Súkkulaðimuffins

Hollir og góðir, einfaldir og þægilegir, alltaf góð blanda. Upplagt er að frysta helling af muffinsunum og taka svo með sér þegar maður er á hlaupum!!!! Ég geri þessa muffinsa gjarnan að vetri til og oft þegar ég finn að ég er orðin óvenju þreytt. Járnið í kakóinu/súkkulaðinu hressir mig alltaf við og ekki síst ef ég drekk appelsínusafa með. Það er að minnsta kosti góð afsökun fyrir því að raða súkkulaðimuffinsum í sig!

Athugið að í dökku súkkulaði getur verið mjólk svo lesið vel á umbúðir ef þið hafið mjólkuróþol.

Þessi uppskrift er:

  • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án mjólkur

Súkkulaðimuffins

Gerir 8-10 stóra muffinsa

Innihald

  • 70 g dökkt, lífrænt framleitt súkkulaði, með hrásykri, saxað smátt
  • 125 g spelti
  • 25 g kakó
  • 2 tsk vínsteinslyftiduft
  • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 1 egg
  • 80 g rapadura sykur (eða annar hrásykur)
  • 200 ml hrein sojajógúrt (eða venjuleg jógúrt)
  • 2 msk agavesíróp
  • 50 ml sojamjólk (eða önnur mjólk), ef þarf
  • 1 msk kókosolía
  • 1 tsk vanilludropar úr heilsubúð

Aðferð

  1. Saxið súkkulaðið smátt.
  2. Sigtið saman í stóra skál; spelti kakó, lyftiduft og salt. Hrærið vel.
  3. Í annarri skál skuluð þið blanda saman rapadura hrásykri, jógúrti, vanilludropum, agavesírópi, kókosolíu og eggi. Hrærið vel og hellið út í stóru skálina. Hrærið afar varlega (bara um 7-8 hreyfingar). Deigið á að vera það blautt að það leki af sleif í stórum kekkjum en ekki t.d. það þurrt að hægt sé að hnoða það. Ef deigið er of þurrt bætið þá sojamjólkinni saman við.
  4. Bætið súkkulaðinu út í og hrærið varlega (2-3 hreyfingar).
  5. Takið til silicon muffinsform. Setjið nokkra dropa af kókosolíu í eldhúsþurrku og strjúkið holurnar að innan.
  6. Fyllið hverja holu nánast upp að rönd með deigi. Gott er að nota ískúluskeið.
  7. Bakið við 180°C í um 20-25 mínútur.

Gott að hafa í huga

  • Ef maður notar ekki olíu eða smjör í deigið þá getur maður hvorki notað venjuleg muffins pappírsform, né muffinsbökunarplötu úr járni. Það fást sem sé ekki muffins pappírsform sem maður getur bakað í án þess að þurfa að nota smjör eða olíu í deigið. Það sem þið getið gert er að sníða hringi úr bökunarpappír. Strikið með penna utan um undirskál og klippið út. Setjið svo í hverja muffinsholu. Það er hægt að nota muffinspappírinn í allt að sex skipti. Ef þið notið silicon muffinsform þurfið þið ekki bökunarpappír.
  • Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má hreint hlynsíróp (enska: maple syrup) í staðinn fyrir agevesíróp.
  • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
  • Gott er að setja svolítið af söxuðum valhnetum út í deigið.
  • Nota má carob í stað súkkulaðis og kakós. Carob hentar þeim sem eru viðkvæmir fyrir örvandi efnum kakósins og hentar því börnum vel. Carob fæst í heilsubúðum og heilsuhillum matvöruverslana. Það fæst bæði sem duft (eins og kakó) og í plötum (eins og súkkulaði).
  • Athugið að dökkt súkkulaði inniheldur yfirleitt mjólk, lesið ávallt innihaldslýsingu ef þið eruð með óþol/ofnæmi. Hægt er að nota mjólkurlaust súkkulaði í staðinn.