Spínatrétturinn úr dularfulla húsinu í skóginum í Nairobi

Það er löng saga að segja frá þessum rétti og hvernig ég fékk „uppskrift” að honum. Það atvikaðist þannig að í september 2007 var ég stödd alein í Nairobi. Ég var að taka á móti ferðafólki morguninn eftir frá Íslandi sem voru á leið í safarí. Jóhannes var með annan hóp í Mombasa. Borgar bróðir minn hafði ætlað að redda fyrir mig hótelherbergi en var aðeins of seinn þannig að ég var eiginlega á vergangi sem er ekkert endilega sniðugt í Nairobi. Nú... bróðir minn þekkir marga í Afríku og Stephanie sem vinnur fyrir hann mundi að vinkona hennar býr einmitt í Nairobi, rétt fyrir utan eða í Karen hverfinu sem heitir eftir Karen Blixen og liggur rétt við þjóðgarð Nairobi (þar sem má finna fíla, ljón, hléberða, nashyrninga og mörg fleiri dýr). Cornelius, innfæddi bílstjórinn minn sem var að rúnta með mig á glænýja, flotta Land Cruiser safaríbílnum þeirra Borgars og Elínar fékk það verkefni að keyra mig til þessarrar konu.

Ég vissi ekkert hvert ég var að fara (nema til Karen), hvernig húsið væri, hvort konan væri ein, hvort hún væri almennileg eða hvað. Ég vissi nákvæmlega ekkert. Það var farið að rökkva og Cornelius ákvað að stytta sér leið í Nairobi. Hann keyrði langt inn í eitthvað hverfi Nairobi og þar sátum við í umferðarteppu. Það fór að skyggja og Cornelius að ókyrrast aðeins í sætinu. Þarna eru ekki götuljós nema á stöku stað og alls staðar er verið að selja varning á götunni. Þegar líða tók á umferðarteppuna voru einhverjir pörupiltar farnir að horfa inn um bílgluggann og kalla Mzungu eitthvað....Ég veit hvað mzungu þýðir (hvít manneskja) en ég skildi ekki hitt. Ég spurði Cornelius að því en hann sagði bara „þú vilt ekki vita restina”. Hann sagði mér að læsa bílhurðunum. Ekkert sérlega róandi svona í miðri Nairobi að vera á splunku-, glænýjum og rándýrum safaríjeppa þegar skyggja tekur. Það var eftir klukkutíma, í umferðarteppunni sem ég áttaði mig á því að ég hafði ekki séð eina einustu hvíta manneskju allan þennan tíma í teppunni. Það er mjög óvenjulegt í Nairobi þar sem margir stunda viðskipti frá öllum heimshornum. Nú við losnuðum loksins úr teppunni og keyrðum í kolniðamyrkri eitthvert út í buskann. Ég kannaðist reyndar við mig sums staðar en svo loksins keyrði Cornelius eitthvert út í skóg....Ég treysti bílstjóranum sem betur fer því annars hefði ég orðið sturluð úr hræðslu svona alein. Við keyrum í skóginum eftir kræklóttum stíg og í fjarska heyrum við gelt (eða þess vegna öskur úr flóðhesti svo djúp voru hljóðin). Þegar við komum nær heyrðum við geltið magnast og drottinn minn dýri ég hef aldrei heyrt önnur eins hljóð í skepnu. Þetta var það dýpsta gelt sem ég hef heyrt og beinlínis öskraði „risa, risa stór hundur”. Ég er ekki hrædd við hunda, síður en svo en ég þorði ekki að hreyfa mig út úr bílnum (hundar í Afríku er yfirleitt ekki gæludýr, þeir eru varðhundar og í orðsins fyllstu merkingu). Þetta reyndist vera blanda af Grate Dane og Rhodesian Ridge Back sem þýðir að hann var gríðarlega stór.

