Þriggja korna hirsibrauð
25. nóvember, 2007
Þetta glúteinlausa brauð er alveg prýðilegt og sérlega hollt. Það eru sólblómafræ, hörfræ og sesamfræ í því og maður getur sett hvaða fræ sem er í staðinn t.d. kúmen, sinnepsfræ, birkifræ o.fl. Mjög auðvelt og þægilegt og tekur einungis 15 mínútur að setja saman. Brauðið geymist ekki lengi og því er best að neyta þess sama dag og það er búið til en einnig má sneiða brauðið, frysta og rista svo í brauðristinni síðar. Þessi uppskrift er úr bók sem ég á sem heitir Gluten-Free French Desserts and Baked Goods.
Glúteinlaust brauð úr hirsi og hrísmjöli
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Þriggja korna hirsibrauð
Gerir 1 brauð
Innihald
- 210 g hrísmjöl (enska: rice flour)
- 50 g hirsi semolina (enska: millet semolina) sem er mjög fínmalað hirsi
- 4 tsk vínsteinslyftiduft
- 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
- 50 g sólblómafræ
- 2 msk sesamfræ
- 1 msk hörfræ
- 250 ml hrísmjólk (eða önnur mjólk)
- 1 tsk sítrónusafi
- 2 tsk agavesíróp
Aðferð
- Sigtið saman yfir stórri skál; hrísmjöl, hirsi salt og vínsteinslyftiduft. Hrærið vel.
- Blandið saman sítrónusafanum og 50 ml af hrísmjólk. Látið standa á borðinu þangað til mjólkin fer að mynda kekki (í um 15 mínútur).
- Hrærið saman agavesírópinu og afganginum af hrísmjólkinni
- Hrærið öllu saman þangað til deigið verður blautt en létt. Deigið þarf að geta lekið í klessum af skeiðinni.
- Klæðið kringlótt form, (um 22 sm) að innan með bökunarpappír
- Dreifið fræjunum yfir botninn.
- Látið matskeið af deigi dropa í einu yfir fræin þannig að hver sletta snerti hina. Brauðið mun blandast saman í bakstri.
- Jafniðdeigið létt með skeiðinni.
- Bakið við 200°C í um 20-25 mínútur.
- Takið brauðið út úr ofninum og hvolfið á vírgrind (þannig að fræin snúi upp) og látið brauðið kólna.
Gott að hafa í huga
- Í staðinn fyrir hrísmjólk getið þið notað haframjólk, sojamjólk, möndlumjólk eða undanrennu.
- Einnig má nota súrmjólk, AB mjólk eða jógúrt og þá má sleppa sítrónusafanum.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024
Ummæli um uppskriftina
21. jan. 2011
Sæl Sigrún. Nú er lag og læk...í aðferð stendur; "blandið sítrónusafanum við..." en ég veit ekki hversu mikið sítrónudropa?
Hlakka til að heyra frá þér og baka brauðið
22. jan. 2011
Hæ hæ búin að lagfæra og bæta sítrónusafanum við í innihaldslýsingu :)
Gangi þér vel í brauðbakstrinum.
Kv.
Sigrún
11. júl. 2013
Sæl Sigrún . Er hægt að nota eitthvað í staðinn fyrir hirsi? Gengur t.d. Að nota bókhveitmjöl í staðinn? Bkv. Hrefna.
11. júl. 2013
Jú bókhveitimjöl ætti að virka :)
03. feb. 2014
Sæl Sigrún,
Veistu nokkuð hvar ég get fengið hirsi semolina? Ég finn það hvergi.
Kv. Hanna
03. feb. 2014
Ég fann það í heilsubúð einhvern tímann en þú gætir notað eitthvað annað semolina líka?
22. okt. 2014
Ég hef brennandi áhuga á öllum bakstri.
Vandamál mitt er að finna ýmis korn og fræ, til dæmis eins og birkifræ – bygg fínmalað - hörfræ – kúmen – sesamfræ – sólblómafræ – sólkjarnar og fl.
Og eins pressuger
kv Jóhannes
22. okt. 2014
Flestöll fræin sem þú telur upp fást í stærri matvöruverslunum (í heilsuhillunum eða krydd/fræhillunum) og ef ekki þar þá í heilsubúðunum. Sama á við um pressugerið!