Thailensk hrísgrjón (með kjúklingi eða án)

Nammi namm, þessi hrísgrjónaréttur er svo ferskur og góður. Sítrónugras, límóna og engifer virkilega lyfta bragðinu upp án þess að maturinn bragðist eins og uppþvottalögur :) Ég borða réttinn án kjúklings en hann er víst afskaplega góður með kjúklingi, að mati þeirra sem líkar hann. Í staðinn fyrir kjúklinginn má nota stíft, marinerað tofu en einnig má nota rækjur. Ég marinera tofuið í hvítlauk, engiferi og tamarisósu.


Ferskur og bragðgóður hrísgrjónaréttur

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta

Thailensk hrísgrjón (með kjúklingi eða án)

Fyrir 3-4

Innihald

 • 200 g kjúklingabringur
 • 1 laukur
 • 1 hvítlauksrif
 • 2,5 sm bútur ferskt engifer
 • 1 stilkur sítrónugras (e. lemon grass)
 • 1 tsk kókosolía
 • 1,5 tsk coriander fræ 
 • 1,5 tsk cumin fræ (EKKI kúmen fræ)
 • 2 límónur (börkur af 2 og safi af hálfri)
 • 300 ml vatn
 • 1 gerlaus grænmetisteningar 
 • 225 g ósoðin hýðishrísgrjón
 • Ein væn lófafylli ferskt coriander

Aðferð

 1. Bakið bringurnar í ofni við 180°C í um 25-30 mínútur. Fjarlægið skinnið, rífið kjúklinginn í strimla og setjið til hliðar.
 2. Afhýðið lauk, hvítlauk og engifer og saxið smátt.
 3. Fjarlægið ystu blöðin af sítrónugrasinu og saxið stilkinn smátt.
 4. Skrúbbið límónurnar vel upp úr köldu vatni, þerrið vel og rífið svo hýðið með milligrófu rifjárni.
 5. Hitið kókosolíuna í potti og setjið laukinn, hvítlaukinn, cumin fræin, coriander fræin, sítrónugrasið og límónubörkinn út í. Hitið varlega í 2-3 mínútur eða þangað til laukurinn fer að mýkjast. Notið vatn ef þarf meiri vökva.
 6. Bætið hrísgrjónunum og grænmetisteninginum við ásamt vatninu og látið suðuna koma upp. Setjið lok á pönnuna og látið réttinn krauma í um 30 mínútur og athugið þá með grjónin. Ef þau eru enn hörð og ef vatnið er gufað upp, bætið þá svolitlu vatni við (50 ml eða svo). 
 7. Setjið kjúklinginn og ferskt coriander saman við, kreistið safa úr hálfri sítrónu út í, hrærið létt og hitið í aðrar 7-10 mínútur eða þangað til kjúklingurinn er orðinn heitur í gegn og grjónin orðin soðin.

Gott að hafa í huga

 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
 • Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
 • Notið velferðarkjúkling ef þið mögulega getið.