Sveppasúpa
28. febrúar, 2003
Þetta er bara svona hefðbundin sveppasúpa, ekkert flókin en alveg rosalega góð og einn ódýrasti matur sem fyrir finnst held ég. Ég veit að það eru nokkrir notendur CafeSigrun sem nota þessa súpu á jólunum. Það eru góð meðmæli og gleður mig mikið! Súpan er án glúteins og hún hentar þeim sem eru vegan eða eru með mjólkuróþol eða mjólkurofnæmi.
Sveppasúpan fína, ódýr og góður matur
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Sveppasúpa
Fyrir 2-3
Innihald
- 2 litlir laukar
- 1,5 msk kókosolía
- 250 g sveppir
- 25 stk þurrkaðir sveppir (blandaðir)
- 1 lítri vatn
- 2 gerlausir grænmetisteningar
- 150 ml kókosmjólk
- 2 msk kartöflumjöl eða maizenamjöl
- 0,25 tsk múskat
- Svolítil klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)
- Fullt af svörtum pipar
Aðferð
- Afhýðið laukinn og saxið smátt.
- Saxið 200 g af sveppunum smátt (þá venjulegu, ekki þá þurrkuðu). Sneiðið afganginn í þunnar sneiðar og setjið til hliðar.
- Hitið kókosolíu í potti og steikið söxuðu sveppina og laukinn þangað til fer að mýkjast. Notið vatn ef vantar meiri vökva.
- Skolið þurrkuðu sveppina upp úr köldu vatni. Setjið þá svo í skál og hellið sjóðandi vatni yfir þá. Látið standa í 20 mínútur, skolið upp úr köldu vatni og kreistið því næst allt vatn úr þeim. Setjið sveppina til hliðar.
- Setjið grænmetisteningana og vatnið út í pottinn og látið malla við lágan hita í um 10 mínútur.
- Hrærið saman 2 msk af kókosmjólk og kartöflumjöli þangað til kekkjalaust og setjið út í súpuna. Hrærið vel. Hellið því næst öllu í matvinnsluvél (einnig má nota blandara eða töfrasprota) og maukið súpuna mjög vel.
- Á meðan súpan maukast skuluð þið steikja þurrkuðu sveppina sem og sveppina sem voru sneiddir. Hitið svolitla kókosolíu í pottinum og steikið sveppina þangað til brúnaðir. Saltið örlítið. Hellið því næst maukuðu súpunni út í pottinn ásamt kókosmjólkinni og hitið allt saman í nokkrar mínútur án þess að sjóði.
- Kryddið súpuna með múskati og pipar.
- Ef súpan er of bragðmikil má þynna með vatni eða mjólk að eigin vali.
Gott að hafa í huga
- Við áttum smá súpu í afgang einhvern tímann og ég bætti soðnum hrísgrjónum og frosnum, grænum baunum útí. Það var bara hin prýðilegasta súpa og örugglega allt í lagi að bæta t.d. blómkáli, spergilkáli, gulrótum, pasta og fleiru út í. Upplagt til að drýgja grænmetisafgangana í ísskápnum!!
- Berið súpuna fram með grófu snittubrauði.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Nota má aðra olíu en kókosolíu t.d. ólífuolíu.
- Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
- Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
- Nota má hafrarjóma eða sojarjóma í staðinn fyrir kókosmjólk. Einnig má nota matreiðslurjóma ef þið eruð ekki með ofnæmi eða ekki vegan.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024
Ummæli um uppskriftina
23. jan. 2011
Þessi súpa er alveg himnesk :) Ég átti að vísu ekki rjóma þannig að ég sleppti honum og notaði mjólk í staðinn... en það virtist ekki koma að sök því súpan var einstaklega ljúffeng og í alla staði dásamleg :)
23. jan. 2011
Gaman að heyra Ingibjörg og takk fyrir að deila með okkur :)
30. jan. 2014
Frábær súpa. Ég á eftir að gera hana aftur, umm
30. jan. 2014
Æðislegt Þurý, gaman að heyra :)