Vefjur með grænmeti

Þessi uppskrift kemur úr uppáhaldsbókinni minni þ.e. Grænn Kostur-Hagkaupsbókinni. Hún er frábær og ég mæli með því að allir eigi eintak!

Uppskriftin er merkt sem hnetulaus en inniheldur sesamfræ sem sumir hafa ofnæmi fyrir. Athugið að hægt er að gera uppskriftina glúteinlausa með því að nota maísvefjur. Athugið að best er að vera búinn að gera speltvefjurnar með góðum fyrirvara (og frysta) eða kaupa úr heilsubúð.

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta en með fræjum
  • Án hneta
  • Vegan

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án glúteins

Vefjur með grænmeti

Fyrir 3

Innihald

  • 8 speltvefjur eða maísvefjur
  • 250 g ferskt spínat
  • 150 g Lambhagasalat
  • 1 vel þroskað avocado, afhýtt og sneitt þunnt
  • Hálf gul eða rauð paprika
  • 2 tómatar skornir í sneiðar
  • 4 msk sesamfræ, þurrristuð á pönnu

Aðferð

  1. Útbúið speltvefjurnar ef þið eigið þær ekki tilbúnar.
  2. Skolið lambhagasalatið og spínatið og setjið í skál.
  3. Afhýðið avocadoið, fjarlægið steininn og sneiðið þunnt.
  4. Skerið paprikuna í helminga, fræhreinsið og sneiðið þunnt.
  5. Skerið tómatana og sneiðið þunnt.
  6. Hitið pönnu (án olíu) og ristið sesamfræin í um 30 sekúndur.
  7. Berið allt fram í sérskálum þannig að hver og einn geti raðað hráefninu eftir smekk í sína vefju.

Gott að hafa í huga

  • Það má auðvitað nota alls kyns hráefni í vefjurnar í staðinn fyrir það sem er talið hérna upp. Til dæmis er gott að nota ristaðar furuhnetur, sólþurrkaða tómata, baunaspírur, maískorn, ólífur og margt, margt fleira.
  • Það er gott að setja smá slettu af mildri salsa inn í vefjuna.
  • Mjög gott er að setja annað hvort sinnepssósu eða hvítlaukssósu inn í vefjurnar.
  • Vefjurnar eru mjög sniðugar sem nesti í skóla eða vinnu (brýtur aðeins upp á samlokurútínuna).
  • Upprúllaðar vefjur, skornar í bita eru upplagður partímatur.
  • Það passar líka einstaklega vel að nota hummus í vefjurnar.