Þarna kemur kona á móti okkur sem sussar á hundana og segist vera vinkona Stephanie að nafni Lumman. Hún var sænsk og bauð mig velkomna á heimili sitt. Hún vísaði mér í gestahúsið sem var við hliðina á stóra húsinu og þar var nýbúið að gera upp gistiaðstöðu með dýnu á gólfinu, sturtu en ekkert annað, ekki einu sinni stól. Það hentaði vel því ég var þreytt og þurfti að vakna snemma, Cornelius ætlaði að sækja mig klukkan 4.45. Lumman tók ekki annað í mál en að ég fengi að borða og hún sagði mér að hún ætlaði að sækja mig eftir klukkutíma. Sem hún gerði. Hún dró mig í gegnum kolniðamyrkur (það er verið að gera húsið upp og allt rafmagnslaust) og leiddi mig út á verönd. Þar var búið að dekka borð með kertaljósum, nýbakað brauð ilmaði og ég fann lykt af meiri, dásamlegum mat. Ég fann að ég var orðin glorhungruð. Ég settist til borðs og af því að þögnin var algjör, tunglið var nánast fullt en samt stjörnubjart þá bæði sá ég og heyrði í fullt af dýrum, bæði antilópum, kanínum, bjöllum, engisprettum o.fl., o.fl. Þetta var svo súrrealískt. Eftir smá stund fóru fjölskyldumeðlimirnir að tínast að borðinu. Þar voru þrjár stúlkur á mismunandi aldri, eiginmaðurinn sem er frá austurríki en fæddur í Kenya og svo fjölskylduvinurinn sem gat ekki borið fram r og sagði l í staðinn. Það gat verið hrikalega fyndið en ég gat auðvitað ekki hlegið, enda dónalegt. Fjölskylda þessi var einstaklega gestrisin og spurði mig í þaula um Ísland, hvað ég væri að gera í Kenya o.s.frv. Það kom upp úr kafinu að yngsta dóttirin 8 ára (sem í skólaferðalögum fer í kamel safarí og gistir í tjaldi í eyðimörkinni...) var með áhuga á íslenskum hestum og fannst mikið til koma að ég vissi allt um íslenska hestinn og væri nýkomin úr viku hestaferð á fjöllum. Það var margt fleira forvitnilegt sem ég bæði heyrði og þau sögðu mér frá. Til dæmis er aðal atvinna húsfreyjunar að smíða húsgögn úr gömlum (100 ára) dhow skipum (skip sem notuð voru til að sigla með krydd, þræla og ýmsan varning frá Zanzibar og áleiðis). Húsgögnin voru þannig að mig langaði til að kaupa nákvæmlega allt. Nú...elsta dóttirin (eitthvað um 17 ára) var að berjast við hvítblæði og fjölskyldan fór í ár til Austurríkis til að fá bestu meðhöndlun fyrir dótturina. Þau sögðu að lokum að steinsteypan hefði verið að drepa þau öll og þau voru farin að þrá Afríku aftur. Sem ég skil svo að mörgu leyti. Þegar þau voru að segja mér allt um þetta mál kom kisi að mér og straukst við fótinn á mér. Eins og alltaf þegar maður borðar undir berum himni í myrkrinu í Afríku þá bregður manni...„vertu alveg róleg” sagði Lumman....„þetta er bara kisi...”. „Eigið þið kisur” spurði ég. „Já...þeir voru tveir....en það var hlébarði sem át hina kisuna fyrir ári síðan hérna í garðinum”.

Þetta var fáránlega löng lýsing á uppskrift, sú lengsta sem ég hef skrifað en þetta var svo furðuleg upplifun og ég hugsaði með mér undir stjörnubjörtum himninum...þessu verð ég að deila með ykkur....Húsfreyjan átti ekki uppskrift að réttinum en ég bað hana um innihaldslýsingu og uppskriftin er nokkuð nærri lagi...nema það vantar hlébarða og engisprettuhljóð.


Berist fram við engisprettuhljóð og hlébarðagelt

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta
 • Vegan

Spínatrétturinn úr dularfulla húsinu í skóginum í Nairobi

Fyrir 2 sem aðalréttur

Innihald

 • 1 hvítlauksrif, saxað smátt
 • Hálfur blaðlaukur, saxaður (má sleppa)
 • 1 laukur, saxaður gróft
 • 1 tsk kókosolía
 • 300-500 g ferskt eða frosið spínat. Ef frosið, látið það þiðna og kreistið vatnið úr
 • 1 tsk karrí
 • 2 msk kókosmjólk
 • Tæplega einn gerlaus grænmetisteningur

Aðferð

 1. Afhýðið lauk og hvítlauk og saxið smátt.
 2. Saxið blaðlaukinn frekar smátt.
 3. Hitið kókosolíu á pönnu. Steikið hvítlauk, lauk og blaðlauk. Bætið við smá vatni ef þarf á pönnunni. Steikið þangað til laukurinn fer að linast.
 4. Leysið grænmetisteninginn upp í nokkrum matskeiðum af heitu vatni. Hellið út á pönnuna og kryddið með karríi. Hrærið vel.
 5. Ef þið notið frosið spínat, látið þá þiðna og kreistið vatnið úr.
 6. Saxið spínatið gróft og bætið út á pönnuna.
 7. Bætið kókosmjólkinni saman við og hitið aðeins meira, eða að suðu.
 8. Berið fram með nýbökuðu snittubrauði. Einnig passa kókosbrauðbollurnar vel við.

Gott að hafa í huga

 • Á borðum þetta kvöld var einnig graskersréttur, mjög góður með spínatréttinum.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
 • Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
 • Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
 • Ef afgangur er af kókosmjólkinni má frysta hann í ísmolabox og nota síðar.

Ummæli um uppskriftina

Halla Dögg
17. ágú. 2012

Mikið svakalega var þetta góður réttur nammi namm :)

sigrun
17. ágú. 2012

Gaman að heyra Halla Dögg og takk fyrir að deila með okkur :)