Thailenskur kjúklingur í hnetusósu (Satay)

Þessi réttur er hreinn unaður. Hann er hitaeiningaríkur svo maður ætti nú bara að borða hann spari en hann er syndsamlega góður (ég borðaði hann með grænmeti og hann var dásamlegur). Ég notaði kókosmjólk og hnetusmjör án viðbætts sykurs. Ég notaði líka hrísgrjónanúðlur (úr brúnum hrísgrjónum). Hægt er að nota venjulegar hrísgrjónanúðlur en þær venjulegu eru ekki eins hollar því þær eru jú gerðar úr hvítum hrísgrjónum. Þó að þessi réttur sé hitaeiningaríkur þá er hann fullur af vítamínum líka og mjög próteinríkur. Hægt er að nota tofu í stað kjúklings (stíft tofu) en það er þá hitað sér og sósunni hellt út á alveg í lokin. Einnig má nota grænmeti eins og t.d. flatar, grænar baunir, eggaldin, kúrbít, paprikur, gulrætur og svo má líka nota baby mais og margt fleira í stað kjúklingsins. Ef notað er grænmeti, skal sjóða það og gera tilbúið og hella svo sósunni út á í lokin. Þessi núðluréttur er fínn fyrir þá sem eru með glúteinóþol því það er ekki hveiti í hrísgrjónanúðlum. Einnig er rétturinn eggjalaus og mjólkurlaus.

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja

Thailenskur kjúklingur í hnetusósu (Satay)

Fyrir 2-3

Innihald

 • 2 stórar eða 3 litlar kjúklingabringur
 • 4 hvítlauksrif
 • 4 skallottlaukar
 • 1 stilkur sítrónugras (e. lemon grass), hvíti hlutinn eingöngu
 • 2 tsk kókosolía
 • 2 tsk karrí
 • 1 tsk engifer
 • 0,25 tsk turmeric
 • 0,25 tsk negull
 • 0,25 tsk cardimommur
 • 1 tsk coriander
 • 1 tsk chili pipar eða paprika
 • 1 msk tamarisósa (eða meira eftir smekk)
 • 400 ml kókosmjólk
 • 3 kúfullar matskeiðar af grófu hnetusmjöri (úr heilsubúð)
 • 4 dropar stevia án bragðefna eða 2 tsk agavesíróp
 • Svartur pipar eftir smekk
 • 175 g hrísgrjónanúðlur (helst úr brúnum hrísgrjónum)

Aðferð

 1. Steikið kjúklinginn í 1 tsk kókosolíu. Haldið kjúklingnum heitum án þess að steikja meira. Bætið vatni við á pönnuna ef vantar meiri vökva.
 2. Afhýðið laukana og hvítlaukinn og saxið smátt.
 3. Afhýðið sítrónugrasið og sneiðið hvíta hlutann í afar þunnar sneiðar.
 4. Hitið 1 tsk kókosolíu á stórri pönnu og steikið laukinn, hvítlaukinn og sítrónugrasið í nokkrar mínútur. Bætið vatni við á pönnuna ef vantar meiri vökva.
 5. Bætið kryddinu út í (karrí, engifer, turmeric, negull, cardimommur, coriander og chili) og hitið í nokkrar mínútur eða þangað til allt fer að ilma.
 6. Blandið saman í nokkum stórum potti; kókosmjólk, hnetusmjöri, tamarisósu, pipar og steviadropum. Hellið því sem er á pönnunni út í pottinn og hrærið vel.
 7. Hitið varlega þangað til sósan er orðin ágætlega þykk. Hrærið mjög oft.
 8. Sósan á að vera það þykk að hún loði aðeins við bakið á teskeið ef henni er dýft ofan í sósuna, samt það þunn að hún fljóti vel yfir núðlurnar og kjúklinginn.
 9. Ef sósan er of þykk getið þið sett smávegis af vatni út í.
 10. Sjóðið hrísgrjónanúðlurnar samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum og síið vatni frá þegar þær eru tilbúnar.
 11. Setjið hrísgrjónanúðlur á hvern disk. Setjð kjúklinginn eða grænmetið/tofuið ofan á núðlurnar. Hellið heitri sósunni yfir eða berið fram í sér skál
 12. Berið fram með grænum, flötum baunum eða sojabaunum (e. edamame).

Gott að hafa í huga

 • Hægt er að rífa kjúklinginn yfir núðlurnar og einnig er hægt að bera núðlurnar fram sér.
 • Nota má aðrar núðlutegundir í þennan rétt. T.d. má nota soba núðlur (úr bókhveiti), udon núðlur (innihalda hveiti) eða spelt núðlur.
 • Notið velferðarkjúkling (þ.e. free range) ef mögulegt er.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Nota má sojasósu í staðinn fyrir tamarisósu en athugið að sojasósan inniheldur hveiti.

Ummæli um uppskriftina

Hrönna
01. apr. 2011

mmmmm....rosalega gott !

sigrun
01. apr. 2011

Gott að heyra :)

ingibjorgd
26. jún. 2011

Ég eldaði þennan í kvöld og hann sló aldeilis í gegn :)Mmmmmm kryddin og sósan voru æði!

sigrun
26. jún. 2011

Gaman að heyra :)

barbietec
03. júl. 2011

Ég get sko mælt með þessum, en sósan er stórhættuleg! Það þarf að taka hana sem fyrst af borðinu ef það eru afgangar, annars er maður farinn að dífa kjúllanum ofan í sósuna þegar maður gengur frá matnum hehehe :)

Þessi réttur var upplagður fyrir hlaupamót :) Orkumikill og góður í maga.

sigrun
03. júl. 2011

Já sósan er dálítið hættuleg :)

gestur
15. ágú. 2012

Langar rosa að prufa þennan rétt en bý út á landi og það er ekki til sítrónugras í búðinni, get ég notað e-ð annað í staðin?

sigrun
15. ágú. 2012

Hmmm það kemur ekkert í staðinn fyrir sítrónugras en þú getur prófað að nota um 1 msk af límónusafa. Ekki alveg það sama en gefur samt ákveðinn frískleika sem er einkennandi fyrir sítrónugras.

Ragna Fanney Ós...
11. jan. 2013

Mjög góður réttur en mætti vera ögn saltari fannst þeim sem ég bauð þennan rétt og ég gat alveg tekið undir það. Ég var að vísu ekki með sítrónugras nema eitthvað sem ég fékk í pakka (ups vona að það hafi ekki verið gluten í því, gleymdi að ath) Veit ekki hvort það hafi gert gæfumunin en get sko alveg mælt með þessum rétti annars.

sigrun
11. jan. 2013

Takk fyrir að deila með okkur. Saltið má alltaf auka ef smekkur er fyrir því. Sítrónugras í pakka þekki ég ekki en það er mjög ólíklegt þó að glútein hafi verið í því.....eða ég hef allavega aldrei séð svoleiðis :)