Tómatsúpa Höddu
Hadda Fjóla Reykdal hefur áður komið við sögu á CafeSigrun en hún er stúlkan sem hengdi miðann örlagaríka upp á korktöfluna í grafíkdeild Myndlista- og handíðaskólans.
Þetta var árið 1998 og ég kunni ekki einu sinni að sjóða pasta. Hadda Fjóla er myndlistarkona og ég þekki fáa sem hafa jafn gott auga fyrir litum og litasamsetningum og hún. Hún getur raðað litum saman á næstum því ljóðrænan hátt. Alveg eins og það er eitthvað óútskýranlega fallegt við fiðluverk Vivaldis...er eitthvað óútskýranlega fallegt við litameðferð Höddu. Hún er 4ra barna ofurdugleg móðir. Ég hef þá kenningu að oft séu myndlistarmenn gæddir meiri náttúrulegum hæfileikum í eldhúsinu en margur annar og ég held að það sé tilkomið vegna þess að myndlistarmenn sem þekkja vel inn á liti og litameðferð hafi næma tilfinningu fyrir hráefni í mat, hvað passar saman og hvað ekki, alveg eins og t.d. hvaða litir passa vel saman í málverki. Kannski er þessi kenning ekki 100% en ég veit að í tilfelli Höddu Fjólu er hún rétt því ég fékk þessa uppskrift að tómatsúpu frá henni og hún er eins og listaverk, full af djúpu bragði, ekki of sterkir tónar, ekki of afgerandi í einu bragði og vekur með manni svipaða tilfinningu og fallegt málverk. Súpan er frábærlega holl, full af andoxunarefnum og C vítamíni og hún verður bara betri á öðrum degi. Með súpunni fylgdi stutt innslag frá Höddu og ég læt það fylgja með:
„Þannig var að Lilja dóttir mín 8 ára vildi fá að elda sjálf. Fannst það ægilega mikið sport að fá að elda og velja matinn sjálf og átti ég bara að vera til taks.Valdi hún tómatsúpu, sem er mikið uppáhald hjá krökkunum. Mér leist bara mjög vel á það og fann einfalda uppskrift sem hún myndi ráða við að gera með minni hjálp. Ekki leið langur tími þar til vinkona hennar bankaði upp á og þá skyndilega nennti Lilja ekki að sjá um matseldina og lét mér það eftir. Ég var að mörgu leyti fegin af því þá hugsaði ég með mér „núna get ég laumað fullt af grænmeti í súpuna og svo maukað hana með galdrastafnum og tatatatammmm tómatsúpa börnin góð”. Málið er nefnilega að þó krakkarnir mínir séu orðnir ægilega duglegir að borða fullt af mat og mikið krydduðu, þá eru þau ekki mikið fyrir súpur og hvað þá súpur með fullt af grænmeti í. Ég hófst því handa og setti risastóran pott á helluna, tók fram allt girnilega grænmeti og galdraði fra æðislega góða súpu. Krökkunum mínum fannst súpan aðeins of sterk og viðurkenni ég að hún var pínu „fullorðins” á bragðið. Þegar ég bætti pínu vatni út á disk barnanna fannst þeim hún ekki eins sterk og voru hin ánægðustu með „tómatsúpuna” og uppljóstraði ég aldrei innihaldi hennar fyrir þeim.”
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án eggja
- Án hneta
Þessa uppskrift er auðvelt að gera:
- Án mjólkur
Tómatsúpa Höddu
Innihald
- 1 laukur, afhýddur og saxaður gróft
- 2 gulrætur, skrældar og saxaðar gróft
- 2 sellerístilkar, saxaðir gróft
- 4 kartöflur, skrældar og saxaðar gróft
- 3 hvítlauksgeirar, afhýddir og saxaðir smátt
- 1 msk kókosolía og vatn eftir þörfum
- 400 g tómatar, saxaðir (úr dós)
- 3 msk holl tómatsósa [Hadda notaði 2-3 msk sweet chilli sauce]
- 1 msk tómatmauk (puree)
- 500-700 ml vatn
- 2 gerlausir grænmetisteningar [Hadda notaði 1 msk fljótandi kjúklingakraft]
- 0,5 msk paprika
- 1,5 msk karrí [Hadda notaði sterkt karrí]. Má nota minna
- 0,5 msk coriander
- 0,5 msk rósmarín
- 0,5 tsk saffran
- 120 ml léttmjólk [Hadda notaði 1 pela matreiðslurjóma]
- 100 g Philadelphia Light rjómaostur
- Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt) ef þarf
- Smá klípa svartur pipar
Aðferð
- Afhýðið lauk og hvítlauk og skerið gróft.
