Thailensk fiskisúpa

Þetta er svona uppskrift sem maður gerir bara um helgar eða þegar maður hefur nægan tíma því hún er dáldið tímafrek. Hún er reyndar alveg vel þess virði í lokin, alveg mátulega krydduð og ofsalega frískleg (án þess að vera eins og uppþvottalögur á bragðið)! Súpan hentar vel þeim sem hafa glúteinóþol og mjólkuróþol og er fín sem spennandi súpa fyrir t.d. saumaklúbbinn eða spilakvöldið.


Spennandi og bragðgóð fiskisúpa

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án eggja
 • Án hneta

Thailensk fiskisúpa

Fyrir 2-3

Innihald

 • 1 lítill biti engifer (eins og kirsuberjatómatur að stærð)
 • 1 stilkur sítrónugras (e. lemon grass)
 • Hálfur rauður chili pipar
 • Hálfur grænn chili pipar
 • 1 msk kókosolía
 • 250 ml kókosmjólk
 • 2 gerlausir grænmetisteningur
 • 5 steviadropar (án bragðefna) eða 1 msk agavesíróp
 • 3 msk fiskisósa (Nam Plah)
 • 1 lítri mjólk að eigin vali
 • 1 msk maísmjöl (maizenamjöl)
 • 250 g sjávarfang
 • Safi af 1 límónu
 • Salt (Himalaya- eða sjávarsalt)
 • Svartur pipar eftir smekk
 • Lófafylli ferskt coriander (má sleppa)

Aðferð

 1. Afhýðið engiferið og saxið smátt.
 2. Fjarlægið ystu blöð sítrónugrassins og saxið stilkinn mjög smátt.
 3. Skerið græna og rauða chili piparinn langsum, fræhreinsið og saxið smátt.
 4. Hitið kókosolíu í potti. Steikið sítrónugras, chili pipar og engifer í 8-10 mínútur eða þangað til sítrónugrasið og engiferið hefur brúnast og ilmur stígur upp.
 5. Bætið helmingnum af mjólkinni, afgrænmetisteningnum, steviadropum og fiskisósunni saman við. Hleypið upp suðu og látið malla í um 5 mínútur. Lækkið þá hitann.
 6. Hrærið maísmjölið saman við 2 matskeiðar af mjólkinni og bætið út í pottinn. Bætið því næst afganginum af mjólkinni út í. Hitið varlega og látið ekki sjóða.
 7. Bætið sjávarfanginu út í og hitið í 10-12 mínútur. Bætið kókosmjólkinni saman við.
 8. Á síðustu mínútunni áður en súpan er borin fram, bragðbætið hana þá með límónusafanum, fersku coriander og salti og pipar.
 9. Berið fram strax.

Gott að hafa í huga

 • Hægt er að bæta meira grænmeti eins og gulrótum, selleríi og fleira út í ásamt grjónum og núðlum til að gera súpuna matarmeiri.
 • Einnig er hægt að skipta út fiski og setja kjúklingastrimla í staðinn (notið velferðarkjúkling þ.e. free range).
 • Nota má lax, þorsk, ýsu, steinbít, lúðu, hörpuskel, rækjur o.fl. í réttinn.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum. Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
 • Ef afgangur er af kókosmjólkinni má frysta hana í ísmolabox og nota síðar, t.d. í svona súpur eða þeytinga.

Ummæli um uppskriftina

Róbert
01. mar. 2011

Vantar ekki 1/2 af vatni í uppskriftina?

sigrun
01. mar. 2011

Ertu að meina 1/2 lítra af vatni? Það má alveg bæta vatni við súpuna ef maður vill.