Vanillubúðingur

Þetta er reyndar meiri bananabúðingur en vanillubúðingur því bananabragðið er nokkuð sterkt. Þetta er búðingur sem okkur Jóhannesi finnst ferlega góður og við gerum hann stundum þegar okkur langar í eftirmat sem er ekki of þungur í maga en er samt stútfullur af vítamínum, próteinum og hollri fitu. Svo er þetta reglulega góð blanda fyrir ís líka! Það er mjög gott að hálf frysta blönduna og setja svo í matvinnsluvél eða blandara, bæta svolítilli mjólk út í og drekka sem hristing (sjeik)!

Mikilvægt er að eiga matvinnsluvél til að mauka hneturnar sem best.


Vanillubúðingur, hollur og góður

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Vegan

Vanillubúðingur

Fyrir 2

Innihald

 • 100 g cashewhnetur, malaðar
 • 2 msk kókosolía
 • 1 stór, vel þroskaður banani
 • 4 msk agavesíróp
 • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • 60 ml sojamjólk (eða önnur mjólk)
 • 2 vanillustangir

Aðferð

 1. Setjið cashewhneturnar í matvinnsluvél og maukið alveg þangað til hneturnar fara að mynda kekki, gæti tekið nokkrar mínútur.
 2. Bætið 1 tsk af kókosolíu saman við í dropatali á meðan vélin gengur.
 3. Sætið banana, salti, agavesírópi og sojamjólk út í matvinnsluvélina og blandið vel.
 4. Bætið afganginum af kókosolíunni saman við og maukið vel (í nokkrar sekúndur).
 5. Skerið vanillustöngina í tvennt langsum og skafið úr henni ofan í matvinnsluvélina. Skafið hliðar matvinnsluvélarinnar og blandið í 10 sekúndur.
 6. Setjið blönduna í skál, setjið plast yfir og látið standa í ísskápnum í um klukkustund.
 7. Dreifið smávegis kakói eða kakónibbum (enska: cacao nibs) yfir ef þið viljið. Berið fram kalt og í litlum glösum.

Gott að hafa í huga

 • Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Þið getið stungið vanillustöngunum sem búið er að skafa fræin úr, ofan í krukku með hrásykri. Þið fáið fínan vanillusykur eftir nokkrar vikur.
 • Nota má cashewhnetumauk (enska: cashew butter), sama magn, í staðinn fyrir cashewhnetur. Maukið fæst í heilsubúðum.

Ummæli um uppskriftina

Rúna Magga
07. nóv. 2013

hæ, hæ,

þú talar um vanilludropa í lýsingunni en það eru engir vanilludropar skráðir í hráefnislistann. Eiga þeir að vera og þá hve mikið magn?

sigrun
07. nóv. 2013

Sæl. Ég er búin að leiðrétta og taka út vanilludropana :) Takk.