Túnfiskur með núðlum

Þetta er afar próteinrík og holl fæða og ekki amalegt að fá sér svona fína blöndu af kolvetnum og próteinum eftir ræktina! Gerist varla betra. Ég mæli ekki með því að ódýr túnfiskur sé notaður, það er alveg þess virði að eyða aðeins meiri pening og fara í fiskbúðina (t.d. Fylgifiska Suðurlandsbraut) og kaupa flottan túnfisk. Rétturinn er upplagður fyrir sumargrillið.

Athugið að uppskriftin er merkt sem án hneta en hún inniheldur sesamolíu. Þeir sem hafa ofnæmi fyrir sesamfræjum ættu því að sleppa sesamolíunni.


Hollur og próteinríkur túnfisksréttur

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án hneta en með fræjum
 • Án hneta

Túnfiskur með núðlum

Fyrir 2-3

Innihald

 • 250 g núðlur t.d. hrísgrjónanúðlur
 • 2 sm ferskt engifer, saxað smátt
 • 6 msk tamarisósa
 • 3 msk sesamolía
 • 1 msk agavesíróp
 • 1 msk hrísgrjónaedik
 • 1 límóna, safi og börkur (rifinn smátt)
 • 20 g ferskt coriander, saxað (má sleppa)
 • 4 vorlaukar, sneiddir þunnt (allt nema blöðin notað)
 • 4 x 175 g ferskur túnfiskur

Aðferð

 1. Hrærið saman í skál 3 msk tamarisósu, 2 msk sesamolíu og hrísgrjónaediki.
 2. Sjóðið núðlurnar samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum.
 3. Hellið vatninu af núðlunum eftir suðu og hellið sósunni yfir, hrærið vel og látið kólna.
 4. Saxið coriander smátt og sneiðið vorlaukinn í þunnar sneiðar.
 5. Blandið saman coriander og vorlauknum.
 6. Afhýðið engiferið og saxið mjög sátt. Setjið engiferið, afganginn af tamarisósunni (3 mtsk) og agavesírópið í pott. Hitið að suðu, látið sjóða í 1 mínútu eða þangað til allt blandast vel saman.
 7. Rífið börkinn af límónunni og hrærið út í pottinn. Kreistið safa úr hálfri límónu út í.
 8. Látið sósuna kólna í 30 mínútur.
 9. Bætið við afganginum af sesamolíunni (1 mtsk) og afganginum af límónusafanum (úr hálfri límónu).
 10. Hitið pönnu við frekar háan hita. Setjið nokkra dropa af kókosolíu á pönnuna og steikið túnfiskinn. Eldunartíminn fer eftir því hversu bleikur túnfiskurinn má vera en best er að hafa hann sem hráastan (finnst mér. Þetta er þó algerlega smekksatriði). Ég miða við 2-3 mínútur á hvorri hlið en hitið lengur ef þið viljið.
 11. Skiptið núðlunum jafnt á milli fjögurra diska og setjið eina túnfisksteik á hvern disk.
 12. Hellið sósunni yfir hvern bita og skreytið með vorlauk og söxuðum corianderblöðum.

Gott að hafa í huga

 • Nota má aðrar núðlur í þennan rétt, t.d. soba núðlur (úr bókhveiti), udon núðlur (innihalda hveiti) eða spelt núðlur.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
 • Nota má sojasósu í staðinn fyrir tamarisósu en athugið að sojasósan inniheldur hveiti.
 • Gott er að dreifa þurrristuðum sesamfræjum yfir túnfiskinn rétt áður en hann er borinn fram.

Ummæli um uppskriftina

Sævar
08. ágú. 2011

Þessi uppskrift er alveg í ruglinu. Mér sýnist á öllu að hún ætti að virka svona:

Hrærið saman 3 msk af tamarisósu og 2 msk af sesamolíu ásamt hrísgrjónaedikinu.
Sjóðið núðlurnar samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum.
Hellið vatninu af núðlunum eftir suðu og hellið sósunni yfir, hrærið vel og látið kólna.

Afhýðið engiferið og saxið mjög sátt. Setjið engiferið, restina af tamarisósunni (3 mtsk) og agavesírópið í pott. Hitið að suðu, látið sjóða í 1 mínútu eða þangað til allt blandast vel saman.
Rífið börkinn af límónunni og hrærið út í pottinn. Kreistið safa úr hálfri límónu út í.
Látið sósuna kólna í 30 mínútur.
Bætið við restinni af sesamolíunni (1 mtsk) og afganginum af límónusafanum (úr hálfri límónu).

Hitið pönnu við frekar háan hita. Setjið nokkra dropa af kókosolíu á pönnuna og steikið túnfiskinn. Eldunartíminn fer eftir því hversu bleikur túnfiskurinn má vera en best er að hafa hann sem hráastan (finnst mér. Þetta er þó algerlega smekksatriði). Ég miða við 2-3 mínútur á hvorri hlið en hitið lengur ef þið viljið.

Skiptið núðlunum jafnt á milli fjögurra diska og setjið eina túnfisksteik á hvern disk.

Saxið coriander smátt og sneiðið vorlaukinn í þunnar sneiðar.
Blandið saman coriander og vorlauknum.

Hellið sósunni yfir hvern bita og skreytið með vorlauk og söxuðum corianderblöðum.

sigrun
09. ágú. 2011

Ha ha það segirðu satt. Ég er búin að leiðrétta og uppfæra aðferðarlýsingu, það fór eitthvað línuvillt hjá mér í upphafi :) Kærar þakkir fyrir ábendinguna :)