Sveitabrauð
5. mars, 2003
Þetta er svolítið sveitalegt speltbrauð og er alveg æðislegt beint úr ofninum, nýbakað. Þetta trefjaríka og seðjandi brauð passar líka vel með súpum og pottréttum en er best heitt úr ofninum með osti ofan á. Brauðið er án mjólkur og hentar því vel þeim sem eru með mjólkuróþol. Ég veit svo sem ekki hvað felst í því að vera „sveitalegt” brauð, því ekki er fjósalykt af því, eða grasbragð eða neitt slíkt. Kannski er það „sveitalegt” af því það er upplagt fyrir duglegt fólk sem er nýkomið inn úr kuldanum, búið að sinna búfénu og er tilbúið að taka vel til matar síns. Það dugir ekkert hvítt aumingjabrauð fyrir svoleiðis fólk, það þarf alvöru mat.
Þessi uppskrift er:
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Sveitabrauð
Gerir 1 brauð
Innihald
- 300 g spelti
- 2 msk vínsteinslyftiduft
- 80 g hveitiklíð
- 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
- 1 msk hörfræ
- 55 g sólblómafræ
- 20 g sesamfræ
- 3 msk birkifræ (má sleppa)
- 300-400 ml sojamjólk (gæti þurft minna eða meira) eða önnur mjólk
- 1 msk sítrónusafi
- 1 msk agavesíróp
Aðferð
- Blandið saman sítrónusafanum og um 300 ml af sojamjólkinni. Látið standa á borðinu þangað til mjólkin fer að mynda kekki (í um 15 mínútur).
- Hrærið saman speltinu, hveitiklíðinu, saltinu, vínsteinlyftiduftinu og fræjunum í stórri skál.
- Setjið agavesíróp út í sítrónublönduna og hrærið vel. Hellið út í þurrefnin smátt og smátt. Ekki hræra of mikið (aðeins 8-10 sinnum). Bætið meiri vökva út í ef þarf. Deigið á að vera þannig að það sé nokkuð blautt, en má t.d. ekki leka hratt af sleif og ekki það þurrt að hægt sé að hnoða það.
- Klæðið brauðform með bökunarpappír.
- Setjið deigið í brauðformið (passið að það fylli vel í alla kanta).
- Bakað við 180°C í um 45-50 mínútur eða þar til brauðið er orðið fallega brúnt.
Gott að hafa í huga
- Síðustu 10 mínúturnar er gott að taka brauðið úr forminu og setja það á hvolf inn í ofninn því þá kemur hörð skorpa á botninn líka.
- Tékkið á brauðinu eftir 40 mínútur með því að stinga prjóni inn í brauðið. Ef hann kemur hreinn út er brauðið tilbúið, ef ekki bakið þá aðeins lengur.
- Nota má önnur fræ en hörfræ. T.d. er gott að nota sesamfræ, graskersfræ, sólblómafræ o.fl.
- Í staðinn fyrir sojamjólk getið þið einnig notað haframjólk, hrísmjólk, möndlumjólk eða undanrennu.
- Ef þið notið súrmjólk, AB mjólk eða jógúrt má sleppa sítrónusafanum.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2025
Ummæli um uppskriftina
29. apr. 2011
Hæ,
Þetta brauð er æðislegt og meira að segja börnin mín sem virðast bara borða hvítt brauð, finnst þetta frábært brauð nýbakað.
kv,
Andrés
29. apr. 2011
Þetta er frábært brauð sem meira að segja börnin mín klára á 5 mínútum þegar nýbakað....
30. apr. 2011
Gaman að heyra Andrés og sérstaklega að börnunum líki við brauðið :)
02. des. 2011
Hae Sigrun,
sonur minn er med einhverfu og er med med mjog erfida diet...att tu mogulega einhverja goda uppskrift af braudi med rugmjoli?
Fyrirgefdu boggid....by the way tu ert alveg storkostleg og tinar uppskriftir hafa oft hjalpad mer mikid.
Kaer kvedja
Fanney
02. des. 2011
Sæl Fanney
Þú getur notað rúgmjöl á móti speltinu en ég veit ekki hvort sonur þinn þolir spelti? Til dæmis í uppskriftinni hér að ofan gætirðu notað 50/50 rúgmjöli og spelt (og haldið öðru óbreyttu). Yfirleitt er það betra upp á bragð og teygjanleika í brauði. Ef hann má ekki fá spelti, sendu mér þá línu. Þú getur líka sent mér póst á sigrun@cafesigrun.com.
28. apr. 2012
Sæl Sigrún, takk fyrir frábæra síðu. Hún er ómetanleg þegar maður stendur í því að taka mataræðið í gegn á heimilinu.
Ég velti því fyrir mér á hvaða stigi maður blandar sítrónusafablönduðu mjólkinni í degið eða blandar maður því við soya og agave blönduna?
28. apr. 2012
Sæl Svandís
Ég er búin að uppfæra uppskriftina þannig að hún er núna skýrari :) Þú blandar sem sagt sítrónu-mjólkurblöndunni saman við hinn vökvann og hellir svo út í þurrefnin :) Vona að þetta sé skýrara svona.
08. júl. 2012
Sæl Sigrún
Ég á dóttur sem er 11 mán og er með hægðatregðu. Mig vantar svo uppskrift af mjög trefjaríku brauði ekki með eggi.
09. júl. 2012
Ég myndi fara varlega í því að gefa henni mjög trefjaríkt brauð þar sem glúteinið + miklar trefjar gætu farið illa í meltinguna. Persónulega myndi ég frekar gefa barninu sveskjugraut til að byrja með og ásamt því gætirðu útbúið t.d. þetta brauð. Trefjar geta verið varhugaverðar litlum börnum svo ég myndi ráðfæra mig við lækni/næringarfræðing ungbarna eða ungbarnavernd áður en lengra er haldið.