Sultað engifer í sushigerð (gari)

Sultað engifer (pickled ginger) með sushi er alveg ómissandi. Ólíkt því sem margir halda á ekki að borða engifer ofan á/samhliða sushibitunum heldur neytir maður engifersins á milli sushibita, til að hreinsa bragðlaukana. Því er mikilvægt að engiferbragðið fái að njóta sín og sé ekki of sætt eins og oft vill vera í keyptu engiferi. Bragðið á að vera sætbeiskt, ekki of beiskt en mátulega sætt. Þegar þið smakkið hrísgrjónaedikið til, ætti það að vera allt of sætt því beiska bragðið af engiferinu mun milda sætubragðið þegar það blandast. Keypta engiferið í krukkum og pokum er aftur á móti dísætt með litlu engiferbragði og er oft hlaðið litarefnum, rotvarnarefnu, bragðefnum og gervisætu. Ekki beint það sem maður tengir við ferkst hráefni eins og sushi á að vera. Ég hef í allmörg ár, eða allt frá því við heimsóttum Japan 2007, útbúið mitt eigið engifer og ég verð að segja, að mér finnst það besta engifer í heimi. Að mínu mati og líka þeirra sem ég hef fengið í sushiboð í gegnum árin....og þau eru orðin aaaaaaaallllmörg. Nauðsynlegt er að eiga lítið mandólín (hníf sem lítur út eins og ostaskeri með flugbeittu blaði sem sker örþunnar sneiðar). Einnig má nota stærri gerðina af mandólíni en sú minni er nægilega stór. Ég hef keypt minni gerðina í stærri húsbúnaðarverslunum. 

Gott er að kaupa engifer sem er stórt, heilt, stinnt og þungt. Hafið einnig í huga að hlutföll hráefnanna getur verið mismunandi og gæti þurft meira edik en ég gef upp hér t.d. ef engiferið er mjög þunnt skorið.


Heimatilbúið, sultað engifer (pickled ginger) í sushi

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Sultað engifer í sushigerð (gari)

Gerir um 6 krukkur af engiferi

Innihald

  • 200 g ferskt engifer
  • 40-50 dropar stevia án bragðefna
  • 300 ml hrísgrjónaedik (e. rice vinegar)
  • 1 tsk salt (Himalaya- eða sjávarsalt)
  • Nokkrar hreinar glerkrukkur (um 250 ml hver)

Aðferð

  1. Byrjið á því að afhýða engiferið. Best er að nota lítinn grænmetishníf. 
  2. Rífið engiferið á mandólíni, mjög þunnt eða um 0,5 mm eða svo. Gætið þess að rífa í áttina sem trefjaþræðirnir liggja, ekki þvert á þá. Passið puttana!
  3. Blandið saman stevia, hrísgrjónaediki og salti. Smakkið til og bætið stevia dropum út í ef þarf. Blandan á að vera ofboðslega sæt. Setjið til hliðar. 
  4. Setjið vatn í tvo potta (þar af einn stóran) og látið suðuna koma upp.
  5. Setjið engiferið í minni pottinn og glerkrukkurnar í stærri pottinn. Látið sjóða í báðum pottum í um 10 mínútur.
  6. Hellið engiferið í sigti og látið vatnið renna af.
  7. Á meðan vatnið lekur af engiferinu skuluð þið veiða krukkurnar upp úr pottinum. Látið vatnið leka af krukkunum og fyllið þær 3/4 af engiferi. Fyllið svo krukkurnar með hrísgrjónaediksblöndunni. 
  8. Geymist í kæliskáp í um 12 mánuði ef krukkan er óopnuð. 

Gott að hafa í huga

  • Hrísgrjónaedik fæst í flestum stærri matvöruverslunum (í austurlenska matvöruhlutanum). 

Ummæli um uppskriftina

gestur
24. sep. 2015

Frábært Sigrún. Ég elska sushi engifer og nota mikið af engiferi í matargerð mina en hefur ekki dottið í hug að sulta það. Takk fyrir þessa uppskrift. Hún verður notuð hér á þessu litla heimili í Portugal og kannski fæ ég vini mina til að breyta aðeins til.
Kveðja
Hulda

sigrun
24. sep. 2015

Vona að takist vel til og að vinirnir verði kátir með engiferið :)