þurr).
 11. Bætið núðlunum saman við, losið vel um þær með t.d. gaffli eða töng.
 12. Kryddið með salti og pipar.
 13. Berið fram sjóðandi heitt.

Gott að hafa í huga

 • Einnig má nota rækjur út í réttinn eða skipta laxi út fyrir t.d. kjúkling fyrir þá sem vilja (notið aðeins
 • „hamingjusaman kjúkling” (free range)).
 • Þið getið notað hrísgrjónanúðlur eða spelt núðlur í staðinn fyrir soba núðlur.
 • Sumum finnst betra að fjarlægja stöngulinn af shiitake sveppunum en mér finnst þeir góðir.
 • Einnig má nota þurrkaða sveppi í staðinn fyrir ferska.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
 • Nota má sojasósu í staðinn fyrir tamarisósu en athugið að sojasósan inniheldur hveiti.
 • Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
 • Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.