Thailenskar fiskikökur með sesamsósu

Fiskur og kökur eru kannski ekki tvö orð sem eiga heima í sömu setningunni en enska heitið yfir þessa gerð matar er engu að síður fish cake svo ég held því yfir á íslensku. Uppskriftin er mjög lík uppskrift Deliu Smith (breska sjónvarpskokkinum) en töluvert hollari þar sem ég steiki ekki kökurnar heldur baka þær í ofni. Fiskurinn sem ég nota er feitur og inniheldur holla fitu. Nota má hvítan fisk í staðinn. Þó að innihaldslistinn virki langur þá er uppskriftin frekar einföld því megnið af innihaldinu fer í matvinnsluvél. Einnig má búa kökurnar til, baka og frysta til seinni tíma. Athugið að best er að nota matvinnsluvél, blandara eða töfrasprota til að mauka hráefnið. Fiskikökurnar henta þeim sem hafa glútein-, mjólkur-, hnetu- eða eggjaóþol/ofnæmi. Þær innihalda engu að síður sesamfræ sem sumir hafa ofnæmi fyrir.


Thailenskar fiskikökur, bragðgóðar og ákaflega hollar

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta en með fræjum
  • Án hneta

Thailenskar fiskikökur með sesamsósu

Fyrir 2-3 eða um 12 kökur)

Innihald

Fiskikökurnar:

  • 650 g lax eða silungur (einnig má nota hvítan fisk). Bein- og roðhreinsaður
  • 1 stilkur sítrónugras (ystu blöð fjarlægð)
  • 1 hvítlauksrif
  • 20 g ferskt engifer
  • 1 rauður chili pipar
  • Hálf rauð paprika
  • 3 msk ferskt coriander (má sleppa)
  • 2 kaffir lime leaves, þurrkuð (má sleppa)
  • Rifinn börkur af límónu (safinn er svo notaður í sósuna)
  • 50 g coconut cream (kókosrjómi)
  • 0,5 tsk svartur pipar
  • 1 tsk salt (Himalaya- eða sjávarsalt)

Sesamsósan:

  • 1 tsk sesamfræ
  • 1 msk sesamolía
  • 1 msk límónusafi
  • 1 tsk fiskisósa (Nam Plah)
  • 1 msk tamarisósa
  • 1 rauður chili pipar

Aðferð

  1. Útbúið fiskikökurnar fyrst: Afhýðið hvítlauk og engifer. Fjarlægið ystu blöðin af sítrónugrasinu. Saxið allt fremur gróft.
  2. Skerið chili piparinn og paprikuna langsum, fræhreinsið og saxið fremur gróft
  3. Saxið kaffir lime leaves og coriander gróft.
  4. Rífið límónubörkinn.
  5. Skerið fiskinn í stóra bita.
  6. Setjið sítrónugras, hvítlauk, engifer, sítrónugras, chili piparinn, paprikuna, lime leaves, coriander og límónubörkinn í matvinnsluvél. Blandið í um 3-5 sekúndur (má ekki verða að algjöru mauki).
  7. Bætið fiskinum saman við og blandið í um 5-10 sekúndur eða þangað til allt er vel blandað saman án þess að verði fljótandi. Blandið kókosrjómanum saman við og blandið í um 2-3 sekúndur. Setjið nú allt saman í skál og kryddið með salti og pipar.
  8. Mótið 12 fremur flatar kökur.
  9. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og kökurnar á pappírinn. Bakið við 200°C  í um 20-25 mínútur eða þangað til þær eru orðnar nokkuð dökkar á yfirborðinu. Snúa má kökunum við eftir um 15 mínútur.
  10. Á meðan kökurnar bakast skuluð þið búa til sesamsósuna: Hitið pönnu í meðalhita (án olíu) og ristið sesamfræin í 20-30 sekúndur. Skerið chili piparinn langsum, fræhreinsið og saxið mjög smátt. Setjið sesamfræin ásamt sesamolíunni, chili piparnum, límónusafanum, fiskisósunni og tamarísósunni í litla skál og hrærið vel.

Gott að hafa í huga

  • Hægt er að frysta fiskikökurnar og hita upp í ofninum (eða á pönnu, ekki ætti að þurfa olíu þar sem kökurnar innihalda fitu úr kókoskjötinu).
  • Upplagt er að búa til þennan mat sem forrétt.
  • Kókosrjómi (coconut cream) (ekki það sama og kókosmjólk eða coconut milk) fæst í litlum dósum í stærri matvöruverslunum. 
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má sojasósu í staðinn fyrir tamarisósu en athugið að sojasósan inniheldur hveiti.

Ummæli um uppskriftina

gestur
01. mar. 2011

vá þessi er rosalega góður, takk fyrir mig :)

sigrun
02. mar. 2011

Gaman að heyra :)

gestur
04. apr. 2011

hhhhmmmm, mamma kallar þetta alltaf fiskilummur og hefur lagt þetta á borð frá því ég man eftir. Gaman að sjá hér nýja útgáfu.

sigrun
04. apr. 2011

Ha ha fiskilummur...það hef ég aldrei heyrt :)