Súkkulaðibitakökurnar hennar Lísu Hjalt

Lísu Hjalt eru flestir farnir að þekkja sem nota þennan vef en hún á m.a. uppskriftina af Frönsku súkkulaðikökunni sem er svo hriiiiiikalega góð.

Hún hefur hér gert aldeilis frábærar súkkulaðibitakökur sem eru þannig að þeir sem borða þær hlaupa beint í ísskáp og fá sér mjólk með (vísbending um góðar súkkulaðibitakökur). Þetta eru nefnilega alvöru súkkulaðibitakökur en án allrar óhollustunnar. Þær eru svo sem ekki magrar en t.d. í staðinn fyrir 200 grömm af súkkulaði, 100 grömm af smjöri og eitthvað álíka af hvítum sykri þá notar Lísa döðlur, agave, rapadura hrásykur, hnetur, kókosolíu og fleira góðgæti....allt í anda CafeSigrun!. Ég nota 50 grömm af heslihnetum á móti speltinu í kökurnar en nota má spelti í staðinn. Aldeilis frábærar kökur! Súkkulaðibitakökurnar eru mjólkurlausar (svo lengi sem þið notið dökkt súkkulaði án mjólkur) en nota má mjólkursúkkulaði í staðinn.

Nauðsynlegt er að nota matvinnsluvél til að útbúa þessa uppskrift.


Syndsamlega góðar en hollar súkkulaðibitakökur

Þessi uppskrift er:

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án mjólkur

Súkkulaðibitakökurnar hennar Lísu Hjalt

Gerir 35-40 kökur

Innihald

 • 10 döðlur, saxaðar gróft (leggið í bleyti í 30 mínútur)
 • 40 g pecanhnetur, saxaðar
 • 50 g dökkt, lífrænt framleitt súkkulaði, með hrásykri
 • 75 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
 • 50 g heslihnetur
 • 50 g spelti
 • 1 tsk bökunarsódi
 • 4 msk kakó
 • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • 2 msk agavesíróp
 • 2 msk hnetusmjör (lífrænt framleitt, án sykurs)
 • 1 egg
 • 4 msk kókosolía
 • 1 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)

Aðferð

 1. Leggið döðlurnar í bleyti í 30 mínútur.
 2. Saxið pecanhneturnar og súkkulaði smátt.
 3. Þurrristið heslihneturnar í 5-10 mínútur á heitri pönnu. Nuddið hýðið af.
 4. Malið heslihneturnar í matvinnsluvél í um 30 sekúndur eða þangað til þær eru fínmalaðar.
 5. Blandið saman í stóra skál: heslihnetum, spelti, kakói, bökunarsóda og salti.
 6. Hrærið saman í skál: eggi, hrásykri, vanilludropum, kókosolíu og hnetusmjöri.
 7. Hellið vatninu af döðlunum og setjið döðlurnar í matvinnsluvélina ásamt agavesírópinu. Blandið í um 30 sekúndur eða þangað til vel maukað.
 8. Hellið hrásykursblöndunni út í speltblönduna.
 9. Bætið döðlumaukinu út í deigið og hrærið aðeins.
 10. Bætið saxaða súkkulaðinu og pecanhnetunum saman við og hrærið aðeins (ekki of mikið, bara rétt velta deiginu við).
 11. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu.
 12. Setjið 1 kúfaða teskeið af deigi í einu á plötuna. Hafið svolítið bil á milli.
 13. Bakið við 170° í 7-10 mínútur.

Gott að hafa í huga

 • Nota má sesamfræ í deigið.
 • Nota má valhnetur í staðinn fyrir pecanhnetur.
 • Nota má mjólkursúkkulaði í staðinn fyrir dökkt súkkulaði.
 • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
 • Nota má carob í stað súkkulaðis og kakós. Carob hentar þeim sem eru viðkvæmir fyrir örvandi efnum kakósins og hentar því börnum vel. Carob fæst í heilsubúðum og heilsuhillum matvöruverslana. Það fæst bæði sem duft (eins og kakó) og í plötum (eins og súkkulaði).
 • Athugið að dökkt súkkulaði inniheldur yfirleitt mjólk, lesið ávallt innihaldslýsingu ef þið eruð með óþol/ofnæmi. Hægt er að nota mjólkurlaust súkkulaði í staðinn.
 • Ég bý til mitt eigið hnetusmjör en nota má eitthvað gott lífrænt framleitt hnetusmjör án sykurs. Kaupið hnetusmjör úr heilsubúð. Nota má gróft eða mjúkt hnetusmjör. Einnig er afar gott að nota cashewhnetumauk (enska: cashew butter) eða möndlusmjör (enska: almond butter).

Ummæli um uppskriftina

Ingibjörg
11. des. 2010

Var að baka þessar, þær eru algjört æði. Á potþétt eftir að baka þær aftur fyrir jól þar sem þær eiga eftir að klárast fljótt! Kv. Ingibjörg

sigrun
11. des. 2010

Frábært að heyra Ingibjörg :)

unnsadans
12. des. 2010

þessi uppskrift er algjört æði:) besta smákökuuppskrift sem ég hef fundið:)

sigrun
12. des. 2010

Gaman að heyra....og ég verð eiginlega að vera sammála :)

Sara Björg
23. apr. 2011

Er bökunarsódi það sama og matarsódi?

sigrun
23. apr. 2011

Já, sama...

Þóra Hrönn
15. jún. 2011

Eiga þær að vera stökkar?
Mér gengur illa að baka stökkar smákökur.

Þóra Hrönn
15. jún. 2011

Getur ástæðan verið að þær verða ekki stökkar hjá mér
að ég nota xylitol sykur í staðin fyrir hrásykur og hunang í
staðin fyrir agave. Hrásykur og agave er ekki leyfilegt á mínu heimili v/candida.

sigrun
15. jún. 2011

Þær eiga að vera stökkar já. Mig grunar að hunangið sé ástæðan fyrir því að þær verði ekki stökkar (xylitolið á ekki að skipta mál, þær eiga að verða jafn stökkar með því).....Passaðu líka að baka þær nægilega lengi (en án þess að þær verði þurrar eða brenndar). Oft hjálpar að bæta 10 mín við bökunartímann og lækka hitann á bakstursofninum um 20-30°C.

Kveðja

Sigrún