Túnfiskréttur í brauði

Þennan mat smökkuðum við fyrst hjá Smára bróður og Önnu Stínu konunni hans þegar við vorum í sumarfríi á Íslandi 2003. Þetta var frábær matur (enda frábærir kokkar), próteinríkur og magur og svo er líka tilbreyting að borða svona brauðrétt heldur en þann sem maður borðar alltaf í eldföstu móti. Það má gera nánast alla brauðrétti svona og setja þá í brauð og inn í ofn. Tilvalin tilbreyting í saumaklúbbinn. Svo er nú alltaf gott að fá súpu eða annan mat&;í brauði (svoooo gaman að borða „skálina” eftir á, orðin mjúk af matnum innan í, ferlega gott).

Kúlubrauð er eina brauðið sem ég kaupi í bakaríi og kaupi ég þá gróft spelt kúlubrauð. Athugið að brauðin innihalda yfirleitt ger.

Þessi uppskrift er:

 • Án hneta

Túnfiskréttur í brauði

Fyrir 2-3

Innihald

 • 3 stk harðsoðin egg (þ.e. 3 eggjahvítur, 1 eggjarauða)
 • 1 dós túnfiskur í vatni
 • Hálfur laukur, saxaður smátt
 • 1 blaðlaukur, hvíti hlutinn, saxaður smátt
 • Hálf rauð paprika
 • Hálf græn paprika
 • 100 g magur ostur, rifinn
 • 4 msk 5% sýrður rjómi (án gelatíns, frá Mjólku)
 • 1 tsk steinselja
 • 0,5 tsk karrí
 • Salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • Svartur pipar eftir smekk
 • 1 gróft spelt kúlubrauð

Aðferð

 1. Látið leka vel af túnfiskinum.
 2. Sjóðið eggin í 7-10 mínútur og kælið svo.
 3. Skerið eggið og eggjahvíturnar með eggjaskera, langsum og þversum svo þau verði að litlum bitum. Setjið í skál ásamt túnfiskinum.
 4. Skerið paprikurnar langsum og fræhreinsið. Saxið smátt.
 5. Afhýðið laukinn og saxið smátt.
 6. Saxið blaðlaukinn smátt.
 7. Rífið ostinn.
 8. Setjið allt í stóra skál ásamt sýrða rjómanum og rifna ostinum. Kryddið með steinselju, karríi, salti og pipar.
 9. Blandið öllu saman í stóra skál ásamt öð.
 10. Skerið holu ofan á brauðið og skafið innan úr því eins og þið getið. Setjið maukið í brauðið.
 11. Bakið brauðiðvið 200°C í 30-35 mínútur.

Gott að hafa í huga

 • Berið fram ferskt og gott salat með réttinum.
 • Kaupið „Dolphin Friendly”  túnfisk, stendur utan á dósunum hvort að svo sé.
 • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.