Sudusúpa (indversk fiskisúpa)
28. febrúar, 2003
Eins og svo oft áður höfum við fengið frábæran mat hjá Helgu og Þórhalli vinafólki okkar, þau eru snilldarkokkar. Þessi uppskrift kemur frá indverskri kunningjakonu þeirra, Sudu að nafni. Uppskriftin er því alvöru indversk heimilisuppskrift! Súpan hentar vel fyrir þá sem hafa glúteinóþol. Einnig er auðvelt að gera súpuna mjólkurlausa. Súpuna má frysta. Athugið að gott er að leyfa súpunni að malla svolítið eða í allt að klukkustund.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án eggja
- Án hneta
Þessa uppskrift er auðvelt að gera:
- Án mjólkur
Sudusúpa (indversk fiskisúpa)
Fyrir 2-3
Innihald
- 1 laukur, saxaður smátt
- 1 tsk kókosolía
- 1 rauð paprika, söxuð smátt
- 1 gul paprika, söxuð smátt
- 2 gerlausir grænmetisteningar
- 2 msk fiskisósa (Nam Plah)
- 400 g tómatar, saxaðir (ferskir eða úr dós)
- 425 ml óáfengt hvítvín (eða mysa)
- 2 tsk karrí
- 125 ml léttmjólk
- 125 ml matreiðslurjómi
- 1 mtsk maísmjöl (eða arrow root) leyst upp í 1 msk af vatni
- 250 g rækjur (eða blanda af sjávarréttum)
Aðferð
- Afhýðið lauk og saxið smátt.
- Skerið paprikur langsum, fræhreinsið og saxið smátt.
- Hitið kókosolíiu í potti. Hitið lauk og papriku. Bætið vatni í pottinn ef vantar meiri vökva.
- Setjið tómatana út í pottinn og látið malla í um 10 mínútur.
- Setjið karrí, grænmetistening, vatn, óáfenga hvítvínið og fiskisósu í pottinn og látið malla í um 5 mínútur.
- Bætið mjólkinni og matreiðslurjómanum út í súpuna.
- Látið súpuna malla á lágum hita í góðan tíma, allt að 1 klukkustund eða meira.
- Bætið rækjunum út í um 3 mínútum áður en súpan er borin fram.
Gott að hafa í huga
- Þessi súpa er ekki síðri daginn eftir þegar hún er búin að taka í sig allt kryddbragðið.
- Einnig er hægt að þykkja súpuna (með maísmjöli) ef er afgangur af henni og nota sem sósu út á pasta daginn eftir.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga. - Nota má hrísmjólk, möndlumjólk, sojamjólk eða haframjólk í staðinn fyrir léttmjólk.
- Nota má sojarjóma eða hafrarjóma í staðinn fyrir matreiðslurjóma (ég er hrifin af Oatly merkinu). Einnig má nota kókosmjólk.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024