Vatnsdeigsbollur með cashewrjóma og jarðarberjasósu
Ég get sagt ykkur það...að ég fór næstum því með heilt eggjabú í tilraunir á þessum bollum. Ég keypti eggjabakka eftir eggjabakka eftir eggjabakka og þær mistókust ALLTAF. Loksins, eftir tilraun 359, small þetta saman hjá mér! Það var reglulega gott vatnsdeigsbollubragð af þessum og með cashewhneturjóma og jarðarberjasultu, hið mesta sælgæti! Það er ekki til að maður finni „glúteinlaust bragð” og ég var ferlega ánægð með sjálfa mig. Jóhannes kaus meira að segja þessar frekar en þær hefðbundnu. Ég fékk sem sagt fyrirspurn um glúteinlausar vatnsdeigsbollur og lagðist því í „smá” tilraunir. Þetta var útkoman. Þið getið að sjálfsögðu notað hvaða fyllingu sem þið viljð en ég hef hér notað cashewrjóma og heimatilbúna jarðarberjasultu. Svo eru nokkrar tillögur til viðbótar hérna fyrir neðan. Bollurnar eru bestar á þeim degi sem þær eru bakaðar og verða frekar harðar daginn eftir. Athugið að afar mikilvægt er að sigta mjölið út í vatnið. Athugið einnig að nauðsynlegt er að nota matvinnsluvél til að útbúa cashewhnetumaukið.
Ljómandi góðar glúteinlausar vatnsdeigsbollur
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án hneta
Vatnsdeigsbollur með cashewrjóma og jarðarberjasósu
Innihald
- 20 g fínmalað maísmjöl (enska: corn flour)
- 25 g fínmalað hrísmjöl (enska: rice flour)
- 100 g kartöflumjöl (enska: potato flour)
- 1 stórt egg
- 100 ml vatn
- 2 msk agavesíróp
- 4 msk kókosolía
Aðferð
Vatnsdeigsbollur:
- Hitið vatnið, agavesírópið og olíuna í potti þangað til fer að sjóða.
- Takið pottinn af hitanum. Sigtið eina matskeið í einu af mjöli út í pottinn. Mjög mikilvægt er að nota sigti.
- Hrærið hverja matskeið af mjöli með trésleif þangað til deigið líkist helst þykkum graut. Deigið ætti að losna frá pottinum og vera kekkjalaust og slétt og flaueliskennt.
- Látið deigið kólna alveg.
- Hrærið eggið lauslega og bætið varlega út í deigið. Athugið að ekki er víst að þið þurfið allt eggið. Ekki setja of mikið því annars verður deigið of blautt. Best er að nota hrærivél eða handþeytara.
- Hrærið þangað til deigið er orðið nógu stíft til að þið getið snúið skeið á hvolf með deigi í án þess að dropi niður.
- Ef deigið er of blautt, setjið þá meira kartöflumjöl og hrærið betur þangað til deigið er orðið nokkuð stíft.
- Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og búið til um 10-12 bollur (stærð fer eftir smekk).
- Notið skeið til að setja deigið á pappírinn, gott er að nota skeið á móti til að skafa innan úr. Deigið ætti ekki að leka mikið til á plötunni.
- Bakið við 170°C í 18-20 mínútur (ekki opna ofninn á meðan).
Jarðarberjasósa:
- 100 g jarðarber (fersk eða frosin)
- 2 msk vatn
- 2 msk agavesíróp
Jarðarberjasósa-Aðferð:
- Setjið jarðarberin, vatnið og agavesírópið í pottinn og látið malla í 30 mínútur við vægan hita. Takið úr pottinum, setjið í skál og hrærið með gaffli svo að jarðarberin leysist vel í sundur. Geymið í ísskáp með plastfilmu yfir.
Cashewrjómi: (Tvöfaldið uppskriftina ef þið viljið cashew-súkkulaðimauk)
- 100 g cashewhnetur
- 2 msk vatn
- 2 msk agavesíróp
Cashewrjómi-Aðferð:
- Setjið cashewhneturnar í matvinnsluvél og malið þangað til þær verða að mauki. Þið gætuð þurft að mala hneturnar í alveg 3 mínútur.
- Skafið hliðar vélarinnar að innan með spaða og bætið smá slettu af vatni við. Maukið þangað til hneturnar verða aðeins mjólkurlitaðar (í um 1 mínútu).
- Bætið öllu vatninu út í á meðan vélin vinnur og maukið vel. Þið gætuð þurft að skafa innan úr hliðum vélarinnar og halda svo áfram.
- Bætið agavesírópinu saman við og maukið í nokkrar mínútur. Nú ætti blandan að vera orðin eins og þykkur grautur.
Cashew-súkkulaðimauk:
- Gerið 100 g af cashewrjómanum og setjið 1-2 msk af kakói út í. Látið vinna ganga í nokkrar sekúndur.
Súkkulaðihjúpur:
- 50 g dökkt, lífrænt framleitt súkkulaði með hrásykri
- Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði: Hitið vatn í potti (bara botnfylli) á vægum hita. Setjið skál ofan í sem situr á brúnum pottsins og brjótið súkkulaðið ofan í. Fylgist með því og hrærið öðru hvoru þangað til nánast bráðnað, takið þá af hitanum. Gætið þess að súkkulaðið ofhitni ekki og að ekki fari vatnsdropi ofan í súkkulaðiskálina.
- Dýfið toppum vatnsdeigsbollanna ofan í súkkulaðið og látið storkna.
Gott að hafa í huga
- Bollurnar eru bestar samdægurs.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
Ummæli um uppskriftina
17. feb. 2014
Mikið sem ég elska síðuna þína og hef mikið nýtt mér hana, takk fyrir :)
Frábært að fá svona uppskrift en er að velta fyrir mér þar sem ég þoli ekki agavesýróp frekar en venjulegan sykur, þjónar ekki agavesýrópið meiri tilgangi heldur en að sæta? Ætli bollurnar yrðu nokkuð eins ef ég notaði sætuefni í staðinn :/
17. feb. 2014
Hæ hó og takk fyrir :)
Ég nota yfirleitt þá sætu hverju sinni sem hentar uppskriftinni best. Svona síróp gefur meiri fyllingu (það er jú vökvi) heldur en t.d. stevia og án sírópsins er ég hrædd um að fyllingin yrði ekki nægileg (og deigið of þurrt)? Ég hef þó ekki prufað og bara um að gera að testa! Ég myndi þá prufa 30 ml aukavökva (mjólk að eigin vali) og svo 3-4 dropa stevia.