Sumarlegt salat með appelsínum og vatnsmelónu
4. ágúst, 2008
Þegar maður borðar þetta salat finnur maður eiginlega hollustuna streyma um sig enda er salatið algjör heimsmeistari í hollustu. Svo getur maður skipt út hráefni og bætt við. Til dæmis er upplagt að nota blá vínber, bláber, ristaðar möndluflögur, baunaspírur, rauðkál, döðlur, graslauk, parmesanost, fetaost og eiginlega allt sem ykkur dettur í hug. Salatið er einstaklega litríkt og skemmtilegt og er afar gaman að bera það fram í matarboðum enda lifnar alltaf yfir fólki. Það sem er líka gaman að gera er að undirbúa allt hráefni, setja í margar skálar og leyfa fólki að raða í sitt eigið salat. Salatið er líka meiriháttar gott í nestisboxið.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Vegan
Þessa uppskrift er auðvelt að gera:
- Án hneta
Sumarlegt salat með appelsínum og vatnsmelónu
Fyrir 4 sem meðlæti
Innihald
- 1 haus Lambhagasalat eða blandað salat (eikarlauf, klettasalat o.s.frv.)
- 1 poki blandað salat (t.d. eikarlauf, klettasalat eða það sem ykkur finnst best)
- Hálf vel sæt appelsína, skræld og söxuð í bita
- 2 gulrætur, sneiddar í ræmur (eins og tannstöngla), einnig má rífa gulræturnar á rifjárni
- 1 rauð paprika, söxuð gróft
- Fjórðungur vatnsmelóna, fræhreinsuð og söxuð gróft
- 1 lúka cashewhnetur eða möndluflögur, þurrristaðar á pönnu
- 1 avocado, vel þroskað. Afhýtt og saxað gróft (undirbúið alveg í lokin)
Aðferð
- Skolið salatblöðin og tætið gróft.
- Skrælið appelsínuna og saxið í bita. Fjarlægið steina ef einhverjir eru.
- Skrælið gulræturnar og sneiðir í ræmur (tannstöngla) eða rífið gróft á rifjárni.
- Skerið paprikuna í helminga, fræhreinsið og saxið gróft.
- Skerið kjötið úr fjórðung af vatnsmelónu. Fræhreinsið ef einhver fræ eru til staðar og saxið gróft.
- Þurrristið cashewhneturnar á heitri pönnu (án olíu) í um 5 mínútur). Kælið aðeins.
- Þurrristið möndluflögurnar á heitri pönnu (án olíu) í um 20 sekúndur). Kælið aðeins.
- Afhýðið avocadoið, fjarlægið steininn og saxið gróft.
- Setjið allt hráefnið varlega í stóra skál. Blandið varlega með fingrunum eða salatskeiðum.
Gott að hafa í huga
- Berið fram með léttri salatsósu.
- Nota má heilar möndlur, ferskar kryddjurtir, heslihnetur, kjúklingabaunir, nýrnabaunir, kotasælu, fetaost, parmesan, appelsíngula/gula paprikur, Brasilíuhnetur, ólífur og margt fleira í salatið.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024