Vöfflur
1. september, 2007
Það er ekki mikið hægt að segja um vöfflur nema að þær eru rosalega góðar, allavega ef þær eru hollar. Ég hef allavega ekki hitt neinn sem þykir þær vondar og þær einhvern veginn passa alltaf við öll tilefni. Það er löngu kominn tími á að ég setji inn uppskrift af hollum vöfflum og afgreiði ég það hér með. Þessi uppskrift er létt og fín og það er um 60% minna af fitu en í hefðbundinni vöffluuppskrift en þær smakkast samt alveg jafn vel. Það þarf nefnilega ekki að nota svona mikla aukafitu. Ég get lofað ykkur því að hinir mestu sælkerar taka ekki eftir því þó það vanti um 100 g af smjöri (sem gera um 1000 hitaeiningar og tæp 100 g af fitu!).
Þessi uppskrift er:
- Án mjólkur
- Án hneta
Vöfflur
Gerir um 20 vöfflur
Innihald
- 200 g spelti
- 1 tsk vínsteinslyftiduft
- 2 msk agavesíróp
- 3 egg
- 0,5 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
- 2 msk kókosolía
- 150-200 ml sojamjólk (eða önnur mjólk)
Aðferð
- Sigtið saman í stóra skál spelti og vínsteinslyftiduft.
- Hrærið saman í annarri skál; egg, agavesíróp, vanilludropa og svolítið af sojamjólk (100 ml eða svo en bætið við eftir þörfum, allt að tvöfalt meira til viðbótar). Hrærið aðeins og bætið kókosolíunni út í. Hrærið vel.
- Hellið varlega út í stóru skálina og notið sósupískara til að allt verði kekkjalaust.
- Áferðin á að vera svona eins og á mjög þykkri súpu en ekki eins og á t.d. graut. Það er best að prófa sig áfram með þykktina á deiginu. Best er að deigið sé kekkjalaust.
- Best er að baka eina vöfflu í einu fyrir hvern og einn því þær eru svo miklu betri nýbakaðar heldur en kaldar. Það má einnig frysta vöfflur og setja þær kaldar í brauðristina! Þær verða hér um bil eins og nýbakaðar!
Gott að hafa í huga
- Sumum finnst gott að setja svolítið kaffi í uppskriftina. Það gefur líka fallegan lit.
- Berið fram með t.d. hindberjasultu (án sykurs), döðlusultu, rabarbarasultu, bláberjasultu, cashewhneturjóma (fyrir þá sem hafa mjólkuróþol), þeyttum rjóma og söxuðum heslihnetum.
- Besta samsetningin finnst mér hindberjasulta, þeyttur rjómi (eða cashewhneturjómi) og ristaðar, saxaðar heslihnetur eða möndlur.
- Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Nota má hreint hlynsíróp (enska: maple syrup) í staðinn fyrir agevesíróp.
- Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024
Ummæli um uppskriftina
20. jún. 2011
Hæ hæ, getur þú mælt með leiðum sem ég get prófað til að gera þessar vöfflur glútenlausar?
21. jún. 2011
Prófaðu þetta:
Kv.
Sigrún
22. jan. 2014
Takk fyrir þessa uppskrift. Þessar vöfflur eru alveg jafn góðar hefðbundnar vöfflur :) Reyndar fékk ég helmingi færri vöfflur úr deiginu en það sem gefið er upp í uppskriftinni þrátt fyrir að ég mældi allt hráefnið og notaði venjulegt vöfflujárn. Ég bý í Noregi og hér er vinsælt að borða vöfflur með sultu og sýrðum rjóma sem er rosa gott (ég kaupi gjarnan lífrænan sýrðan rjóma og sykurlausa berjasultu). Mæli með að prufa það ;)
22. jan. 2014
Takk fyrir þetta Ásta Hrund. Ég geri vöfflurnar yfirleitt frekar þunnar en noti maður meira deig í hverja vöfflu fær maður jú aðeins færri úr því :)
09. feb. 2014
þessi er góð nota glúteinlaust mjöl kom vel út og smá stevíu, átti svo litið til að sirópi og bara glimrandi góðar :)
09. feb. 2014
Gaman að fá upplýsingar um glúteinlausa mjölið. Þær gagnast mörgum, takk Drífa!