Súkkulaði- og berjakaka (hráfæðiskaka)

Það er dásamlegt að eiga til eina svona í frystinum sem maður getur gripið til ef gestir kíkja við eða bara þegar græðgin nær yfirhöndinni. Kakan er einstaklega frískleg og bragðgóð og auðvitað stútfull af hollri fitu og góðri næringu. Hún er ofsalega orkurík svo þess vegna gef ég upp magnið sem fyrir 10-12 manns, maður þarf litla sneið af kökunni til að verða saddur. Athugið að cashewhneturnar þurfa að liggja í bleyti í um 4-8 klukkustundir svo best er að byrja á kökunni daginn áður en þið ætlið að bera hana fram. Nota þarf 18 cm, djúpt lausbotna form. Einnig má gera 15 cm köku sem er þykkari. Mikilvægt er að kókosolían sé fljótandi og hlynsírópið sé við stofuhita. Einnig er mikilvægt að matvinnsluvélin eða blandarinn skili hnetunum sem silkimjúku mauki til að áferð kökunnar verði sem best. 
 

Kakan þarfnast ákveðins nosturs svo best er að gefa sér góðan tíma í að undirbúa hana, hún þarf að kólna á milli laga og svo þarf að setja hana saman. En kakan er algjörlega þess virði!


Dásemdarkaka (hráfæðis) bragðgóð og fersk

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Vegan
 • Hráfæði

Súkkulaði- og berjakaka (hráfæðiskaka)

Eina köku fyrir 10-12 manns

Innihald

Botn

 • 145 g möndlumjöl
 • 60 g mjúkar döðlur
 • 25 g kakó
 • 1 msk kókosolía
 • 2-3 msk appelsínusafi eða vatn

Grunnlag (skiptist í 3 hluta)

 • 240 g cashewhnetur
 • 60 ml hreint hlynsíróp
 • 5 msk sítrónusafi
 • 125 ml kókosolía
 • 2 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
 • Smá klípa salt (Himalaya- eða sjávarsalt)

Súkkulaðilag

 • 25 g kakó
 • 1 msk hlynsíróp
 • 1 msk kókosolía
 • ½ tsk vanilludropar (úr heilsubúð)

Berjalag

 • 125 g frosin jarðarber, hindber, brómber eða blönduð ber

Súkkulaðikrem

 • 2 msk kakó
 • 1 msk kókosolía
 • 1 msk hreint hlynsíróp
 • 2 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
 • Smá klípa salt (Himalaya- eða sjávarsalt)

Til skreytingar

 • Kakónibbur og/eða fersk ber

Aðferð

 1. Leggið cashewhneturnar í bleyti í 4-8 klukkustundir.
 2. Byrjið á botninum: Steinhreinsið döðlurnar og setjið í matvinnsluvél ásamt möndlumjöli, kakói og kókosolíu. Blandið í um 10 sekúndur eða þangað til botninn er orðinn fínkornóttur og helst vel saman ef deigið er klipið saman á milli fingranna. Ef botninn er þurr er gott að bæta appelsínusafa eða vatni saman við og blanda í nokkrar sekúndur. Skafið hliðar skálarinnar og blandið í nokkrar sekúndur til viðbótar. Klæðið formið að innan með plastfilmu. Þrýstið þétt og jafnt ofan í botninn á forminu og setjið formið svo til hliðar.  Athugið að engu máli skiptir í hvaða röð hvert lag fer en eftirfarandi röð er þægilegust upp á þrif á matvinnsluvélarskálinni.
 3. Næst skuluð þið undirbúa grunnlagið: Þrífið matvinnsluvélarskálina vel. Hellið vatninu af cashewhnetunum og setjið þær í matvinnsluvélina ásamt hlynsírópi, sítrónusafa, vanilludropum og salti. Blandið í nokkrar mínútur eða þangað til silkimjúkt. Skafið hliðar skálarinnar og látið vélina vinna áfram í nokkrar mínútur. Á meðan hún vinnur skuluð þið hella kókosolíunni í mjórri bunu ofan í. Skafið hliðarnar aftur ef þörf er á og látið vélina vinna áfram í 1-2 mínútur. Skiptið nú blöndunni í þrjá jafnstóra hluta, setjið tvo hluta í sér skálar og skiljið þann síðasta eftir í matvinnsluvélarskálinni.
 4. Hellið einu laginu strax ofan á botninn, jafnið vel út og setjið í frystinn í um 1 klukkustund. Strjúkið aðeins innan úr matvinnsluvélarskálinni.
 5. Núna skuluð þið undirbúa berjalagið: Setjið frosnu berin í matvinnsluvélina ásamt einum skammti af grunnlaginu og blandið í um 1-2 mínútur eða þangað til nokkurn veginn maukað. Þegar grunnlagið er nokkuð frosið skuluð þið hella berjalaginu ofan á og jafna vel út. Frystið í 1 klukkustund.
 6. Því næst skuluð þið undirbúa súkkulaðilagið: Hrærið (með skeið eða í matvinnsluvélinni) síðasta skammtinum af grunnlaginu saman við kakó, hlynsíróp, kókosolíu og vanilludropa. Hellið ofan á berjalagið og jafnið vel út. Frystið í um 1 klukkustund. 
 7. Að síðustu skuluð þið undirbúa súkkulaðikremið: Hrærið saman kakói, kókosolíu, hlynsírópi, vanilludropum og salti. Þegar kakan er orðin nokkuð stíf og frosin skuluð þið sprauta kreminu yfir kökuna. Dreifið kakónibbum yfir kökuna og ef til vill ferskum berjum. Geymið í frysti og takið út um 30 mínútum áður en á að bera hana fram.

Gott að hafa í huga

 • Kakan mýkist fljótt á borði svo berið hana fram kalda. Kakan geymist í nokkrar vikur í ísskápnum.
 • Nota má bláber í staðinn fyrir hin berin. 
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.

Ummæli um uppskriftina

Mamma mía, þessi er svakaleg. Ég held að ég verði einn daginn að gera þessa.

PS. Af hverju er ekki hægt að ýta á takka hérna á vefnum og fá svona köku bara beint út úr tölvunni?!! Why, Sigrún, why?

sigrun
15. júl. 2016

I'm on it! I am ON IT!