Tómatsúpa frá Zanzibar
3. mars, 2006
Þessi súpa er mjög einföld og æðislega góð (auk þess að hún er að springa úr vítamínum og andoxunarefnum!). Upprunaleg uppskrift kemur úr bók sem heitir Swahili Kitchen (sem Jóhannes gaf mér þegar hann kom frá Afríku eftir prílið á Mt. Kenya 2006) en ég bætti hvítlauk og kartöflum í uppskriftina. Best er að grilla tómatana og helminginn af lauknum í ofninum og þeir verða algert nammi þannig. Athugið að það tekur um 40-50 mínútur að grilla grænmetið svo gefið ykkur góðan tíma. Súpan sjálf hentar vel fyrir þá sem hafa glúteinóþol, eggjaóþol, hnetuóþol og mjólkuróþol.
Athugið að best er að nota matvinnsluvél, blandara eða töfrasprota til að mauka súpuna.
Afrísk tómatsúpa, holl og góð.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án hneta
Þessa uppskrift er auðvelt að gera:
- Án eggja
- Vegan (fyrir jurtaætur)
Tómatsúpa frá Zanzibar
Fyrir 3-4 sem forréttur
Innihald
- 500 g tómatar, vel þroskaðir
- 4 laukar, saxaðir smátt
- 2 hvítlauksrif, söxuð smátt
- 1 msk kókosolía
- 160 g kartöflur
- 2 msk tómatmauk (puree)
- 500 ml vatn
- 1 gerlaus grænmetisteningur
- 1 tsk basil
- Smá klípa svartur pipar
- Salt (Himalaya eða sjávarsalt)
Aðferð
- Setjið tómatana í skál, hellið sjóðandi heitu vatni yfir þá og látið standa í skál í 1-2 mínútur.
- Látið tómatana kólna aðeins og afhýðið þá strax með beittum hnífi.
- Skerið tómatana í báta og setjið í eldfast mót (setjið svolitla kókosolíu í eldhúspappír og strjúkið yfir eldfasta mótið).
- Afhýðið laukana fjóra, skerið tvo af laukunum í báta og raðið í eldfasta mótið.
- Hitið ofarlega í ofninum við 220°C í um 40-50 mínútur eða þangað til brúnirnar á tómötunum og laukunum eru orðnar dökkar og jafnvel svartar.
- Afhýðið hvítlaukina og saxið ásamt hinum laukunum tveimur. Saxið frekar gróft.
- Hitið kókosolíu í potti og steikið hvítlaukinn og laukinn þangað til laukurinn verður mjúkur.
- Afhýðið kartöflurnar og skerið í grófa bita. Setjið út í pottinn ásamt basil, tómatmaukinu, vatninu og grænmetisteningunum. Látið kartöflurnar sjóða í um 20 mínútur.
- Kælið súpuna aðeins. Setjið hana í smá skömmtum í matvinnsluvél eða notið töfrasprota. Maukið í um 20 sekúndur eða þangað til súpan er orðin silkimjúk.
- Takið nú eldfasta mótið með grænmetinu úr ofninum, kælið aðeins og setjið svo grænmetið líka í matvinnsluvélina
- Maukið meira ef þið viljið hafa súpuna vel blandaða en minna ef þið viljið hafa bita í henni.
- Smakkið til með salti og pipar.
Gott að hafa í huga
- Berið fram með snittubrauði og soðnum eggjum. Soðin egg eru alveg fáránlega góð með tómatsúpum.
- Súpan sjálf er frábær grunnur fyrir góða grænmetissúpu. Ef þið viljið hafa meira grænmeti í henni (t.d. blaðlauk, gulrætur, sveppi, papriku o.s.frv.) léttsteikið þá grænmetið og látið malla í súpunni þangað til grænmetið er orðið mjúkt.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
- Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024
Ummæli um uppskriftina
05. jan. 2011
Margar uppskriftir hérna sem ég þarf að prófa. Ætla að fara eftir ráðlegginunum sem þú gafst mér í haust um að breyta matarræðinu hjá mér og strákunum hægt og hljóðlega, sérstaklega með brauðið. Er einhver sérstök brauðuppskrift sem þú myndir mæla með þegar maður er að reyna að venja sig af hvítu brauði?
05. jan. 2011
Sæl Margrét, mér líst vel á þig :)
Prófaðu þessa uppskrift að Kókosbrauðbollunum (krökkum líkar hún yfirleitt vel). Þú getur prófað að nota fyrst fínt spelti á móti hvítu hveiti eða svolitlu heilhveiti og svo smátt og smátt breytt hlutföllunum yfir í grófara hveiti (og/eða spelti). Gerðu þetta á löngum tíma (jafnvel mánuðum) og þá munu krakkarnir ekkert taka eftir breytingunum. Minnkaðu kannski aðeins hlutfallið af kókosnum fyrst ef þú heldur að krakkarnir þínir muni fúlsa við því en flestum börnum finnst bollurnar mjög góðar :) Gangi þér vel!
Kv.
Sigrún
11. okt. 2011
Ég prófaði þessa súpu nú á fallegu haustkvöldi í Reykjavík. Hún bragðaðist afar vel og fór vel í maga. Ómissandi að setja soðin egg útí:-) Ætla að prófa fleiri af þeim spennandi súpuuppskriftum sem hér er að finna nú í vetur. Kem þá einhverju grænmeti ofaní "kallinn", sem vill helst ekki sjá neitt ferskt grænmeti á matardisknum sínum (nokkuð sem ég get ekki skilið...) En hann borðaði 2 sneisafullar skálar af súpunni góðu í kvöld:-) Takk f. mig.
12. okt. 2011
Gaman að heyra Ragnheiður...sérstaklega með "kallinn" :)
16. nóv. 2011
Hæ Sigrún!
Er í lagi að frysta þessa súpu og hita upp seinna? (fyrir prófatíðina í desember) :-)
Bestu kv.
Anna
16. nóv. 2011
Jú heldur betur. Það má frysta allar súpurnar mínar fyrir utan þær sem innihalda pasta eða núðlur :) Sjóddu eggin eftir að þú ert búin að taka súpuna úr frystinum (ekki frysta þær með súpunni) :)
17. nóv. 2011
Frábært! Takk kærlega!!
28. mar. 2012
Var að elda þessa, breytti pínu. Grillaði hvítlaukinn áður en hann fór í pottinn og sett grænmetisafa á móti vatninu. Æðisleg súpa sem verður pottþétt gerð aftur. Takk fyrir mig :o)
28. mar. 2012
Frábært að heyra :) Verði þér að góðu :)
26. mar. 2015
Hæ Sigrún! Hef alltaf gert gulrótar og kókossúpuna frá Zansibar í afmælum þar sem súpa er á boðstólnum. Núna á ég svo mikið af tómötum og var að spá í hvort ég ætti að prófa þessa..get ekki notað hvítlauk né lauk og ekki egg með henni (jóga prinsip). Hvernig heldurðu að hún bragðist án þess? Gæti ég notað engifer í staðinn? Er þetta hæf afmælis súpa?
26. mar. 2015
Spurning með þessa í staðinn? http://cafesigrun.com/austur-afrisk-graenmetissupa-med-hnetum-og-saetum-kartoflum .....hún er kannski meira spennandi þó tómatsúpan sé reyndar mjög fín líka. Eitt ráð þegar maður getur ekki notað lauk/hvítlauk er að nota 1 sellerístilk + smá karrí og aðeins meira salt eða grænmetiskraft en tiltekið er fyrir uppskriftina (ef þú mátt fá svoleiðis)?