Tortilla (vefjur)

Ég hef lengi átt þessa uppskrift en ekki birt hana fyrr en nú því ég er alltaf aðeins að breyta henni. Hún er núna orðin fín að mér finnst. Ég er þó ekki sérstaklega klár í að gera tortilla kökur þunnar og flottar en það skiptir engu því þær eru bragðgóðar. Svo eru þær afskaplega fljótlegar svona þegar maður er búinn að fletja þær út. Þær verða tilbúnar á nokkrum mínútum eftir það. Spelti passar afar vel í uppskriftina en ég hef líka notað rúgmjöl. Ég nota alltaf gróft spelti en það má gjarnan nota fínt líka ef ykkur finnst það betra. Ég hef líka notað ljós hörfræ í staðinn fyrir sesamfræ (eða með) og það er líka gott. Þá mala ég hörfræin aðeins fyrst í blandara. Ég hætti að kaupa tortilla kökur úr búð fyrir langa löngu því þær eru frekar óspennandi og þar fyrir utan rándýrar og með fullt af alls kyns aukaefnum og sykri. Ekki minn tebolli eins og Bretarnir myndu segja. Hægt er að frysta bakaðar tortilla kökur og eiga í frystinum. Það flýtir mikið fyrir manni og bara um að gera að baka nógu mikið þegar maður hefur loksins tíma til! Tortilla kökurnar eru frábærar með t.d. hummus, alls kyns niðurskornu grænmeti, pottréttum o.fl. Þær eru líka frábærar í nestið, garðveisluna og útileguna. Það er kannski svolítið mikið af kókosolíu í uppskriftinni en mér gengur illa að fletja þær út annars og magnið er heldur ekki svo mikið miðað við magnið af speltinu. Ég næ 10 tortilla kökum úr uppskriftinni en ef þið getið flatt kökurnar þynnra út, náið þið auðvitað fleirum.

Þessi uppskrift er:

 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta en með fræjum
 • Án hneta
 • Vegan

Tortilla (vefjur)

Gerir 10 tortilla vefjur

Innihald

 • 375 g spelti (gott að nota rúgmjöl í bland)
 • 2 tsk vínsteinslyftiduft
 • 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • 1 tsk agavesíróp
 • 4 msk kókosolía
 • 125 ml bolli heitt vatn
 • 1 tsk sesamfræ (eða hörfræ)

Aðferð

 1. Blandið saman spelti, salti, lyftidufti og sesamfræjum í skál.
 2. Bætið agavesírópinu og kókosolíu saman við og hnoðið létt.
 3. Bætið vatninu við smám saman og hnoðið þangað til deigið er orðið mjúkt og teygjanlegt og ekki of klístrað (ætti ekki að klístrast við fingurna).
 4. Leyfið deiginu að jafna sig í 10-15 mínútur undir plasti eða röku viskustykki.
 5. Skiptið deiginu í 10 kúlur og geymið undir röku viskustykki.
 6. Fletjið tortilla kökurnar út frekar þunnt með kökukefli (eða stórri flösku), eins þunnt og þið treystið ykkur til og deigið þolir. Setja þarf svolítið spelti (eða bökunarpappír) á borðið á meðan þið eruð að fletja út því annars klístrast deigið svolítið við borðið.
 7. Setjið disk, 20 sm að þvermáli á hvolf ofan á deigið og skerið út hring (má sleppa og hafa óreglulega í laginu).
 8. Raðið hverri tortilla köku á disk en gætið þess að teygja ekki á kökunum þegar þið lyftið þeim.
 9. Hitið stóra pönnu á næstum því hæsta hitastig.
 10. Hitið kökurnar þangað til þær taka aðeins lit (í nokkrar mínútur á hvorri hlið), þær ættu ekki að brenna eða verða harðar en mega fá nokkra „brunabletti”. Oft bólgna kökurnar út við að hitna en það er allt í lagi, þær falla saman aftur.
 11. Berið fram strax eða geymið kökurnar volgar í plastpoka eða undir röku viskustykki.
 12. Geymið óbakaðar vefjur í plastpoka í ísskápnum (í lagi að geyma í einn dag). Einnig má raða bökuðum (köldum) tortilla kökum ofan á hverja aðra með bökunarpappír eða plastfilmu á milli og frysta.

Gott að hafa í huga

 • Það er síst verra að nota fínt spelti í vefjurnar.
 • Nota má blöndu af rúgmjöli og spelti.
 • Nota má hunang í staðinn fyrir agavesíróp.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.

Ummæli um uppskriftina

Emelía
13. jan. 2011

Var að enda við að gera þessa uppskrift! Hún er snilld! Smakkaði eina vefju með avókadó og smá salti, nammmm. Ætla að frysta rest og nota í nesti í skólann. Takk kærlega fyrir mig!

sigrun
13. jan. 2011

Gaman að heyra Emelía og um að gera að nota í nestisboxið :)

sigruningveldur
01. feb. 2011

Namm namm namm! Hef svona í framtíðinni þegar borðað er mexíkóskt á mínu heimili, sem er einu sinni í viku. Fljótlegt og rosalega gott.

Svava
10. feb. 2011

takk fyrir frábæra uppskrift.. mig hefur lengi langað að búa til svona :)

Hinsvegar eru aðilar í fjölskyldunni minni með glúteinóþol. Get ég skipt speltinu út fyrir annað mjöl? Bókhveiti t.d
Get ég notað hveitikím?

sigrun
10. feb. 2011

Þú gætir prófað bókhveiti og maísmjöl. Það gæti verið að þú þyrftir þá að bæta eggi við uppskriftina í staðinn fyrir glúteinið.

Kv.

Sigrún.

Katrín
29. sep. 2011

Langar rosa að purfa þessa uppskrift í kvöld en ég var að velta fyrir mér hvort ég mætti ekki sleppa agavesírópinu ? þar sem ég er að forðast allan sykur.

sigrun
29. sep. 2011

Þú getur líklega sleppt agavesírópinu en ég myndi þá bæta aðeins af vatni út í.

Kv.

Sigrún

Sigrún B
01. feb. 2012

Ef þú frystir kökurnar setur þú þá bökunarpappír á milli þeirra eða frystir þú þær bara í einum bunka?

Sigrún B
01. feb. 2012

ég las víst ekki alla leið, sá að þetta stendur allt saman í uppskriftinni :)

Magnea86
03. okt. 2012

Ég gerði svona í gær og fannst þær æði. Mun aldrei kaupa aftur tortilla vefjur út í búð. Eitt samt þær urðu stökkar hjá mér og var því erfitt að vefja þeim (tókst á endanum en jáhm allt fór soldið út um allt) þær voru samt ekki orðnar dökkar, er ég með of mikinn hita eða hvað get ég gert?

Bjó svo til Guacomole http://www.cafesigrun.com/guacamole og salsa http://www.cafesigrun.com/salsa til að hafa með og vá hvað það var gott :D

(Fæst reyndar ekki vorlaukur þar sem ég bý en ég notaði hvíta laukinn (sem er eins og venjulegur laukur en hvítur að utan líka) í staðinn og það var mjög gott)

Takk fyrir mig Sigrún :)

sigrun
03. okt. 2012

Gaman að heyra Magnea :) Þær verða svolítið stökkar hjá mér líka...þú getur prufað minni bita og jafnvel meiri vökva (en þá getur verið erfitt að fletja þær út). Það er hægt að fá svona tortilla pressu (sem mig langar mikið í) sem gerir tortilla kökurnar svo flatar og flottar.......og þá gæti maður hugsanlega leikið sér meira með vökva o.þ.h.