Sveskju- og cashewkonfekt

Þetta er mjög einfalt konfekt sem er líka afar hollt. Það er mikið af A vítamíni í sveskjum (sem breytist í Beta-Carotine í líkamanum) og þær eru einnig trefja- og járnríkar. Bæði plómur og þurrkaðar plómur (sveskjur) innihalda efni sem kallast neochlorogenic og chlorogenic acid (phenols). Þessi efni eru rík af andoxunarefnum. Sveskjur eiga líka að hjálpa til við að lækka blóðþrýsting og koma jafnvægi á blóðsykurinn. Einnig hjálpa sveskjur til við upptöku járns. Þetta er því sannkallað hollustukonfekt því að cashewhnetur eru líka bráðhollar (innihalda einómettaðar fitusýrur sem eru góðar fyrir hjartað)! Hafið í huga að sveskjurnar sem þið notið eiga að vera steinalausar. Einnig er handhægt að vita að maður getur flýtt fyrir sér með því að kaupa ristaðar, afhýddar og hakkaðar heslihnetur.

Athugið að nauðsynlegt er að nota matvinnsluvél fyrir þessa uppskrift.


Sveskju- og cashewkonfekt, alveg yfirþyrmandi hollt

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Vegan

Sveskju- og cashewkonfekt

Gerir 30-40 konfektmola

Innihald

  • 60 g heslihnetur (þurrristaðar og afhýddar) eða möndlur, saxaðar smátt
  • 180 g döðlur, saxaðar gróft
  • 80 g sveskjur, saxaðar gróft
  • 60 g cashewhnetur
  • 1 tsk kókosolía
  • 6 msk kakó (eða carob)
  • 6 msk agavesíróp eða hreint hlynsíróp (enska: maple syrup)
  • 30-40 g dökkt, lífrænt framleitt súkkulaði með hrásykri

Aðferð

  1. Ef þið notið heilar heslihnetur með hýði, þurristið þá hneturnar á heitri pönnu. Til að þurrrista á pönnu er best að hita hana á fullum hita og rista hneturnar í nokkrar mínútur eða þangað til hýðið fer að losna. Kælið og nuddið hýðinu af. Saxið hneturnar smátt.
  2. Saxið döðlur og sveskjur og leggið í bleyti í um 30 mínútur.
  3. Setjið cashewhnetur í matvinnsluvél og maukið í heila mínútu eða þangað til þær eru orðnar kekkjóttar og olíukenndar. Bætið kókosolíunni í dropum út í og látið vélina ganga í nokkrar sekúndar.
  4. Hellið vatninu af döðlunum og sveskjunum og maukið í matvinnsluvél ásamt cashewhnetumaukinu. Maukið þangað til allt hefur blandast vel saman.
  5. Bætið agavesírópi og kakói út í og blandið áfram í nokkrar sekúndur eða þangað til allt hefur maukast vel.
  6. Blandið heslihnetunum saman við og blandið í nokkra sekúndur.
  7. Ef deigið er of þurrt má setja nokkra dropa af appelsínusafa eða vatni út í.
  8. Setjið deigið í skál og geymið í kæli í um 2 klukkustundir (eða yfir nótt).
  9. Mótið kúlur (10-12 gr) úr deiginu.
  10. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði: Hitið vatn í potti (bara botnfylli) á vægum hita. Setjið skál ofan í sem situr á brúnum pottsins og brjótið súkkulaðið ofan í. Fylgist með því og hrærið öðru hvoru þangað til nánast bráðnað, takið þá af hitanum. Gætið þess að súkkulaðið ofhitni ekki og að ekki fari vatnsdropi ofan í súkkulaðiskálina.
  11. Dýfið toppi konfektsins ofan í súkkulaðið og setjið á disk á meðan súkkulaðið storknar.
  12. Bitarnir eru svolítið klístraðir en gott er að geyma þá á bökunarpappír eða plasti.
  13. Geymið í ísskáp.

Gott að hafa í huga

  • Til tilbreytingar má velta konfektmolunum upp úr kakói, fínmöluðu kókosmjöli, möndlumjöli o.s.frv.
  • Nota má cashewhnetumauk (enska: cashew butter) í staðinn fyrir cashewhneturnar (sama magn). Einnig má nota möndlumauk (enska: almond butter) eða möndlur. Maukin fást í heilsbúðum.
  • Nota má carob í stað súkkulaðis og kakós. Carob hentar þeim sem eru viðkvæmir fyrir örvandi efnum kakósins og hentar því börnum vel. Carob fæst í heilsubúðum og heilsuhillum matvöruverslana. Það fæst bæði sem duft (eins og kakó) og í plötum (eins og súkkulaði).
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.