Villisveppasósa
5. janúar, 2003
Þessi sósa passar einstaklega vel með karríhnetusteikinni en er mjög fín með öðrum mat líka. Uppskriftin kemur úr bókinni Green World Cookbook: Recipes from Demuths Restaurant og heitir eftir samnefndum, frábærum grænmetisveitingastað í Bath, Englandi þ.e.Demuths. Mæli með því að prófa ef þið eruð á ferðinni í Bath. Áferðin á sósunni er frekar gróf en ég nota stundum töfrasprota til að gera hana maukaða. Grunnurinn að þessari sósu er afskaplega góður í súpur. Þá myndi maður bæta meira af vatni við, krydda meira og setja svo t.d. meiri sveppi, kjúklingabaunir eða grænmeti út í.
Villisveppasósa (maukuð aðeins með töfrasprota)
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Villisveppasósa
Fyrir 3-4 sem meðlæti
Innihald
- 10 g þurrkaðir porcini sveppir, saxaðir
- 100 g oyster sveppir, saxaðir
- 1 lítill laukur, saxaður fínt
- 1mtsk kókosolía
- 2 hvítlauksgeirar, marðir
- 150 ml óáfengt rauðvín. Einnig má nota trönuberjasafa
- 75 ml vínberjasafi (úr bláum vínberjum). Einnig má nota eplasafa
- 1 gerlaus grænmetisteningur og 500 ml sjóðandi vatni
- 1 stilkur rósmarín
- 1 msk tamarísósa
- 2 tsk kartöflumjöl
- Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt) og svartur pipar
Aðferð
- Setjið porcini sveppina í skál með sjóðandi heitu vatni (þannig að fljóti yfir) og látið standa í 20 mínútur.
- Afhýðið laukinn og hvítlaukinn. Saxið smátt.
- Hitið kókosolíuna í litlum potti og steikið laukinn þangað til hann verður mjúkur. Bætið við vatni ef þarf.
- Bætið hvítlauknum út í og hitið aðeins.
- Bætið óáfenga rauðvíninu út í ásamt vínberjasafanum og eplasafanum, grænmetiskraftinum og rósmarín stilkinum og látið krauma í um 30 mínútur eða þangað til sósan hefur minnkað um þriðjung.
- Steikið sveppina í svolitlu vatni og tamarísósunni ásamt mikið af svörtum pipar.
- Bætið oyster sveppunum og porcini sveppunum ásamt vatninu af þeim út í sósuna.
- Blandið kartöflumjölinu saman við smávegis af köldu vatni og búið til kekkjalaust mauk.
- Bætið maukinu út í pottinn.
- Látið malla þangað til sósan er orðin eins þykk og þið viljið.
- Mér finnst gott að nota töfrasprota og mauka sósuna en það fer eftir áferðinni sem þið kjósið, hvort þið maukið hana eða ekki.
- Fjarlægið rósmarín stilkinn áður en sósan er borin fram.
- Saltið og piprið eftir smekk.
Gott að hafa í huga
- Þurrkuðu sveppirnir fást í stærri matvöruverslunum en í versta falli má nota blandaða, þurrkaða skógarsveppi.
- Ef þið fáið ekki einhverja tegundina af sveppum notið þá meira af þeirri tegund sem þið finnið.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
- Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
- Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
- Sósuna má frysta.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024
Ummæli um uppskriftina
15. feb. 2013
Sæl. Ég ætla að búa til hnetusteikina og hafa villisveppasósuna með. Get ég notað venjulega ísl. sveppi líka? Hvað annað á ég að bera fram með steikinni? Passar einfalt salat með tahini salatsósu með? Kv.S
15. feb. 2013
Þú getur notað venjulega íslenska sveppi en bragðið verður ekki mjög mikið......ef þú finnur einhverja þurrkaða sveppi (alveg sama hvaða tegund) þá væri mjög gott að nota þá með. Þú gætir þurft að krydda sósuna meira ef þú sleppir þeim því sveppir eru í sjálfu sér ekki mjög bragðmiklir.
Þú getur borið fram hýðishrísgrjón, bygg, quinoa eða eitthvað slíkt ásamt já, einföldu salati með tahini sósu sem dæmi......tahini sósan er líka fín með hnetusteikinni....þú getur hitað hana aðeins ef þú vilt :)