Tær og heitsúr sveppasúpa

Þessi kemur úr bók sem heitir Veggie Chic eftir Rose Elliot. Súpan er sérlega bragðgóð og þó að ég ætti ekki kaffir lime leaves eða enoki sveppi þá tókst hún rosa vel. Ég notaði aðra sveppi í staðinn og setti nokkur, söxuð spínatblöð í súpuna (það er eiginlega ekkert sem kemur í staðinn fyrir kaffir lime leaves svo það er betra að sleppa þeim). Að lokum setti ég hrísgrjónanúðlur út í til að gera hana matarmeiri en það má sleppa þeim. Jurtaætur ættu að athuga að í rauðu, thailensku kryddmauki sem maður kaupir gæti hugsanlega innihaldið rækjur svo það er um að gera að lesa innihaldslýsingu. Súpan er nokkuð sterk en þó ekki að mann svíði. Ef ykkur finnst sterkur matur ekki góður, þá má sleppa chili piparnum.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Tær og heitsúr sveppasúpa

Fyrir 2-3

Innihald

  • 3 stilkar sítrónugras (enska: lemon grass), marðir með kökukefli
  • 2 sm biti ferskt engifer, afhýtt og sneitt gróft
  • Safi af 1 límónu
  • 6 kaffir lime leaves (má sleppa)
  • 1,3 lítrar vatn
  • 1 msk agavesíróp
  • 1 tsk rautt, thailenskt kryddmauk
  • 125 g ferskir shiitake sveppir, sneiddir þunnt
  • 80 g oyster sveppir (eða chestnut sveppir), sneiddir þunnt
  • 1 rauður chili pipar, fræhreinsaður og sneiddur þunnt
  • Handfylli söxuð spínatblöð 
  • Safi af 1 sítrónu
  • 3-4 msk tamarisósa
  • 100-200 g hrísgrjónanúðlur eða sobanúðlur (má sleppa)

Aðferð

  1. Afhýðið engiferið og sneiðið gróft.
  2. Merjið sítrónugrasið með kökukefli eða buffhamri.
  3. Setjið sítrónugrasið, engiferið, agavesírópið og límónusafann í pott ásamt 1,3 lítrum af vatni. Látið sjóða í 10 mínútur.
  4. Takið af hitanum og látið standa með lokinu á, í a.m.k. 30 mínútur til að leyfa bragðinu að taka sig.
  5. Fjarlægið sítrónugrasið og engiferið og hitið súpuna upp aftur.
  6. Sneiðið sveppina.
  7. Skerið chili piparinn langsum og fræhreinsið. Saxið smátt.
  8. Bætið rauða karrímaukinu saman við ásamt sveppunum og chili piparnum.
  9. Rífið spínatið ofan í súpuna.
  10. Bætið sítrónusafanum og tamarísósunni saman við og látið malla í nokkrar mínútur.
  11. Bætið núðlum út í ef þær eru notaðar og látið þær sjóða í nokkrar mínútur, hrærið í pottinum af og til á meðan.
  12. Smakkið til með meiri tamarisósu og agavesírópi ef þarf.
  13. Berið fram strax.

Gott að hafa í huga

  • Bæta má meira grænmeti út í súpuna eins og t.d. baunaspírum, papriku, kúrbít o.fl. Einnig má setja maískorn eða grænar, frosnar baunir og tofu í súpuna.
  • Rautt karrímauk (thailenskt) er hægt að fá í flestum heilsubúðum sem og stærri matvöruverslunum. Gætið þess bara að sé ekki msg (monosodium glutamate, E-600 efni eða sykur í innihaldinu. Kaupið helst lífrænt framleitt mauk. Athugið að þau geta verið afar bragðsterk og geta innihaldið rækjumauk. Ef þið eruð jurtaætur (enska: vegan) eða með ofnæmi fyrir sjávarafurðum þurið þið að lesa innihaldið vel.
  • Ef þið frystið súpuna, frystið hana þá áður en þið setjið núðlurnar út í.
  • Nota má sojasósu í staðinn fyrir tamarisósu en athugið að sojasósan inniheldur hveiti.