Súkkulaðikrem á köku
24. janúar, 2006
Fínt krem á flestar kökur. Það er ekki oft sem súkkulaðikrem er beinlínis hollt en hér er krem sem nota má með góðri samvisku og inniheldur meira að segja járn og andoxunarefni og fleira gott fyrir okkur! Til að fá minna súkkulaðibragð skal nota minna af kakói (eðlilega he he). Einnig má nota carob í stað súkkulaðis. Kremið er glúteinlaust, mjólkurlaust, inniheldur engan hvítan sykur og er án eggja.
Nota má annað hvort matvinnsluvél eða blandara til að útbúa þessa uppskrift. Ef þið eigið ekki svoleiðis tæki til getið þið hrært öllu kröftuglega saman.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Súkkulaðikrem á köku
Á eina kringlótta köku
Innihald
- 4-5 msk kakó eða carob
- 2 bananar, mjög vel þroskaðir
- 2 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
- 1-2 msk kartöflumjöl
- 1 msk kaffi (ég nota koffeinlaust), má sleppa
- 2-3 tsk agavesíróp
Aðferð
- Blandið öllu saman í matvinnsluvél og kælið í um klukkustund. Ef kremið er enn þá of mjúkt bætið þá aðeins meira af kartöflumjölinu saman við.
- Smyrjið kreminu á kökuna þegar það hefur stífnað aðeins.
Gott að hafa í huga
- Nota má carob í stað kakós. Carob hentar þeim sem eru viðkvæmir fyrir örvandi efnum kakósins og hentar því börnum vel. Carob fæst í heilsubúðum og heilsuhillum matvöruverslana. Það fæst bæði sem duft (eins og kakó) og í plötum (eins og súkkulaði).
- Nota má hlynsíróp í stað agavesíróps.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024