Thailenskur kjúklingur í grænni karrísósu með kókoshrísgrjónum
27. febrúar, 2003
Þetta er uppskrift sem ég fékk af heimasíðu Waitrose en það er búðin sem við verslum alltaf í hérna í London. Frábært úrval og góð gæði einkenna þessa búð og það er gaman að skoða uppskriftasíðuna þeirra. Ég reyni að sneiða framhjá tilbúnum sósum en geri það ef ég er á svakalegri hraðferð. Ég kaupi samt aldrei í lífinu annað en lífrænt. Ef þær eru ekki lífrænt framleiddar gætið þess þá að sykur sé ekki í innihaldslýsingunni og ekki heldur MSG/Monosodium Glutamate/E-600 efni né önnur viðbætt efni. Best er að kaupa svona sósur í heilsubúðum.
Athugið að þegar ég tala um thailenska, græna karrísósu er ég ekki að tala um thaiilenskt kryddmauk heldur sósu sem er með viðbættri kókosmjólk o.fl. Ég nota milda sósu.
Mildur og góður kjúklingaréttur
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
Thailenskur kjúklingur í grænni karrísósu með kókoshrísgrjónum
Fyrir 2-3
Innihald
- 250 g kjúklingabringa, grilluð (helst) og skinnlaus
- 175 g hýðishrísgrjón eða bygg
- 1 stór og ágætlega þroskaður banani, sneiddur
- 190 ml thailensk, græn karrísósa, mild (úr heilsubúð)
- Hálfur rauður chili pipar, fræhreinsaður og saxaður smátt
- Hálf lúka ferskt coriander, saxað
- 2 msk kókosmjöl, þurrristað á pönnu
- 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
Aðferð
- Sjóðið hýðishrísgrjónin samkvæmt leiðbeiningum á pakkningum. Látið allt vatn renna af þeim
- Ristið kókosmjölið á pönnu (án olíu) í 1-2 mínútur eða þangað til aðeins brúnað og ilmandi. Setjið til hliðar.
- Sneiðið bananann frekar gróft.
- Skerið chili piparinn langsum, fræhreinsið og saxið mjög smátt.
- Saxið corianderblöðin.
- Setjið grænu karrísósuna út á pönnuna og hitið aðeins.
- Setjið bananasneiðarnar út í sósuna og hrærið varlega. Gætið þess vel að merja ekki sneiðarnar.
- Rífið kjúklinginn í strimla og bætið honum á pönnuna.
- Hitið á háum hita í 5-7 mínútur en án þess að sjóði.
- Setjið grjónin í skál, saltið þau og bætið ristaða kókosmjölinu saman við. Dreifið chili pipar og coriander út á grjónin.
- Berið grjónin fram með kjúklingaréttinum.
Gott að hafa í huga
- Berið fram með snittubrauði og salati
- Notið„hamingjusaman kjúkling” (þ.e. free range) ef þið mögulega getið.
- Ef þið notið hráan kjúkling og getið ekki grillað hann, steikið kjúklinginn þá upp úr 1 tsk kókosolíu og vatni.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024