Súkkulaði- og kókosnammi

Þetta er einfalt og þægilegt konfekt að búa til og upplagt til að eiga í ísskápnum þegar gesti ber að garði. Nota má döðlur í stað rúsína en einnig má nota saxaðar aprikósur, þurrkuð epli og margt fleira. Þeir sem hafa mjólkuróþol ættu að athuga innihaldslýsingu í súkkulaðinu. Ég nota alltaf dökkt súkkulaði sjálf en nota má mjólkursúkkulaði eða jafnvel carob.


Súkkulaði- og kókosnammi....unaðslegt

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án eggja
 • Án hneta en með fræjum

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án mjólkur
 • Vegan (fyrir jurtaætur)

Súkkulaði- og kókosnammi

Gerir um 35-40 stykki

Innihald

 • 150 g dökkt, lífrænt framleitt súkkulaði með hrásykri
 • 80 g rúsínur
 • 70 g sólblómafræ
 • 45 g kókosflögur (meira ef þarf)

Aðferð

 1. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði: Hitið vatn í potti (bara botnfylli) á vægum hita. Setjið skál ofan í sem situr á brúnum pottsins og brjótið súkkulaðið ofan í. Fylgist með því og hrærið öðru hvoru þangað til nánast bráðnað, takið þá af hitanum. Gætið þess að súkkulaðið ofhitni ekki og að ekki fari vatnsdropi ofan í súkkulaðiskálina. Látið súkkulaðið kólna aðeins í nokkrar mínútur.
 2. Setjið rúsínur, sólblómafræ og kókosflögur í stóra skál og hellið súkkulaðinu yfir. Hrærið vel. Blandan verður svolítið þunn og laus í sér en mun stífna vel í ísskápnum. Ef ykkur finnst blandan allt of þunn getið þið bætt aðeins meiru af kókosflögunum við. Gott er að mylja þær eilítið.
 3. Setjið bökunarpappír á disk eða bökunarplötu. Búið til litlar hrúgur úr blöndunni með teskeið og setjið á pappírinn.
 4. Setjið í ísskáp og kælið í um 30 mínútur.

Gott að hafa í huga

 • Nota má mjólkursúkkulaði (ef þið hafið ekki óþol), carob, appelsínusúkkulaði, piparmyntusúkkulaði, allt eftir því hvað ykkur finnst gott. Mér finnst súkkulaði frá Rapunzel og Green & Black's mjög gott.
 • Athugið að dökkt súkkulaði inniheldur yfirleitt mjólk, lesið ávallt innihaldslýsingu ef þið eruð með óþol/ofnæmi. Hægt er að nota mjólkurlaust súkkulaði í staðinn.
 • Nota má smátt saxaðar döðlur, rúsínur, aprikósur o.fl. í staðinn fyrir rúsínur.
 • Nota má carob í stað súkkulaðis og kakós. Carob hentar þeim sem eru viðkvæmir fyrir örvandi efnum kakósins og hentar því börnum vel. Carob fæst í heilsubúðum og heilsuhillum matvöruverslana. Það fæst bæði sem duft (eins og kakó) og í plötum (eins og súkkulaði).