Taco með sojahakki

Ég notaði sojakjötshakk í þennan rétt og það var mjög gott. Maður þarf bara að vera búinn að láta hakkið liggja í kryddlegi áður en maður útbýr réttinn (eins og þarf alltaf með sojakjöt). Það er best að láta hakkið liggja í grænmetiskrafti og svo einhverri sterkri mexikanskri sósu (sem þið ættuð að kaupa lífrænt framleidda í heilsubúð). Best er að leyfa hakkinu að marinerast í nokkrar klukkustundir (en 30 mínútur eru nægilegar).&; Ég kaupi tacoskeljarnar einnig í heilsubúðum.

Ég bý til mitt eigið guacamole og salsa en ef þið búið erlendis (t.d. London) er oft hægt að kaupa hvoru tveggja í heilsubúðum. Gott er að undirbúa guacamole og salsa deginum áður til að flýta fyrir sér.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án eggja
  • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án mjólkur
  • Vegan (fyrir jurtaætur)

Taco með sojahakki

Fyrir 3-4

Innihald

  • 150 g sojakjöt, hakkað (úr heilsubúð)
  • Nægilega mikið sjóðandi heitt vatn til að þekja sojakjötið
  • 200 g mexikönsk sósa (úr heilsubúð)
  • 1 gerlaus grænmetisteningur
  • Smá klípa svartur pipar af svörtum pipar
  • 12 tacoskeljar (úr heilsubúð) 
  • 6 sveppir, sneiddir þunnt
  • 2 niðursoðnir jalapeno pipar, sneiddir þunnt
  • 10 svartar ólífur, sneiddar
  • Nokkur blöð Lambhagasalat eða annað blaðsalat
  • 100 ml 5% sýrður rjómi (án gelatíns, frá Mjólku)
  • 150 ml guacamole (heimatilbúið eða úr heilsubúð)
  • 150 ml salsasósa (heimatilbúið eða úr heilsubúð)
  • 100 g magur ostur, rifinn
  • Svartur pipar eftir smekk

Aðferð

  1. Látið sojakjötið liggja í grænmetisteningi, mexikönsku sósunni og sjóðandi heitu vatni í nokkrar klukkustundir þannig að sojakjötið nái að draga vökva vel í sig).
  2. Sneiðið sveppina, jalapeno piparinn og ólífurnar. Setjið allt í sér skálar
  3. Rífið ostinn á rifjárni og setjið í skál.
  4. Steikið sveppina á stórri pönnu, upp úr svolitlu vatni og kryddið með pipar. Setjið í litla skál.
  5. Hreinsið salatblöðin og rífið smátt og setjið í litla skál.
  6. Setjið guacamole, salsasósu og sýrða rjómann í sér skálar.
  7. Setjið sojakjötið ásamt auka vökva ef einhver er á pönnuna og hitið vel eða þangað til mesti vökvinn er gufaður upp. Kryddið með pipar ef ykkur finnst þurfa.
  8. Hitið tacoskeljarnar í ofni samkvæmt leiðbeiningum (alls ekki steikja þær því þær innihalda nógu mikla fitu fyrir).
  9. Takið skeljarnar úr ofninum og setjið á stóran disk. Raðið skálunum með tilbúna hráefninu í kringum diskinn þannig að hver og einn geti raðað í sínar skeljar.

Gott að hafa í huga

  • Það er skemmtilegast að nota litríkar skálar undir allt hráefnið en auðvitað ekki nauðsynlegt.
  • Sojahakk er hakkað sojakjöt (fæst stundum dökkt að lit en oft stundum einungis ljóst). Kaupið óerfðabreytt sojakjöt (non-GMO) úr heilsubúð.
  • Tacoskeljarnar ættu að fást í heilsubúðum. Þær eiga að vera lífrænt framleiddar og án MSG og aukaefna.
  • Nota má AB mjólk, hreina jógúrt eða sojajógúrt í staðinn fyrir sýrða rjómann.
  • Nota má sojaost í staðinn fyrir venjulega ostinn.
  • Kaupið salsasósu, guacamole og mexikanska sósu í heilsubúð, þær sem fást í matvöruverslunum (þ.e. ekki lífrænt framleiddar) eru oft bölvað drasl.
  • Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
  • Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.