- Skrælið kartöflur og gulrætur og saxið gróft.
- Hitið kókosolíu í stórum potti. Steikið laukinn og hvítlaukinn þangað til laukurinn er orðinn mjúkur. Bætið vatni við ef þarf meiri vökva.
- Bætið gulrótum, selleríi og kartöflum út í pottinn og hitið í nokkrar mínútur.
- Hellið tómötunum út í pottinn ásamt tómatsósunni, tómatmaukinu, vatninu og grænmetisteningunum.
- Látið súpuna sjóða í 10-15 mínútur.
- Maukið með töfrasprota þangað til allt er orðið slétt og mjúkt. Einnig má mauka í matvinnsluvél en maukið þá lítið í einu og kælið súpuna áður. Ef þið viljið hafa grófari áferð, maukið þá minna.
- Kryddið með papriku, karríi, coriander, rósmarí, saffra, salti og pipar.
- Bætið meira vatni út í súpuna ef þið viljið þynna hana.
- Bætið léttmjólk og rjómaostinum út í súpuna.
- Hér segir Hadda að eigi að láta súpuna „púttra” svolítið en ég hef ekki hugmynd um hvað orðið þýðir ha ha (líklega á súpan þó að malla).
Gott að hafa í huga
- Berið fram með grófu snittubrauði og parmesanosti.
- Holl tómatsósa fæst í heilsubúðum eða heilsuhillum stærri matvöruverslana.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. ólífulíu
- Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
- Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
- Nota má hrísmjólk, möndlumjólk, sojamjólk eða haframjólk í staðinn fyrir lettmjólk.
- Nota má hafrarjóma (ég er hrifin af Oatly merkinu) eða sojarjóma í staðinn fyrir matreiðslurjóma. Einnig má nota kókosmjólk.
- Nota má sojasmurost í staðinn fyrir rjómaostinn.
Ummæli um uppskriftina
21. sep. 2011
Sælar,
Langar svo að forvitnast hvort þú teljir það góða hugmynd að nota frekar sætar kartöflur í þessa súpu?
21. sep. 2011
Ég hugsa að sæta bragðið gæti orðið of yfirþyrmandi og súpan gæti orðið svolítið 'skrítin' á bragðið á móti tómötunum? En það er um að gera að prófa :)
07. jan. 2012
Takk fyrir þetta! Var að prófa þessa og hún er hrikalega góð :)
07. jan. 2012
Gaman að heyra Hrönn :)
12. jan. 2012
Sæl, var einmitt að prófa að gera þessa...:) ég verð samt að spyrja,( er alveg ný í eldhúsinu, hef voða lítið eldað hingað til) vegna þess að hún var svolítið beisk hjá mér, og ég sá eftir á að ég notaði aðeins of mikið saffran, og gleymdi rósmaríninu, en gæti líka verið að ég hafi sett aðeins of mikið af selleríi, en ég fann samt alveg yfirgnæfandi saffran bragð af henni, er það svona bragsterkt krydd?? hef nefnilega aldrei notað það áður :P
kv. Ólína :)
12. jan. 2012
Sko saffran ætti maður að nota sparlega og eiginlega bara til að fá lit því bragðið er ekkert sérstaklega mikið en að sama skapi frekar rammt/beiskt. Mig grunar líka að það hafi kannski, hugsanlega farið of mikil paprika í súpuna (paprikuduft er misjafnlega sterkt) en ef þú finnur saffran bragð hefur pottþétt farið of mikið í hana. Þú gætir bjargað súpunni með svolitlu meira af tómatmauki og vatni og til að deyfa beiska bragðið, sett pínulítið af t.d. agavesírópi í. Prófaðu það allavega.
Gangi þér vel í tilraunum!!
12. jan. 2012
P.S. frábær síða annars, gleymdi að skrifa það :)
02. jan. 2014
Þessi sló í gegn á mínu heimmili!
02. jan. 2014
Gaman að heyra og takk fyrir að deila með okkur :)
10. júl. 2014
Var fyrst að sjá þessa síður núna og líst vel á. Vantar alltaf góðar uppskriftir. Sifa