Súkkulaði biscotti með möndlum og þurrkuðum kirsuberjum
30. janúar, 2006
Ég fann einhvern tímann uppskrift að súkkulaðibiscotti sem innihélt um 310 grömm af sykri. Ég lýg því ekki. Ég minnkaði sykurinn um 100 grömm og nota heldur ekki sætt kirsuber og kökurnar eru samt alveg feykinóg sætar. Kirsuberin gefa skemmtilegt bragð á móti möndlunum en ef þið finnið ekki þurrkuð kirsuber má nota trönuber í staðinn. Gætið þess bara að kaupa ekki sykurhúðuð ber en af þeim er víst nóg!
Súkkulaðibiscotti, æði með kaffinu
Þessi uppskrift er:
- Án mjólkur
Súkkulaði biscotti með möndlum og þurrkuðum kirsuberjum
Gerir um 15-20 stykki
Innihald
- 90 g þurrkuð kirsuber (án viðbætts sykurs)
- 140 g möndlur
- 280 g spelti, fínt og fróft til helminga
- 160 g hrásykur
- 45 g kakó
- 2 tsk vínsteinslyftiduft
- 1 tsk möndludropar (úr heilsubúð)
- 2 egg
- 2 eggjahvítur
- 2-3 msk vatn
Aðferð
- Saxið kirsuberin og möndlurnar smátt.
- Sigtið saman í stóra skál: spelti, hrásykur, kakó og vínsteinslyftiduft. Hrærið vel.
- Í annarri skál skuluð þið hræra saman eggjum, eggjahvítum og möndludropum. Hellið út í stóru skálina og blandið vel saman. Bætið við svolitlu af köldu vatni ef deigið er of þurrt. Deigið á að vera þétt og rakt (ekki mjög blautt) og helst sprungulaust. Gott er að miða við að deigið sé eins og leir. Bætið söxuðu kirsuberjunum og möndlunum út í stóru skálina og hnoðið vel. Nota má deigkrók og hrærivél.
- Setjið bökunarpappír á bökunarplötu. Skiptið deiginu í tvennt og setjið á plötuna. Deigið ætti að vera um 6 sm á breidd, 30 sm á lengd og um 2,5 sm á hæð, gætið þess að láta ekki helmingana tvo snertast. Bakið við 150°C í um 30 mínútur.
- Takið úr ofninum og látið kólna í um 30 mínútur.
- Skerið hleifana skáhallt, í rúmlega 1 sm sneiðar. Raðið sneiðunum á bökunarpappírinn.
- Bakið áfram í um 15 mínútur.
- Hér er gott að taka minnstu sneiðarnar út (endana) því annars brenna þær.
- Takið úr ofninum, snúið sneiðunum við og bakið í um 10-15 mínútur. Fylgist með því að sneiðarnar brenni ekki.
- Slökkvið á ofninum og opnið hann og leyfið biscotti kökunum að kólna inn í ofninum.
Gott að hafa í huga
- Geymið sneiðarnar í loftþéttu boxi, þær geymast þannig alveg upp undir 3 vikur.
- Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
- Gott er að saxa svolítið af dökku, lífrænt framleiddu súkkulaði með hrásykri (t.d. Green & Black's eða Rapunzel) og hræra saman við deigið. Það má minnka sykurinn ef þið bætið súkkulaði út í.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024
Ummæli um uppskriftina
09. des. 2010
uhmmm prófaði að gera þessar og fannst alveg ótrúlega góðar!
Breyti örlítið uppskriftinni og sett gróft spellti og 50 g kakónibs með, snilldar uppskrift eins og auðvitað þinni FRÁBÆRI vefur Sigrún!
09. des. 2010
Gaman að heyra Jana. Líst vel á viðbótina/breytinguna, hefur örugglega verið bragðgóð :)